Verjandi Árnmars Jóhannesar Guðmundssonar segir lögreglumann ljúga í framburði sínum af málsatvikum skotárásarinnar á Egilsstöðum í ágúst í fyrra.

Þetta er meðal þess sem kom fram í munnlegum málflutningi Þórðar Más Jónssonar lögmanns í Landsrétti rétt í þessu. Árnmar var viðstaddur í Landsrétti í dag ásamt fjölskyldu hans og fleiri gestum.

Þórður segir gögn málsins sanna að lögreglumaðurinn, sem heldur því fram að Árnmar hafi skotið til hans tvisvar áður en hann hafi svarað til baka með skoti, sé ekki að segja satt og rétt frá. Lögreglumaðurinn ljúgi til um fjögur veigamikil atriði í framburði sínum.

„Það verður að segja að þetta lyktar mjög illa. Þetta lítur út eins og því hafi verið viljandi sópað undir teppið að fyrsti almenni lögreglumaður á Íslandi sem skýtur af vopni sínu á almennan borgara hafi þarna fari offari, skotið áður en á hann var skotið,“ sagði Þórður meðal annars um málið í málflutningi sínum með áherslu á almennan lögreglumann. Hann sagðist bera virðingu fyrir störfum lögreglu en að þarna væri eitthvað að.

Að sögn Þórðar hefur hann óskað eftir rannsókn á því hvort að raunverulega hafi engar líkamsupptökur verið í gangi á lögreglu þetta kvöld líkt og greint sé frá í gögnum málsins.

Skotinn í kviðinn

Lögreglan á Egilsstöðum fékk tilkynningu seint á fimmtudagskvöldi 26. ágúst í fyrra um skotmann inni á heimili í Dalseli sem hótaði að beita vopni sínu.

Eftir um klukkustund kom Árnmar út úr húsinu. Ítrekað hefur verið greint frá því að hann hafi skotið að lögreglu sem skaut á móti. Árnmar var skotinn í kviðinn og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð. Þetta er í fyrsta sinn sem almennur lögreglumaður skýtur einstakling við störf.

Aðalmeðferð í málinu hófst í Landsrétti í gær en þá voru upptökur vitna og hins ákærða frá héraðsdómi spilaðar fyrir dómi. Í dag fer svo fram munnlegur málflutningur annars vegar verjanda Árnmars og réttargæslumanni hans og hins vegar ákæruvaldsins.

Ákæruvaldið hóf málflutning í morgun og gerir sömu kröfur og áður og hann greiði allan sakarkostnað á báðum dómsstigum, rúmar tíu milljónir króna.

Ákæruvaldið telur framburð lögreglu trúverðugan og að hann hafi verið skýr.

Skutu fyrsta skotinu á sama tíma

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var dómkvaddur matsmaður, hljóðsérfræðingur, fenginn var til að leggja mat á í hvaða röð skotin komu í skothríðinni sem átti sér stað fyrir utan heimilið.

Í niðurstöðum matmanns kemur fram á að lögreglumaðurinn og Árnmar hafi skotið fyrstu tveimur skotunum á nákvæmlega sömu millisekúndu.

Á fimm sekúndum hafi fjórtán skotum úr tveimur byssum verið skotið, ellefu skot hafi komið frá lögreglu og þrjú frá Árnmari. Lögreglumaðurinn hafi skotið þremur skotum áður en Árnmar skaut sínu öðru skoti.

Miskabætur sonanna haldist

Árnmar krefst þess að vera sýknaður af þeim brotum sem hann neitaði sök á í héraði, tveimur tilraunum til manndráps. Til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa.

Þá gerir Árnmar athugasemd við bótakröfur fyrrverandi sambýliskonu sinnar og fyrrverandi eiginmanns hennar. Hann samþykkir niðurstöðu héraðsdóms varðandi bótakröfur sonanna tveggja að upphæð einnar milljón króna fyrir hvorn þeirra í miskabætur en þeir voru heima þegar Árnmar kom inn á heimilið vopnaður byssu.

Neitar tilraunum til manndráps

Árnmar var sakfelldur í héraði fyrir tvær tilraunir til manndráps, á fyrrverandi eiginmanni þáverandi sambýliskonu sinnar og lögreglumanni.

Hann neitaði sök í báðum tilfellum fyrir héraðsdómi og segir Þórður Már í tilfelli fyrrverandi eiginmannsins sé ekki hægt að refsa mönnum fyrir hugsanir einar.

Árnmar hafi játað að hafa ætlað að ógna honum og hræða hann all verulega. Þrátt fyrir að hafa verið í sturlunarástandi þetta kvöld liggi fyrir að Árnmar hafi ekki hótað fyrrverandi eiginmanninum lífláti á neinum tímapunkti. Það komi skýrt og greinilega fram í vitnisburði fyrrverandi eiginmannsins fyrir héraðsdómi en hann var sjálfur ekki heima þegar skotárásin átti sér stað.

Þórður segir ekki hægt að hafa yfir skynsamlega vafa að Árnmar hefði ráðið manninum bana hefði hann verið heima þetta kvöld.

Framburður lögreglu standist ekki

Þórður segir framburð tveggja lögreglumanna á vettvangi ekki standast í veigamiklum atriðum, Árnmari í óhag. Annar lögreglumannanna ljúgi til um ýmis atriði.

Augljóst sé að lögreglumaðurinn hafi ekki viljað viðurkenna að Árnmar hafi ekki skotið fyrsta skotinu heldur þeir skotið fyrsta skotinu samtímis.

Lögreglumaðurinn sagði í héraði að Árnmar hefði skotið á sig tvívegis áður en hann svaraði til baka með skoti. Þórður segir það ekki standast skoðun.

Augljóst sé að lögreglumaðurinn hafi áttað sig á því fljótlega eftir atburðarásina að það yrði „afar óheppilegt fyrir hann sjálfan“ að viðurkenna að hann hafi skotið áður en skotið var á hann. Málið sé alvarlegt, hann segi ósátt um málsatvik „ákærða stórlega í óhag.“

Á leið inn í dómssal Landsréttar í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ljúgi til um fjögur atriði

Þetta sé ekki eina atriðið sem lögreglumaðurinn segi sannanlega ósatt um. „Þetta eru algjör grundvallaratriði sem leiða til sakfellingar ákærða,“ segir Þórður og bætir við að lögreglumaðurinn segi ósatt til um fjögur atriði í heild sinni. Til viðbótar við lygina um að Árnmar hafi skotið fyrstu skotunum segi hann ranglega til um staðsetningu Árnmars þegar hann skaut.

Lögreglumaðurinn sagði hann hafa vaðið á móti sér og skotið fyrir utan húsið. Skýrsla tæknideildar lögreglu sýni hins vegar að Árnmar hafi staðið í forstofunni með haglabyssu og hleypt af henni út um aðaldyr í átt að húsi í götunni.

Staðsetningar á reiki

Þórður segir lögreglumanninn einnig ljúga til um eigin staðsetningu þegar skothríðin átti sér stað. Hann hafi haldið því fram að hafa verið staðsettur á bak við lögreglubifreið sem hafi staðið úti á götu.

Á þeim stað hefði hann verið mun berskjaldaðri og nær skotlínunni en á þeim stað sem hann raunverulega stóð – á bakvið Land Cruiser bifreið. Samkvæmt staðsetningu skothylkja úr byssu lögreglumannsins sé augljóst að hann hafi staðið á bak við Land Cruiserinn.

Í fjórða lagi beri lögreglumaðurinn ranglega að hann hafi heyrt í fjarskiptum að ákærði ætlaði sér að koma út og skjóta lögregluna. „Sannað er að X vissi vel áður en ákærði kom út í seinna skiptið að ákærði hygðist koma út og láta lögreglu skjóta sig,“ segir Þórður og bætir við að það megi heyra í símtölum lögreglumannsins við Fjarskiptamiðstöð lögreglu. Enginn vafi geti verið um þetta atriði.

Ítrekað sagt ósatt

Í samtali lögreglumannsins við Fjarskiptamiðstöð lögreglu hafi hann aldrei minnst á að ákærði hafi skotið á hann. Hann hafi fyrst haldið því fram í skýrslu hjá lögreglu morguninn eftir.

Lögreglumaðurinn hafi skotið ellefu skotum á fjórum sekúndum og hávaðinn úr níu millimetra byssu sé mikill. Erfitt hafi verið fyrir lögreglu að greina skot Árnmars á þessum tímapunkti, „enda skaut X hreinlega linnulaust á þessum tíma.“

Þórður segir trúverðugleika lögreglumannsins engan. Sannanlegt sé að hann hafi ítrekað sagt ósatt varðandi alvarleg atriði. „Þá verður einnig að skoða allan framburð hans með tilliti til þess að hann hefur haft bersýnilega hagsmuni af því að hagræða framburði sínum.“

Alltof hörð refsing

Þórður mótmælir niðurstöðu héraðsdóms um átta ára fangelsi. Hann segir það allt of harða refsingu. Árnmar sé með hreina sakaskrá og hafi aldrei svo mikið sem lent í slagsmálum alla sína ævi.

Þórður veltir upp notkun þunglyndislyfja og áfengis og sagðiað samkvæmt geðlækni sé möguleiki á að lyfið sem Árnmar var að taka, ásamt áfengisnotkun, hafi getað aukið á tortryggni ákærða í þessum aðstæðum. Þá komi fram í geðmati geðlæknis að líta megi á glæp Árnmars sem ástríðuglæp.

Þórður segir iðrun Árnmars einlæga, djúpa og mikla gagnvart brotaþolum. Hann hafi sýnt af sér fyrirmyndarhegðun í fangelsinu á Hólmsheiði sem leiddi til þess að hann var færður í fangelsið á Kvíabryggju enda sé hann ekki álitinn hættulegur samfélaginu. Þórður segir að það hljóti að segja ýmislegt að fangi með átta ára dóm sé færður eftir svona stuttan tíma á Hólmsheiði.

Að sögn Þórðar á Árnmar ekki heima í fangelsi heldur á sveitabæ foreldra sinna og til að sinna þar búskap. Þangað muni hann fara þegar hann lýkur afplánun.