Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, sagði í kvöld í eld­hús­dags­um­ræðum að mikil­vægt væri að muna að það á­stand sem nú er uppi í þjóð­fé­laginu er ekki komið til að vera. Hann sagði ríkis­stjórnina stað­ráðna í að vinna bug á þeim erfiðleikum sem nú eru uppi, bæði veirunni og efna­hags­vandanum.

„En þar með er ekki sagt að sá veru­leiki sem tekur við að því loknu verði alveg eins og hann var fyrir. Og mig langar til að segja hér að hann beinlínis eigi ekki að verða það,“ segir Bjarni.

„Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, ó­heft sam­skipti og heilsu­fars­legt öryggi. Hvers­dags­líf sem gengur eðli­lega fyrir sig eins og við erum vön, þar sem fólk er ekki sent í sótt­kví eftir að hafa farið með barnið sitt á leik­skólann eða þar sem þarf að sigla í land með fullan bát af veikum sjó­mönnum.“

Hann segir að nú­verandi á­stand sé ógn við heilsu og efna­hag. Mikil­vægt sé þó að hafa í huga að um sé að ræða tíma­bundið á­stand.

„Og við, sem höldum um stjórnar­taumana, höfum gefið það lof­orð að gera meira en minna. Það er mikil­vægt að taka þannig utan um sam­fé­lagið, bæði fólk og fyrir­tæki, að þau komist hratt á fæturna þegar aftur glaðnar til. Að við töpum ekki verð­mætum að ó­þörfu, að hjarta líf­væn­legrar starf­semi geti haldið á­fram að slá.“

Hann segir að þrátt fyrir að enn hafi ekki tekist að ná böndum á veiruna mun það gerast.

„Og það er til mikils að vinna að reyna að halda lífi fólks eins venju­legu og hægt er, innan þessa ó­venju­lega. Þess vegna höfum við á­kveðið að gera það sem í okkar valdi stendur til að lífið getið haldið á­fram sinn vana­gang. Að við skerðum ekki opin­bera þjónustu heldur stöndum vörð um hana þótt við vitum að það þýði halla­rekstur um tíma.“

Hann segir halla­rekstur rétt­lætan­legan nú um stundir. Það sé ekki tapað fé, heldur sé honum varið til að standa með heimilunum og styðja fyrir­tæki í gegnum erfiða tíma, fjár­festa í betri tækni, sterkari inn­viðum og styðja rann­sóknir, þróun og ný­sköpun, hraða orku­skiptum og ná mark­miðum í lofts­lags­málum, lækka skatta og tryggja skatta­legar í­vilnunir til að örva fjár­festingu þegar hana skortir.

„Við tefldum fram að­gerðum undir merkjum verndar, varna og við­spyrnu í vor, en við verðum líka að sækja fram, verðum að líta á þetta sem tæki­færi til að upp­færa Ís­land. Tækni­væddara, skil­virkara, grænna, sann­gjarnara og kraft­meira sam­fé­lag. Það verður Ís­land, í upp­færslu 2.0.“