Pod­cast­þættir Sölva Tryggva­sonar eru horfnir af mynd­bands­síðunni Youtu­be. Þá er ekki lengur hægt að finna nýjustu þættina í seríunni á streymis­þjónustum Spoti­fy og App­le. Verið er að eyða þáttunum á þeim veitum þegar þetta er skrifað.

Þættirnir hafa undan­farið ár verið meðal lang­vin­sælustu hlað­varps­þátta landsins. Rúm­lega 70 þúsund manns höfðu horft á nýjasta þáttinn í seríunni á Youtu­be, þar sem Sölvi ræddi við þá­verandi réttar­gæslu­mann sinn, Sögu Ýrr Jóns­dóttur, um á­sakanir í sinn garð um of­beldi.

Ekkert hefur heyrst til Sölva síðan hann kom fram í frægum loka­þætti hlað­varpsseríunnar - í bili að minnsta kosti. Í fram­haldinu af því að þátturinn birtist greindi Frétta­blaðið frá því að tvær konur hefðu kært Sölva til lög­reglu vegna meints of­beldis af hans hálfu.

Saga Ýrr til­kynnti það á mánu­dag að hún hafi sagt sig frá máli Sölva vegna hags­muna­á­rekstra. Sagðist hún hafa fengið upp­lýsingar um það að önnur kvennanna sem kærði Sölva væri einn um­bjóð­enda sinna í hóp­mál­sókn sem verið hefði í gangi í nokkur ár og væri enn í rekstri fyrir dóm­stólum.

„Ég viður­­kenni fús­­lega að mér varð brugðið við þessar upp­­­lýsingar en við þá konu hef ég átt í góðum og miklum sam­­skiptum sem lög­­maður undir rekstri hóp­­mál­­sóknarinnar. Vegna þessa aug­­ljósa hags­muna­á­­reksturs er mér ekki annað fært en að segja mig frá máli Sölva og held því á­­fram að vinna að hags­munum um­­ræddrar konu í hóp­­mál­­sókninni í góðu sam­ráði við hana. Sölva sjálfan hef ég látið vita af þessari á­­kvörðun minni og ég óska honum vel­farnaðar í sínum verk­efnum,“ sagði í til­kynningunni.

Youtube/Skjáskot