„Þakklæti eru mín fyrstu viðbrögð,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins er blaðamaður Fréttablaðsins náði af henni tali á landsfundi í dag. Þórdís var í ein í framboði til varaformanns á fundinum og hlaut 88% prósenta atkvæða.
„Ég er þakklát fyrir stuðning landsfundar. Ég hef verið varaformaður í fjögur og hálft ár og fæ hér endurnýjað umboð til að gegna því embætti fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“
Bjarni Benediktsson verður áfram formaður Sjálfstæðisflokksins en hann vann formannskjörið gegn Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Bjarni hlaut 1.010 atkvæði, 59,4%, gegn 687 atkvæðum Guðlaugs Þórs, 40,4%.
Spurð um mögulegt formannsframboð í framtíðinni, sagði Þórdís að það yrði mikill heiður ef flokksmenn myndu treysta henni fyrir því embætti.
„Ég lít svo á að eðli varaformannsembættisins sé það að vera tilbúin að til þess að taka við formennsku í flokknum. Það hef ég gert frá upphafi. Það væri mikill heiður ef það er vilji flokksmanna að treysta mér fyrir því að vera í embætti formanns í framtíðinni. Nú erum við hins vegar með endurnýjað umboð fyrir forystuna og það er verk að vinna,“ sagði Þórdís og ítrekaði að það væri heiður mikill heiður að leiða flokkinn.
Þá sagði Þórdís landsfundinn hafa gengið vonum framar og það væri ánægjulegt að sjá hversu mikið líf væri í flokksmönnum.
„Það er gríðarlega frábært að sjá þetta mikla líf í flokknum, með tæplega tvö þúsund manns á landsfundi, af allskonar, fjölbreyttu og venjulegu fólki kemur hingað að því það skilur að stjórnmálaþáttaka skiptir máli,“ sagði Þórdís og bætti við hún væri stolt af því að vera í Sjálfstæðisflokknum.
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins var kjörinn ritari flokksins. Hann sigraði þau Bryndísi Haraldsdóttur og Helga Áss Grétarsson í kosningu um ritaraembættið með 58% atkvæða.
