Eyad Onan og Helen Benedict kynntust á eyjunni Samos í Grikklandi. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna en þau voru þó hvorugt þar í fríi.

Nú, fjórum árum síðar, kemur út bók eftir þau, sem þau hafa skrifað saman, um flóttafólk sem er fast á Grikklandi. Rætt er við nokkra einstaklinga frá ólíkum löndum sem hafa ólíka sögu í bókinni, þar á meðal Eyad, en eiga það öll sameiginlegt að hafa verið föst á flótta í Grikklandi.

Helen var á Samos í leit að þekkingu fyrir skáldsögu sem hún ætlaði sér að skrifa. Eyad var þar búsettur sem flóttamaður, í flóttamannabúðum. Þau kynntust í lítilli verslun þar sem Eyad var ásamt vini sínum að versla.

„Okkur þykir báðum svo vænt um það hvernig við kynntumst,“ segir Helen, lítur á Eyad og heldur svo áfram:

„Ég var í búðinni til að kaupa landakort og heyrði hann tala ensku og spurði hann strax hvort hann vildi drekka með mér kaffi,“ segir hún og að það hafi svo verið verslunareigandinn sem benti henni á að hún ætti kannski að tilgreina af hverju hún vildi tala við hann.

Í flóttamannabúðunum horfir maður yfir fallega eyjuna sem er vinsæll áfangastaður.
Fréttablaðið/Getty

Eyad segir að hann hafi ekki verið laus þennan dag og því hafi þau ákveðið að hittast seinna.

„Daginn eftir sá ég hana svo í búðunum en hún var að reyna að hitta yfirmann þar, en það tókst ekki,“ segir Eyad og að til að eiga betri samræður hafi þau farið úr búðunum en innan þeirra er vel fylgst með fólki, sérstaklega ef þau tala við einhvern utanaðkomandi.

„Það mikilvægasta sem hún var með var brosið og það gerði allt auðveldara,“ segir Eyad.

Rangar upplýsingar í umferð

„Við viljum segja heiminum hvað við höfum upplifað með okkar eigin orðum,“ segir Eyad ákveðinn um það af hverju þau ákváðu að skrifa bókina. Hann segir mikið af röngum upplýsingum í umferð um Grikkland, móttöku flóttafólks þar og aðstæðurnar sem það býr við.

„Það eru lög sem segja að við eigum að fá sömu réttindi og Grikkir, en ég held að það séu engir Grikkir sem fara sjálfviljugir ekki í skóla, eða búa í skýli eða eru heimilislausir á torgi. Eða er meinað um læknisaðstoð.“

Þau hafa unnið að bókinni í mörg ár og á þeim tíma sem þau ákváðu að skrifa bókina var umræðan allt önnur. Þá var í hámæli umræða um „Tyrkjadílinn“ eins og þau kalla hann, en samkvæmt honum áttu Tyrkir að nota öll möguleg ráð til að koma í veg fyrir að flóttafólk kæmist þaðan og til Grikklands, allir sem komust til Grikklands átti að snúa aftur og fyrir hvern sýrlenskan flóttamann sem var skilað til Tyrklands myndi Evrópusambandið taka við einum sýrlenskum flóttamanni þar.

Ef það væri ekki fyrir þetta stríð þá væri ég ekki hér, eða í Evrópu. Kannski kæmi ég í frí, en annars myndi ég vilja vera í mínu heimalandi.

„Þaðan kemur titill bókarinnar, því þau eru bókstaflega föst í Grikklandi,“ segir Helen um samninginn og að samhliða því hafi grísk yfirvöld gert liggur við allt í sínu valdi til að gera líf flóttafólks óbærilegt.

„Þeirra hugmyndir eru að mörgu leyti þær sömu og Trump hafði, sem fjalla um að hafa stefnu sem gerir flóttafólki lífið svo erfitt að það hætti að koma. Eins og þau séu ekki að koma því það er stríð, eða að ef þau fari ekki þá deyi þau, heldur séu þau að koma því þau vilji peninginn okkar og störfin. Þetta er lygasagan sem er svo ótrúlega ósanngjörn og röng,“ segir Helen reið.

Umræðan hefur breyst

Í gegnum árin hefur svo umræða um flóttafólk í Evrópu breyst og þróast og nefna þau sem dæmi Dyflinnarreglugerðina og svo nýlega umræðu um endursendingar til Grikklands og hvort þær eigi rétt á sér. Þau segja að einhver lönd hafi tekið fyrir þær, eins og Þýskaland, en svo eru lönd eins og Finnland og Danmörk sem senda til baka, og meira að segja senda Danir ekki til Grikklands, heldur beint aftur til Sýrlands, bendir Eyad á.

„Í Bretlandi eru þau svo að fara að senda flóttafólk til Rúanda,“ segir Helen og að það sem sé einna hryllilegast við þessa framkvæmd er að nasistar ætluðu sér að senda gyðinga til Afríkuríkja áður en þeir ákváðu að myrða þá alla,“ segir Helen og að hún hræðist þennan málflutning og stefnu breskra stjórnvalda mikið.

Eyad segir að harðari innflytjendastefna víða í heiminum og mögulegar afleiðingar hennar sé ein af ástæðunum fyrir því að þau skrifuðu bókina, en líka af hverju fólkið sem þau töluðu við var tilbúið til að segja sína sögu.

„Það vill enginn vera í þessari stöðu og fara frá landinu sínu vegna þess að þar er stríð. Allir sem eru hér eru að reyna að vera öruggir, með fjölskyldu sinni, eða þeim sem þessi manneskja elskar. Ef það væri ekki fyrir þetta stríð þá væri ég ekki hér, eða í Evrópu. Kannski kæmi ég í frí, en annars myndi ég vilja vera í mínu heimalandi,“ segir Eyad og að það sé ljót tilfinning þegar maður missir von.

Eyad segir mikilvægt að fólk á flótta fái sjálft að segja sína sögu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Markmið að finna öryggi

„Þegar maður hefur flúið heimaland sitt og maður hugsar með sér að markmiðið sé að finna öryggi, framtíð og að byggja mér eitthvað fjarri lykt af blóði og stríði, en þá segir einhver að maður sé ekki velkominn og að ég þurfi að fara aftur til baka. Það drepur mann að innan,“ segir Eyad leiður.

Stríðið í Úkraínu berst til tals og sá mikli fjöldi sem flúið hefur þaðan. Helen segir merkilegt að sjá þær viðtökur sem flóttafólk frá Úkraínu hefur fengið í Evrópu og að það sýni raunverulega hvað er hægt að gera fyrir fólk þegar viljinn er fyrir hendi.

„Með bókinni og orðum fólks í henni er útskýrt að við erum ekki hér til að fá peninga. Það er útskýrt með skýrum hætti,“ segir Eyad og að ástæðan sé öryggi, virðing, börn fólks og þess vegna eigi í það minnsta að finna fólki öruggan stað og tryggja því aðgengi að menntun.

„Með því að leyfa fólki að segja sína eigin sögu kemstu nær henni. Ég vil ekki að einhver annar segi mína sögu því hann mun ekki segja hana eins og ég. Ef það er eitthvað sem ég skammast mín fyrir þá get ég sleppt því að segja það, eða ef eitthvað er ekki mikilvægt. Þetta veitir mér þægindi og er það sem við reyndum að gera í bókinni. Að tryggja að allir sem sögðu sína sögu hefðu fulla stjórn á því hvernig sagan væri sögð,“ segir Eyad mjög ákveðinn.

Þegar maður hefur flúið heimaland sitt og maður hugsar með sér að markmiðið sé að finna öryggi, framtíð og að byggja mér eitthvað fjarri lykt af blóði og stríði, en þá segir einhver að maður sé ekki velkominn og að ég þurfi að fara aftur til baka. Það drepur mann að innan

Ekki hennar staður

Helen tekur undir þetta og segir sér að sama skapi ekki hafa fundist það sinn staður sem hvítrar konu í forréttindastöðu að segja þeirra sögu en auk þess hafi það strax skapað traust við viðmælendur að gefa þeim stjórn á frásögninni.

„Það tók auðvitað mörg ár að skrifa bókina en eftir því sem fólk treystir þér betur þá segir það þér meira,“ segir Helen.

Þau nefna einnig bæði aukna fordóma gegn flóttafólki, ekki bara hjá almenningi, heldur í stofnunum og í stefnu stjórnvalda í Grikklandi. Þau segja afleiðingar þess margvíslegar og sem dæmi að erfitt sé að fá húsnæði, fólk er beitt ofbeldi og viðkvæm staða þess misnotuð með ýmsum hætti, eins og að konur eru í meiri hættu á að vera neyddar í vændi eða mansal.

„Það sem fer einna mest í taugarnar á mér er að þau kalla hælisleitendur farandverkamenn [e. migrant],“ segir Helen og meinar þá ekki í lagalegum skilningi heldur nota þau þetta orð í pólitískum skilningi og sem áróður.

Ekki lögbrot að koma ólöglega

„Vegna þess að það eru grundvallarmannréttindi að sækja um hæli og lagalega máttu koma inn í land með ólöglegum hætti ef þú ert að sækja um hæli. Það er ekki brot á lögum en ef þú ert samkvæmt skilgreiningu farandverkamaður, þá ber ríkinu engin skylda til að veita þér vernd eða aðstoð og getur handtekið fólk fyrir að vera ólöglega í landinu,“ segir Helen til að útskýra muninn og af hverju þessi stefnubreyting og orðræða skiptir máli.

„Ég vona að þessi bók geti varpað ljósi á aðstæður þarna, með okkar orðum, því margir halda að líf okkar sé gott og að fólk sé öruggt á flótta í Grikklandi. Þetta fólk er ekki meðvitað um aðstæður þarna,“ segir Eyad og að það megi rekja til rangra upplýsinga sem eru í umferð og fréttum.

„Ég segi bara varðandi það fólk sem ég hef hitt á flótta: Heilindin og ákveðni sem þarf til að lifa af ferðalagið sem þau fóru í og svo ofbeldið sem þau verða fyrir. Að halda áfram þegar von þeirra er brotin aftur og aftur.

Ég held að þetta sé alveg sérstakt og þau séu einmitt fólkið sem hvert land þarf mest á að halda,“ segir Helen að lokum.