Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, segir það á­hyggju­efni að landa­mæra­skimuninn sé kominn í upp­nám. Á þriðju­daginn í næstu viku mun Ís­lensk erfða­greining hætta allir að­komu að skimun á landa­mærum Ís­lands. Ljóst er að Sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans mun ekki geta fyllt í skarð ÍE strax í næstu viku.

Bogi segir að allar frekari ferða­takmanir muni hafa á­hrif á eftir­spurn en flug­fé­lagið hefur eftir bestu getu undir­búið sig fyrir ó­vissu­á­stand til lengri tíma.

„Við gerum ráð fyrir því að það verði til­tölu­lega lítil fram­leiðsla hjá okkur næstu vikur. Menn hafa verið að byggja smá saman upp sem er já­kvætt. Við höfum verið með fimm til sex brott­farir á dag í byrjun júlí­mánaðar. Það yrði vont að þurfa skala niður aftur,“ segir Bogi í sam­tali við Frétta­blaðið og bætir við að Icelandair fylgist grannt með þróun mál.

Alls flugu 18 þúsund manns með Icelandair í júní og er það tölu­verð aukning far­þega frá því í maí þegar heildar­fjöldi far­þega var ekki nema þrjú þúsund. Kórónu­veiran hefur sett sitt mark á rekstur flug­­fé­lagsins og sam­­dráttur í júní­­mánuði í ár miðað við sama tíma í fyrra er 97 prósent.

Í júní í fyrra flugu þannig sam­tals um 553 þúsund far­þegar með Icelandair. Heildar­­fram­­boð fé­lagsins hefur minnkað um 96 prósent milli ára.

Það má ekki koma bakslag í uppbygginguna

Bogi segir að Icelandair mun fylgjast með framgöngu mála næstu daga. Hann segir það mikilvægt að skimun haldi áfram með svipuðum hætti og hefur verið síðustu vikur.

„Við fylgjumst með á hliðar­línunni og vonum þetta haldi á­fram eins og verið hefur,“ segir Bogi. „Þannig á­hrifin verði sem minnst fyrir okkur og ferða­þjónustuna á Ís­landi. Það er mikilvægt upp­byggingin getur haldið á­fram. Það má komi ekki bak­slag í hana.“

Á­fanga­stöðum Icelandair Í Ameríku átti að fjölga í gær en stefnt var að því að bæta við flugum til New York og Minnea­polis, þann 6. júlí.

Bogi segir að Ameríku­flugunum var frestað þar sem Bandaríkin eru enn lokuð. Flug­fé­lagið flýgur einungis til Boston eins og staðan er núna en stefnt að því að hefja flug til Seatt­le 10. júlí.