Andrés Ingi lagði til á þingi í dag að frum­varp Jóns Gunnars­sonar um út­lendinga­lög yrði frestað fram á næsta ár en frum­varpið verður til um­ræðu á þingi í dag. Fjöl­margir þing­menn stjórnar­and­stöðu tóku undir til­löguna og gagn­rýndu að frum­varpið hafi verið sett á dag­skrá á eftir fjár­lögum en á undan af­greiðslu mála sem þurfi að klára fyrir ára­mót. Það er vegna þess að vitað er að um­ræður verða miklar um frum­varpið. Tillagan var felld á þinginu en þingmenn ræða nú atkvæðagreiðsluna.

Þór­hildur Sunna tók einnig til máls um sama mál og benti á að það lægju inni beiðnir um nánari greiningu á lögunum og hvort þau sam­ræmist öðrum lögum og á­kvæðum mann­réttinda­sátt­mála. Þór­hildur Sunna lagði einnig til að málið yrði tekið fram á þingi.

Gísli Rafn Ólafs­son sem einnig er þing­maður Pírata tók í sama streng og sagði ýmis mál þurfa að ræða fyrir ára­mót og að þyrfti að taka fyrr fyrir.

„Þetta er ekki gott skipu­lag að mínu viti,“ sagði hann um málið.

Bryn­dís Haralds­dóttir þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og for­maður alls­herjar- og mennt­mála­nefndar tók einnig til máls en hún af­greiddi frum­varpið úr nefnd fyrr í vikunni. Hún sagði enga á­stæðu til að taka frum­varpið af dag­skrá og bent á að frum­varpið væri að koma inn á þingið í fimmta sinn og hefði verið rætt ítar­lega á þinginu. Hún sagði málið full­unnið og að lýð­ræðis­legast væri að skiptast á skoðunum um málið.

„Það er orðið löngu tíma­bært að frum­varp um út­lendinga­lögin fái aðra um­ræðu í þessum þing­sal,“ sagði hún að lokum.

Helga Vala segir að það verði að ræða við lögregluna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Helga Vala Helga­dóttir þing­maður Sam­fylkingarinnar sagði málið ekki full­rætt en að það væri meiri­hluti fyrir málinu á þingi og að hún skildi ekki af hverju meiri­hlutinn óttaðist það að fresta málinu þar til eftir ára­mót. Hún sagði það liggja fyrir að það væri verið að breyta verk­lagi lög­reglu og að hún verði á­kvörðunar­aðili en ekki bara fram­kvæmda­aðili og að lög­reglan hafi ekki verið spurð.

„Það verður að spyrja lög­regluna hvort hún kæri sig um þetta,“ sagði Helga Vala og að það væri ó­trú­legt að málið rataði svona inn í þing­sal.

Sig­mar Guð­munds­son í Við­reisn sagði til­löguna skyn­sam­lega og að það hafi margt breyst frá því að málið kom fyrst fram. Hann sagði það ekki rétt hjá Bryn­dísi að málið væri full­unnið og að það hafi verið á­greiningur um það í nefndinni og hvort frum­varpið standist stjórnar­skrá.

Fleiri þing­menn tóku til máls í um­ræðu um breytingar­til­löguna sem sögðust styðja hana eins og Jóhann Páll Jóhanns­son þing­maður Sam­fylkingar og Arn­dís Anna Kristínar Gunnars­dóttir þing­maður Pírata en þau kvörtuðu bæði undan því að málið myndi tefja af­greiðslu á ein­greiðslu til ör­yrkja.

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son tók einnig til máls og sagði frum­varpið þynnt út og að í raun myndi þetta ekki hafa nein á­hrif á þann vanda sem við stöndum fyrir í hælis­leit­enda­kerfinu.

Bryn­dís tók þá til máls í annað sinn og hvatti til þess að klára um­ræðuna sem var eigin­lega hafin í um­ræðu um þessa breytingar­til­löguna.

Eyjólfur Ár­manns­son í Flokki fólksins sagði undar­legar breytingar hafa verið gerðar á frum­varpinu og að um­sagnir hafi skyndi­lega fundist sem eigi eftir að þýða. Inga Sæ­land tók undir orð hans og sagði mikil­vægt að halda sér við efnið og koma því í gegn sem liggi mest á og á þeirra hjarta.

„Það er fólkið hér heima akkúrat núna,“ sagði Inga sem sagðist styðja til­löguna.

Andrés Ingi tók aftur til máls og sagði staðreyndina þá að það sé ekki tími til að ræða þetta á sama tíma og það eigi eftir að afgreiða fjárlög og eingreiðslu til öryrkja. Hann sagði þetta óábyrga framgöngu.

Um­ræðan stendur enn og er hægt að horfa á hana á vef Al­þingis.