Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Natanssonar sakbornings í hryðjuverkamálinu, velti fyrir sér mikilli stefnubreytingu hjá lögreglunni í málinu í munnlegum málflutningi í héraðsdómi í gær.

Þar á hann við breytingu sem hefur átt sér stað við rannsókn málsins þegar lögregla hafði fengið heimildir til að fylgjast með mönnunum tveimur sem grunaðir eru, til dæmis með hlerunum. Innan við sólarhring eftir að lögregla fékk umræddar heimildir voru mennirnir handteknir.

Sveinn Andri Sveinsson til vinstri og Einar Oddur Sigurðsson til hægri.
Fréttablaðið/Ernir

„Það verður þarna einhver ótrúleg stefnubreyting hjá lögreglunni á stuttum tíma. Það kemur fram í gögnum málsins að lögreglan hafi talið tilefni til að fylgjast með mönnunum, en á þeim tíma benti ekkert til að þyrfti að handtaka þá eða grípa inn í,“ segir Einar.

„Það er einhver breyting sem á sér stað á þessum tíma. Það er ómögulegt að gera sér grein fyrir hvað það er, en mögulega verður það leitt í ljós við aðalmeðferð málsins,“ segir hann. „Þetta hefur ekkert verið útskýrt, en hefur vakið athygli mína.“

Þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi í gær kröfðust sakborningarnir þess að þeim ákæruliðum sem varða hryðjuverk yrði vísað frá dómi.

Verjendur mannanna hafa gagnrýnt að meint skipulagning hryðjuverka sé ótilgreind í dómnum. Í gær sagði saksóknari það liggja fyrir að mennirnir hefðu tekið ákvörðun um að fremja slík voðaverk, þó ekki lægi fyrir hvenær, gegn hverjum eða hvar þau hefðu átt að vera framin.

Fyrir dómi minntist Einar á blaðamannafund lögreglu sem haldinn var skömmu eftir handtökuna, þar sem sagt var að komið hefði verið í veg fyrir hættuástand. Sem verjandi mannsins sagðist Einar hafa beðið þess að fá einhver gögn í hendurnar sem myndu sýna fram á það, en telur að ekkert af gögnum málsins geri það.