Íslensk stjórnvöld buðu alls 123 afgönskum flóttamönnum vernd síðasta haust, í kjölfar valdatöku Talibana.

Alls þáðu 78 einstaklingar boðið en fimm manna fjölskylda þáði ekki boð um að flytjast til Íslands og fjörutíu einstaklingar fengu vernd í öðrum ríkjum.

Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu skiptast hinir 78 einstaklingar á eftirfarandi hátt: Tuttugu starfsmenn Atlantshafsbandalagsins, fimm afganskir kvenkyns dómarar og fjölskyldur þeirra. Ellefu fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi og 42 manneskjur í fjölskyldusameiningu.

Ljóst er að hingað til lands hafa einnig komið afganskir flóttamenn og sótt um vernd á eigin vegum. Sumir þessara einstaklinga hafa hins vegar fallið undir skilgreiningar íslenskra stjórnvalda og fengið vernd á þeim grundvelli og því er erfitt að aðgreina þessa tvo hópa.

Í skriflegu svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að frá ágúst 2021 hafi 46 Afganar sótt um vernd á Íslandi á eigin vegum og 29 þeirra fengið veitta vernd eða viðbótarvernd.