Mjög hefur dregið úr brottfalli nemenda á framhaldsskólastigi. Skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, VMA, segir auðveldara að telja nemendum sem vilja hætta námi hughvarf, eftir að breyting var gerð á náminu með skemmri námstíma.

Í upphafi þessarar aldar var næstum þriðji hver nemandi í framhaldsskóla hættur námi fjórum árum eftir innritun. Ef horft er til ársins 2016 var hlutfall þeirra sem voru hættir eftir fjögur ár komið niður í 19,9 prósent. Með öðrum orðum ná nú meira en fjórir af hverjum fimm að útskrifast.

Brottfall hefur lengi verið mun meira mein í íslenskum framhaldsskólum en í nágrannalöndum. Körlum er enn hættara en konum við að útskrifast ekki. Af nýnemum ársins 2016 höfðu tæp 25 prósent karla hætt námi án þess að hafa útskrifast árið 2020 en 15 prósent kvenna. Brotthvarf var meira meðal nemenda í starfsnámi en í bóknámi. Hafði þriðji hver nýnemi í starfsnámi árið 2016 hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum síðar, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Þá var brotthvarf meira í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þó hættu færri nýnemar í starfsnámi í skólum á landsbyggðinni án þess að útskrifast en nýnemar í starfsnámi á höfuðborgarsvæðinu.

Sá hópur sem er í mestri hættu eru innflytjendur. Rúmlega 46 prósent innflytjenda, sem hófu nám í dagskóla á framhaldsskólastigi haustið 2016, höfðu hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum seinna. Það er þó minnsta brotthvarf þessa hóps sem mælst hefur hjá Hagstofunni en mun meira en meðal nýnema með íslenskan bakgrunn.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, fagnar niðurstöðunum. Hún segir að Covid hafi heldur ýtt undir brottfall síðustu annir en engu að síður sé um að ræða markvissa þróun í rétta átt í skólastarfi.

„Þessar tölur styðja mína tilfinningu, að eftir að námi til stúdentsprófs var breytt er minni skólaleiði. Nemendur ná frekar að klára,“ segir Sigríður Huld.

Skólameistari VMA vill fremur tala um breytingu á námi til stúdentsprófs en styttingu náms. „Að tala um styttingu hefur neikvæðan blæ yfir sér, það gefur til kynna að búið sé að rýra námið. Við erum ekki með rýrt nám til stúdentsprófs en við erum með breytt nám til stúdentsprófs. Meðalnámstíminn hefur orðið styttri en hann var og það er til bóta.“

Sigríður Huld segist hafa unnið sem stjórnandi í framhaldsskólum um langa hríð. Hún hafi rætt við ótalmarga nemendur sem hafi lent í vanda og viljað hætta. Hennar reynsla sé að það sé mun auðveldara að telja nemendum sem vilja hætta hughvarf eftir að náminu var breytt. „Það er styttra í land þegar maður getur bent nemendum á að þeir eigi bara þrjár annir eftir en ekki fimm.“

Breyttar og bættar námskrár hafa mikið að segja til að hamla gegn brottfalli, að sögn skólameistara. Skólarnir hafi lagað sig meira að þörfum nemenda en var.