Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, hvetur fólk til að sýna fram­línu­fólki í verslun þá virðingu sem það á skilið. Ragnar segir að enn og aftur hafi borið á slæmri fram­komu við­skipta­vina í garð af­greiðslu­fólks í verslun.

„Síðustu misseri hafa verið af­greiðslu­fólki afar erfið og krefjandi á tímum heims­far­aldursins. Það er í raun ó­skiljan­legt hversu lítið til­lit hefur verið tekið til mikil­vægi fram­línu­starfa eins og í verslun,“ segir Ragnar í færslu á Face­book sem hann hvetur fólk til að deila.

„Það er varla hægt að gera sér í hugar­lund hvernig staðan hefði verið ef al­menningur hefði ekki haft nær ó­heftan að­gang að nauð­synja­vöru og annarri þjónustu. Álag hefur aukist mikið á starfs­fólk vegna mikillar aukningar á veltu sem nær svo há­marki í að­draganda stór­há­tíða. Ef það er ekki nóg þá þarf verslunar­fólk alla jafna að bera grímu og vera í hönskum meira og minna á vinnu­tíma.“

Ragnar segir að það sé ekki á það bætandi að við­skota­illir við­skipta­vinir taki tog­streitu og pirring dagsins með sér út í búð og láti það bitna á starfs­fólki verslana, sem síst eiga það skilið.

„Tala nú ekki um gagn­vart unga fólkinu okkar sem er að taka sín fyrstu skref á vinnu­markaði, viljum við að upp­lifun þeirra sé já­kvæð og upp­byggi­leg. Það vill engin sjá barnið sitt niður­brotið eftir vinnu­dag vegna slæmrar fram­komu við­skipta­vina,“ segir Ragnar Þór sem bætir við að lokum:

„Það eru erfiðir tímar í okkar sam­fé­lagi. Tímar ó­vissu og tak­markana, sótt­kvía og ein­angrunar. Þá er enn­þá mikil­vægara að standa saman með kær­leika, virðingu og þakk­læti að vopni. Sýnum fram­línu­fólki í verslun þá virðingu sem það á skilið. Þökkum því fyrir að standa vaktina og gegna þessu mikil­væga og ó­missandi hlut­verki í okkar sam­fé­lagi.“