Vil­hjálmur Birgis­son for­maður Starfs­greina­sam­bandsins segir að það sé komið að ögur­stundu í samninga­gerðinni. Enginn fundur var haldinn í kjaradeilu SGS (samflot iðn- og tæknimanna) og Samtaka atvinnulífsins í dag eins og til stóð en honum var frestað til morguns að beiðni ríkissáttasemjara.

Vil­hjálmur vonast til þess að hægt sé að gera skamm­tíma­samning núna og svo lang­tíma­samning næsta haust þegar ó­vissa verður minni. Það mun skýrast á morgun en launa­liðurinn er aðal­málið í skamm­tíma­samningnum og segir Vil­hjálmur að lág­launa­fólk verði að fá krónu­tölu­hækkanir.

„Það verður ögur­stund á morgun. Annað hvort ná menn þessu saman eða ekki. Það er erfitt að út­tala sig um það hvort það takist eða ekki en það er alveg ljóst að það verður reynt,“ segir Vil­hjálmur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ekki vanþörf á launahækkunum

Spurður um næstu skref ef ekki næst að semja á morgun segir hann það eigi eftir að koma í ljós.

„Þá verður bara góð kæling á þessu og menn verða bara vega og meta stöðuna í sínu bak­landi. Það er auð­vitað bara fé­lags­mennirnir sem taka á­kvarðanir um slíkt en við erum ekki komnir á þann stað við erum að reyna finna lausn á þessu. Finna tæki­færi til þess að koma launa­hækkunum hratt og vel til okkar fé­lags­manna og er ekki van­þörf á,“ segir Vil­hjálmur.

Vil­hjálmur gat ekki sagt til um hvort hann væri von­góður um að samningar myndu nást en spurður segir hann sam­talið milli sín og Hall­dórs hafa verið gott í gegnum við­ræðurnar. „Við höfum heyrst mjög þétt og reglu­lega og það er hluti að því þegar verið að leita leiða og við heyrum líka reglu­lega í ríkis­sátta­semjara það eru bara allir að reyna finna lausn á því hvort það sé hægt að ganga frá kjara­samningum“

Spurður um hve­nær það yrði ljóst að slíta þyrfti við­ræðunum eða hvort hann reikni með að funda fram eftir, segir Vil­hjálmur það vera „milljóna dollara spurningin.“

„Við erum að koma i hús um eitt leytið. Ég veit það byrjar á sam­tali við iðnaðar­menn klukkan eitt og síðan munum við sam­hliða eiga sam­ræður. Við erum auð­vitað með fjöl­menna samninga­nefnd þannig það er hægt að vinna þetta jafnt og þétt. Ég held að á þriggja til fjögurra tíma ramma skýrist hvort að menn nái saman eða ekki,“ segir Vil­hjálmur að lokum.