Þröstur Leó Gunnarsson er meðal ástsælustu leikara þjóðarinnar. Hann fer nú með aðahlutverk í kvikmydninii Á ferð með mömmu sem fer í almenna sýningu í næstu viku.

Með fram leiklistarferlinum hefur Þröstur Leó alltaf verið sjómaður. Árið 2015 lenti hann í slysi þar sem litlu munaði að hann léti lífið.

Þann 7. júlí árið 2015 sökk báturinn Jón Hákon á Rit út af Aðalvík í Ísafjarðardjúpi. Í bátnum var Þröstur ásamt Birni Magnússyni skipstjóra, Gunnari Rúnari Ævarssyni stýrimanni og Magnúsi Kristjáni Björnssyni. Bátnum hvolfdi skyndilega og Þröstur komst með herkjum upp á kjölinn. Hann náði svo að hífa Björn og Gunnar upp til sín þar sem þeir biðu í rúma klukkustund eftir aðstoð. Afar litlu mátti muna og þegar aðstoð barst var báturinn nánast sokkinn. Magnús lést í slysinu.

„Þetta var mjög mikið áfall og það var margt skrítið við þetta allt saman, það var eins og þetta væri ákveðið og mér finnst þetta allt svo spes eftir á,“ segir Þröstur.

Hann hafði haft hug á því lengi að fara vestur á sjóinn eftir fjöldamörg hlutverk í leikhúsi og kvikmyndum. Hann hafði samband við Björn, eiganda bátsins, en stuttu áður hafði ungur maður sem átti pláss á Jóni Hákoni látist og því var laust pláss um borð. „Ég segi Bjössa að ég sé tilbúinn að fara á sjóinn og hann segist ætla að láta mig vita fljótlega, sem hann svo gerir, og ég var svo glaður að fá þetta pláss,“ segir hann.

„Hann ræður annan mann með okkur og þetta var svo ógeðslega næs og gaman og ég var svo spenntur. Mér leið bara eins og ég væri tíu ára aftur, við vorum þarna vinirnir saman að fara á sjó og ég var að gera upp húsið. Ætlaði að ná mér í fínar tekjur og koma mér út úr fjárhagsvandræðum eftir hrunið. Ég var þarna að berjast fyrir því að halda húsinu og þrælaði mér út öll kvöld og helgar í leikhúsinu,“ segir Þröstur.

„Við byrjum að róa og allt gengur vel en ég fæ einhverja skrítna tilfinningu, eins og eitthvað sé að, það var eitthvað að naga mig,“ segir Þröstur.

Hann segist aldrei hafa verið hræddur á sjó en þarna var hann með áhyggjur. „Mér leið eitthvað skringilega og ég segi við konuna mína: ég er með á tilfinningunni að eitthvað komi fyrir og ef það kemur eitthvað fyrir þá hef ég áhyggjur af Magga. Ég vissi ekki hvað það var og maður spáir ekkert í neinu svona fyrr en eftir á.“