Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir að það sé komið að ögurstundu í samningagerðinni. Enginn fundur var haldinn í kjaradeilu SGS (samflot iðn- og tæknimanna) og Samtaka atvinnulífsins í dag eins og til stóð en honum var frestað til morguns að beiðni ríkissáttasemjara.
Vilhjálmur vonast til þess að hægt sé að gera skammtímasamning núna og svo langtímasamning næsta haust þegar óvissa verður minni. Það mun skýrast á morgun en launaliðurinn er aðalmálið í skammtímasamningnum og segir Vilhjálmur að láglaunafólk verði að fá krónutöluhækkanir.
„Það verður ögurstund á morgun. Annað hvort ná menn þessu saman eða ekki. Það er erfitt að úttala sig um það hvort það takist eða ekki en það er alveg ljóst að það verður reynt,“ segir Vilhjálmur í samtali við Fréttablaðið.
Ekki vanþörf á launahækkunum
Spurður um næstu skref ef ekki næst að semja á morgun segir hann það eigi eftir að koma í ljós.
„Þá verður bara góð kæling á þessu og menn verða bara vega og meta stöðuna í sínu baklandi. Það er auðvitað bara félagsmennirnir sem taka ákvarðanir um slíkt en við erum ekki komnir á þann stað við erum að reyna finna lausn á þessu. Finna tækifæri til þess að koma launahækkunum hratt og vel til okkar félagsmanna og er ekki vanþörf á,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur gat ekki sagt til um hvort hann væri vongóður um að samningar myndu nást en spurður segir hann samtalið milli sín og Halldórs hafa verið gott í gegnum viðræðurnar. „Við höfum heyrst mjög þétt og reglulega og það er hluti að því þegar verið að leita leiða og við heyrum líka reglulega í ríkissáttasemjara það eru bara allir að reyna finna lausn á því hvort það sé hægt að ganga frá kjarasamningum“
Spurður um hvenær það yrði ljóst að slíta þyrfti viðræðunum eða hvort hann reikni með að funda fram eftir, segir Vilhjálmur það vera „milljóna dollara spurningin.“
„Við erum að koma i hús um eitt leytið. Ég veit það byrjar á samtali við iðnaðarmenn klukkan eitt og síðan munum við samhliða eiga samræður. Við erum auðvitað með fjölmenna samninganefnd þannig það er hægt að vinna þetta jafnt og þétt. Ég held að á þriggja til fjögurra tíma ramma skýrist hvort að menn nái saman eða ekki,“ segir Vilhjálmur að lokum.