Andrés Ingi lagði til á þingi í dag að frumvarp Jóns Gunnarssonar um útlendingalög yrði frestað fram á næsta ár en frumvarpið verður til umræðu á þingi í dag. Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðu tóku undir tillöguna og gagnrýndu að frumvarpið hafi verið sett á dagskrá á eftir fjárlögum en á undan afgreiðslu mála sem þurfi að klára fyrir áramót. Það er vegna þess að vitað er að umræður verða miklar um frumvarpið. Tillagan var felld á þinginu en þingmenn ræða nú atkvæðagreiðsluna.
Þórhildur Sunna tók einnig til máls um sama mál og benti á að það lægju inni beiðnir um nánari greiningu á lögunum og hvort þau samræmist öðrum lögum og ákvæðum mannréttindasáttmála. Þórhildur Sunna lagði einnig til að málið yrði tekið fram á þingi.
Gísli Rafn Ólafsson sem einnig er þingmaður Pírata tók í sama streng og sagði ýmis mál þurfa að ræða fyrir áramót og að þyrfti að taka fyrr fyrir.
„Þetta er ekki gott skipulag að mínu viti,“ sagði hann um málið.
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntmálanefndar tók einnig til máls en hún afgreiddi frumvarpið úr nefnd fyrr í vikunni. Hún sagði enga ástæðu til að taka frumvarpið af dagskrá og bent á að frumvarpið væri að koma inn á þingið í fimmta sinn og hefði verið rætt ítarlega á þinginu. Hún sagði málið fullunnið og að lýðræðislegast væri að skiptast á skoðunum um málið.
„Það er orðið löngu tímabært að frumvarp um útlendingalögin fái aðra umræðu í þessum þingsal,“ sagði hún að lokum.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði málið ekki fullrætt en að það væri meirihluti fyrir málinu á þingi og að hún skildi ekki af hverju meirihlutinn óttaðist það að fresta málinu þar til eftir áramót. Hún sagði það liggja fyrir að það væri verið að breyta verklagi lögreglu og að hún verði ákvörðunaraðili en ekki bara framkvæmdaaðili og að lögreglan hafi ekki verið spurð.
„Það verður að spyrja lögregluna hvort hún kæri sig um þetta,“ sagði Helga Vala og að það væri ótrúlegt að málið rataði svona inn í þingsal.
Sigmar Guðmundsson í Viðreisn sagði tillöguna skynsamlega og að það hafi margt breyst frá því að málið kom fyrst fram. Hann sagði það ekki rétt hjá Bryndísi að málið væri fullunnið og að það hafi verið ágreiningur um það í nefndinni og hvort frumvarpið standist stjórnarskrá.
Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðu um breytingartillöguna sem sögðust styðja hana eins og Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar og Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir þingmaður Pírata en þau kvörtuðu bæði undan því að málið myndi tefja afgreiðslu á eingreiðslu til öryrkja.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók einnig til máls og sagði frumvarpið þynnt út og að í raun myndi þetta ekki hafa nein áhrif á þann vanda sem við stöndum fyrir í hælisleitendakerfinu.
Bryndís tók þá til máls í annað sinn og hvatti til þess að klára umræðuna sem var eiginlega hafin í umræðu um þessa breytingartillöguna.
Eyjólfur Ármannsson í Flokki fólksins sagði undarlegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu og að umsagnir hafi skyndilega fundist sem eigi eftir að þýða. Inga Sæland tók undir orð hans og sagði mikilvægt að halda sér við efnið og koma því í gegn sem liggi mest á og á þeirra hjarta.
„Það er fólkið hér heima akkúrat núna,“ sagði Inga sem sagðist styðja tillöguna.
Andrés Ingi tók aftur til máls og sagði staðreyndina þá að það sé ekki tími til að ræða þetta á sama tíma og það eigi eftir að afgreiða fjárlög og eingreiðslu til öryrkja. Hann sagði þetta óábyrga framgöngu.
Umræðan stendur enn og er hægt að horfa á hana á vef Alþingis.