Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þakkaði heilbrigðisstarfsfólki, kennurum og ræstitæknum í ávarpi sínu við þingsetningu í dag.

Í ræðu sinni einblíndi Guðni á mál málanna: kórónaveirufaraldurinn og áhrif þess á samfélagið og brýndi fyrir landsmönnum að sýna áfram þrautseigju, æðruleysi og þor.

Hann minntist þess að þegar þing var sett fyrir ári hefði engan órað fyrir þeim hremmingum sem á okkur hafa dunið.

„Þá hafði veiran skæða ekki látið á sér kræla. Þá voru önnur mál efst í okkar huga. Nú er allt breytt,“ sagði forsetinn

Guðni þakkaði heilbrigðisstarfsfólki, kennurum, ræstitæknum og verslunarfólki, við þingsetningu í dag.
Fréttblaðið/Anton Brink
Guðni minntist þess að við þingsetningu fyrir ári hefði engan órað fyrir þeim hremmingum sem á okkur hafa dunið.
Fréttablaðið/Anton Brink

Guðni ræddi um áhrif veirunnar á líf landsmanna; margir hafi veikst illa, heimilisofbeldi hafi aukist, fyrirtæki væru í vanda, menningarviðburðir stöðvaðir og fólk misst vinnu. Hann telur að án aðgerða yfirvalda hefðum við flotið að feigðarósi. „Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu“

Síðustu mánuði hafi Íslendinga átt ótal mörgum gott að gjalda.

„Ég veit að ég mæli fyrir hönd heillar þjóðar þegar ég þakka starfsfólki á sviði heilbrigðis, aðhlynningar og velferðar, þeirra drjúgu verk. Þökkum einnig kennurum og stjórnendum, skólaliðum, ræstitæknum og öllum öðrum sem sáu til þess að skólastarfi hefur verið haldið uppi, frá leikskólum að háskólastigi. Þá á starfsfólki í verslun og þjónustu þakkir skildar í nánd við aðra daginn út og inn,“ sagði Guðni.

Alþingi var sett í dag og hófst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Að guðsþjónustu lokinni gengu forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
Fréttablaðið/Anton Brink