Skrímsli, skrímslavæðing og ofbeldi, er efni nýlegrar greinar sem Katrín Ólafsdóttir doktorsnemi á Menntavísindasviði skrifar með leiðbeinanda sínum, Önnudís Grétu- og Rúdólfsdóttur. Katrín rannsakar gerendur ofbeldis, skrímslavæðingu og hvernig ofbeldi þrífst og er viðhaldið í nútímasamfélagi.

Katrín segir þá hugmynd sem samfélagið hefur skapað um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum, hafa mikil áhrif á skilning fólks og skynjun. „Það er gömul saga að þessi mýta um skrímslið er ekki sönn og slær ryki í augun á okkur, en í undirmeðvitundinni hefur það svo mikil áhrif hvernig við bæði skiljum og skynjum,“ segir hún.

Katrín tók viðtöl við íslenska karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og gengist við því. Hún segir það stéttbundið hvernig menn vinna úr hugmyndum um ofbeldi og um skrímslið. „Það fyrsta sem sló mig var hvernig þeir skilgreindu sín verk og hvernig sjálfsmyndin breyttist við það að máta sig við skrímslið.“

Katrín segir að út frá þessum hugmyndum hafi hún skoðað gögnin og viðtölin og hafi komið í ljós þrjú tilbrigði af „skrímslinu“ og að allir viðmælendur hennar hafi á einhvern hátt mátað sig við hugtakið. „Sumir töluðu beinum orðum um skrímsli og skrímslavæðingu, en aðrir notuðu önnur orð en voru að vísa í hugmyndina um skrímslið. Þeir töluðu ýmist um sjálfa sig sem skrímsli eða ekki, eða vísuðu í hugmyndirnar um það,“ segir Katrín.

Flestir hafi þeir verið sammála um að vilja ekki vera skrímsli og lögðu mikla áherslu á að þeir væru ekki illa innrættir menn. En þegar það er talað um skrímsli, þá eru þau illa innrætt.

„Þeir sögðu mér hvernig þeir eru góðar manneskjur og hvernig, þrátt fyrir þetta atvik sem þeir gengust við, séu þeir samt góðir einstaklingar og ekki skrímsli.“

Þetta er gott dæmi um hve ógagnleg skrímslavæðingin er fyrir þolendur líka.

Við þetta myndist togstreita hjá þeim um hvernig þeir geti verið bæði góðir menn og skrímsli og að það verði svo flókið fyrir þá að samþætta þessar hugmyndir.

„Þannig að þeir reyna að spyrna á móti og tala um hvað það sé erfitt að tala um ofbeldisbrot og að gangast við þeim, vegna þess að þá sértu dæmdur sem skrímsli og auðvitað vill enginn vera skrímsli.

„Þetta er gott dæmi um hve ógagnleg skrímslavæðingin er fyrir þolendur líka. Aðalatriðið er auðvitað að gerendur gangist við sínum brotum og taki á þeim. Ef við sem samfélag höldum áfram að hrópa skrímsli erum við að gera þessum einstaklingum mjög erfitt að stíga fram,“ segir Katrín.

Erfitt að máta við sig hegðun skrímsla

Hún segir að mennirnir máti sig við hugtök sem eru notuð um ofbeldisbrot og að mörgum finnist erfitt að máta sig við hugtakið nauðgun, vegna þess að það lýsir hegðun sem skrímsli myndi framkvæma. Þeir hafi kallað eftir öðrum hugtökum til að tala um ofbeldi og talið að þannig væri auðveldara fyrir þá að gangast við verkunum.

„En þarna myndast auðvitað flókin umræða um það hversu langt á að ganga í að búa til nýja orðræðu, sem vissulega er þörf á, því skrímslavæðing virkar ekki, en á sama tíma er ekki hægt að hætta að nota orð eins og nauðgun, því það eru orðin sem að lýsa því sem átti sér stað.“

Katrín segir að karlmennirnir sem voru af verkamannastétt sem hún ræddi við hafi margir talað um að þeir byggju við ákveðnar karlmennskuhugmyndir og að á þessu mómenti, þegar ofbeldi var beitt, hafi þeir misst stjórn á sér og hagað sér eins og skrímsli en að það séu ástæður fyrir því að þeim líði eins og þeim líði, áföll í æsku og neysla.

„Við vitum að það er áhættuþáttur en á sama tíma er það útskýring en ekki afsökun. Það er líka málið með þessa menn sem ég talaði við að þeir gengust allir við verkunum, og eru að reyna að taka ábyrgð, en kalla eftir leiðum til að losna undan sársaukanum að hafa meitt einhvern annan en eiga erfiðara með að sætt sig við að ferlið er langt og að það er ekkert hlaupið í burtu frá sársaukanum. Það er nauðsynlegt að sitja fastur í honum. Ef þú ætlar að gangast við því að hafa meitt aðra manneskju þá mun það valda þér sársauka,“ segir Katrín.

Hún segir að það sé áhugavert, í sambandi við samfélagsumræðu í dag að skoða þróun #metoo hreyfingarinnar sem hafi byrjað í lokuðum hópum og gerendur ekki nafngreindir.

Það sem okkur vantar er samtal um það hvernig gerendur geta tekið ábyrgð og unnið sig til baka frá því að vera gerandi, í að vera gerandi sem við erum tilbúin að hlusta á og getur verið þátttakandi í samfélaginu

Bylgja sem gengur út á að nafngreina

„Nýja #metoo bylgjan gengur hins vegar út á að nafngreina, og sérstaklega þekkta gerendur, til að sýna almenningi að allir geta brotið af sér og að einstaklingar sem njóta forréttinda hafa komist hjá því að gangast við brotum og taka ábyrgð,“ segir Katrín.

Hún segir að í kjölfarið hafi auðvitað skapast umræða um hvernig eigi að bregðast við. Það sé vitað eftir allt sem hefur á gengið að rót vandans liggi djúpt í feðraveldinu og kvenfyrirlitningunni sem er stjórntæki feðraveldisins.

„Það þarf að uppræta það til að uppræta ofbeldið. Ég hugsa þetta svolítið þannig að eftir fyrstu #metoo bylgjuna hafi myndast kýli sem átti eftir að stinga á. Það er verið að gera núna og í stað þess að setja plástra á þessi opnu sár þá er kallað eftir alvöru lausnum til að bregðast við og það er samtalið sem þarf að byrja sem að ég vil að fólk hjálpi mér með og það verður að gerast á forsendum þolenda,“ segir Katrín.

Hún segir að það sé að hluta komið fram hvernig þolendur eigi að bera sig að, hvernig þeir geta stigið fram og hvernig eigi að bregðast við. Það sé til handrit að því. Það sem vanti sé álíka handrit fyrir gerendur.

„Það sem okkur vantar er samtal um það hvernig gerendur geta tekið ábyrgð og unnið sig til baka frá því að vera gerandi, í að vera gerandi sem við erum tilbúin að hlusta á og getur verið þátttakandi í samfélaginu. Ef við viljum að þeir nái bata verðum við að veita þeim aðstoð.“

Hópurinn sé jafn ólíkur og hópur þolenda og úrræðin þurfi að vera ólík og fjölbreytt eftir því. „Leiðin er alltaf í gegnum ábyrgð og auðmýkt, en er svo kannski ólík eftir því hvert brotið er og hver gerandinn er.“

Katrín verður með fyrirlestur seinna í mánuðinum á viðburði hjá RIKK.