Fjóla Kristins­dóttir var rétt komin á ról í morgun þegar hún heyrði hrika­legan há­vaða á þakinu.

„Það er búið að vera brjálað veður hérna og það var rétt fyrir átta þá héldum við að það hefði eitt­hvað lent á húsinu“ segir Fjóla í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að veðrið hafi versnað mikið um fimm leytið í nótt en hún er stað­sett á Sel­fossi og hefur búið síðustu sex­tán ár við Ölfus­ár­ósinn.

„Það er ekki stætt úti og maðurinn minn fór út og sá þá að þakið var farið að losna og rúllast upp. Plöturnar eru fastar saman þannig þær fóru ekki en það var eins og þakið væri að skrælna af,“ segir Fjóla.

Hún segir að þau hafi hringt í Neyðar­línuna eftir að­stoð en það hafi ekki liðið á löngu þar til vinir og vanda­menn streymdu að til að að­stoða.

„Svo var þetta hópur fólks að reyna að halda stigum og negla þetta niður og koma í veg fyrir meira tjón, að þetta myndi fjúka eitt­hvað. Maður var svo hræddur um það þannig það fyrsta sem við gerðum var að hringja í ná­granna og biðja þau að færa bílana,“ segir Fjóla en margir eru heima því það er vetrar­frí í skólum á Sel­fossi núna.

Þakið var neglt aftur niður svo það myndi ekki fjúka af.
Mynd/Aðsend

Þakklát að yngsta barnið var ekki heima

Hún segir að það hafi ekki tekið björgunar­sveitina langan tíma að koma og þau hafi náð að festa þakið niður svo að það myndi ekki fjúka af stað eða tjónið verða meira.

„Þau komu bara hérna eins og bjarg­vættirnir sem þau eru. Maður fyllist svo miklu þakk­læti en sér­stak­lega þegar maður þarf svo sjálfur að fá hjálp. Við þekkjum auð­vitað marga í björgunar­sveitinni og svo streymdu líka vinir að. Það er rosa­lega góð til­finninga að vita hversu margir eru til í að hlaupa undir bagga í svona að­stæðum,“ segir Fjóla.

Hún segir að nú þegar orðið er bjart þá virðist að­stæður ekki eins slæmar auk þess sem vindinn er að­eins farið að lægja, þótt hann sé enn mjög mikill. Hún segist auk þess mjög þakk­lát að yngsta dóttir hennar var í gisti­partý hjá vin­konu og ekki heima.

Fjóla segir að þau sex­tán ár sem þau hafi búið þarna hafi þau aldrei lent í öðru eins.

„Við höfum lent í alls­konar veðri en ekki neinu svona en fyrsta hugsunin er að valda ekki öðrum tjóni,“ segir Fjóla og að þau séu mjög fegin að hægt var að koma í veg fyrir að plöturnar hafi fokið af og þannig getað valdið meira tjóni í bænum eða jafn­vel slysi.

Fjóla Kristinsdóttir er þakklát fyrir stuðninginn sem hún og fjölskyldan fékk í morgun þegar þakið losnaði.
Mynd/Aðsend

Hér að neðan má sjá myndskeið af björgunarsveitinni við störf í morgun hjá Fjólu.