„Þetta er viðamesta yfirlit yfir þennan þátt í skólastarfi sem hefur farið fram í skólastarfi hér á Íslandi,“ segir Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, um skýrslu embættisins um landskönnun á geðrækt í skólum sem kom út í gær.


Skýrslan segir frá niðurstöðum stórrar könnunar sem lögð var fyrir í öllum framhaldsskólum landsins og tæplega 70% allra leik- og grunnskóla. Markmið hennar er að fá yfirlit yfir stöðu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í íslensku skólakerfi. Þetta er gert til að skoða hversu vel vettvangur skólakerfisins nýtist til að efla geðheilsu barna og ungmenna og koma auga á þau sem þurfa aðstoð. „Skólinn er eini vettvangurinn sem við höfum yfir að ráða til að ná til allra barnanna í samfélaginu og þar leynast því dýrmæt tækifæri. Æskuárin eru mikilvægasti mótunartími geðheilsunnar og því brýnt að ná til barna á þessum tíma,“ segir Sigrún.

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis.
Fréttablaðið/Anton

Eins sjálfsagt og íþróttir


Eitt af því sem skýrslan leiðir í ljós er að ekki er verið að kenna félags- og tilfinningafærni með markvissum hætti í skólakerfinu og þannig er farið á mis við tækifæri til að byggja upp geðheilsu barna og unglinga. Þessum þætti er mest sinnt í leikskólum en svo minnkar áherslan eftir því sem líður á skólagöngu barna. Framhaldsskólar stóðu bæði leik- og grunnskólum talsvert að baki þegar kom að kennslu í félags- og tilfinningafærni, mati og stuðningi í skólastarfi og samstarfi við foreldra.


Sigrún segir að það ætti að vera jafn sjálfsagt að kenna félags- og tilfinningafærni eins og skólaíþróttir. Kennslan kalli enn fremur á faglega sérhæfingu rétt eins og íþróttakennsla.


„Það er margt sem okkur finnst ástæða til að kenna í skólakerfinu. Við kennum börnum að synda, kennum þeim íþróttir og að athafna sig í eldhúsinu en við höfum ekki fundið neinn sambærilegan vettvang fyrir reglubundna kennslu í félags- og tilfinningafærni, þrátt fyrir að þetta sé grundvallarfærni fyrir farsæla skólagöngu,“ segir Sigrún.


Fram kemur í skýrslunni að rúmur helmingur leikskóla vinnur eftir heildstæðri áætlun um kennslu hegðunar-, félags- og tilfinningafærni fyrir alla aldurshópa og hefur markmið fyrir slíka kennslu tilgreind í skólanámskrá. Það sama má segja um rúm 40% grunnskóla en tæpur þriðjungur hefur tilgreint markmið í skólanámsskrá. Í framhaldsskólum er hlutfallið aðeins um einn af hverjum fjórum en meirihluti skólanna (55-60%) segir þetta að litlu eða engu leyti til staðar.

Hvað er félags- og tilfinningafærni?

„Það er þekking og færni í því að þekkja og skilja eigin tilfinningar, þekkja og skilja tilfinningar annarra, geta sett sig í spor annarra, geta átt farsæl samskipti við aðra, kunna að mynda og halda vináttusamböndum, kunna að leysa ágreining á farsælan hátt, kunna að taka ábyrgar ákvarðanir. Þetta eru alls konar hlutir sem algjörlega er hægt að kenna og þjálfa rétt eins og aðra færni,“ segir Sigrún.

Nemendur þurfa að tileinka sér margskonar færni í skóla.
Nordicphotos/Getty

Misjafnlega stödd


Börnin koma misjöfn inn í skólakerfið hvað varðar félagsfærni rétt eins og aðra færni. „Sum eru þegar orðin læs þegar þau byrja í grunnskóla á meðan önnur eiga í erfiðleikum með að ná tökum á lestri. Við eigum að gera ráð fyrir því að það sé mikilvægt fyrir framtíðina að öll börn nái tökum á lestri hvort sem þau eru fær í því frá upphafi eða ekki. Og það er ekkert sem rökstyður að við skulum ekki líta sömu augum á félags- og tilfinningafærni sem er grundvallarfærni fyrir farsæla skólagöngu og farsælt líf,“ segir Sigrún.


„Fólk er oft komið langt á fullorðinsár og er ekki enn þá orðið læst á eigin tilfinningar og á erfitt með að skilja sjónarmið annarra eða leysa ágreining. Það er eins og við höfum gert ráð fyrir að þessi færni sé bara meðfædd en hún er það ekki frekar en margt annað. Þetta er hæfni sem er hægt að þjálfa og kenna og það er hvergi betri vettvangur til þess en í skólakerfinu, þar sem börn eru að æfa sig í samskiptum allan daginn,“ segir Sigrún og útskýrir nánar.


„Við vitum það út frá rannsóknum að þegar börn fá markvissa kennslu í félags- og tilfinningafærni yfir margra ára tímabil í sínu námi þá eykst færni þeirra á þessu sviði. Þau sýna líka betri árangur í námi og þetta dregur úr hættu á því að þau þrói með sér áfengis og vímuefnavanda og dregur úr hegðunarerfiðleikum. Við höfum svo sannarlega rannsóknir sem sýna okkur að þessi kennsla ber árangur ef hún er fagleg og markviss.“

Það þarf að kenna félagsfærni rétt eins og lestur.
Fréttablaðið/Anton

Kjarnafókus í skólastarfi


Sigrún segir að víða sé verið að gera mjög góða hluti í skólakerfinu. „En við erum alls ekki að tækla þennan þátt jafn kerfisbundið og vandlega eins og við erum að vinna með lestrar- eða stærðfræðikennslu. Punkturinn er sá að þetta sé það mikilvæg færni að hún þurfi að fá kjarnafókus í skólastarfi. Til þess að skólakerfið geti gert það þarf margt að koma til. Við þurfum að tryggja að það sé til námsefni fyrir öll skólastig og að allir skólar hafi aðgengi að slíku efni.“

Við erum alls ekki að tækla þennan þátt jafn kerfisbundið og vandlega eins og við erum að vinna með lestrar- eða stærðfræðikennslu.


Henni þykir hjálplegt að bera þessa kennslu saman við íþróttir. „Nemendur fá þrjár heilar kennslustundir á viku fyrir íþróttakennslu og sund. Það er sérhæfing í kennaranámi og sjálfstæð námsgrein í námsskrá. Ekkert af þessu á við kennslu í félags- og tilfinningafærni. Við erum ekki með sérhæfingu í kennaranámi, við erum ekki með fastar stundir í viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár. Ef við vildum taka þetta fastari tökum, þá verðum við að tryggja að það sé pláss inni í menntakerfinu fyrir þetta.“


Það er ýmislegt að gerast í málefnum barna um þessar mundir, bendir Sigrún á, eins og viljayfirlýsing fimm ráðherra um aukið samstarf í málefnum barna frá því á síðasta ári. Skýrslan er unnin í tengslum við vinnu starfshóps um geðrækt í skólum sem settur var á fót af heilbrigðisráðherra til að fara yfir stöðu geðræktar á öllum skólastigum og setja fram tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í íslensku skólakerfi. Þessi vinna er liður í geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda til 2020.

Tilfinningar útundan

Mun sjaldgæfara, að leikskólum undanskildum, er að börnum og ungmennum sé kennt að þekkja og skilja eigin tilfinningar og annarra, finna farsælar lausnir við vanda og erfiðleikum, efla félags- og vináttufærni, styrkja líkamsmynd og þjálfa aðferðir sem draga úr streitu og auka vellíðan, svo sem slökun eða núvitund.


„Það sem kemur fram í þessari könnun höfum við séð víða á undanförnum árum, í ýmsum skýrslum og úttektum og þetta ætti því ekki að koma neinum á óvart. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem við tökum þetta svona heildrænt saman og gerum þessa stóru úttekt á öllum skólastigum þannig að við getum fengið nokkuð góða yfirsýn yfir hvernig málum er hát
tað í dag,“ segir hún.

Könnunin leiðir í ljós varðandi kennslu að algengast er að lögð sé áhersla á að efla bjargráð eða sjálfshjálp barna og ungmenna, hjálpa þeim að finna og nýta styrkleika sína og þjálfa færni þeirra til að tjá skoðanir sínar. Mun sjaldgæfara, að leikskólum undanskildum, er að börnum og ungmennum sé kennt að þekkja og skilja eigin tilfinningar og annarra, finna farsælar lausnir við vanda og erfiðleikum, efla félags- og vináttufærni, styrkja líkamsmynd og þjálfa aðferðir sem draga úr streitu og auka vellíðan, svo sem slökun eða núvitund.

Á öllum skólastigum er mikil áhersla lögð á vinalegt viðmót starfsfólks, að mynda jákvætt samband við sérhvert barn eða ungmenni.
Nordicphotos/Getty

Jákvæð skólatengsl


„Það var mjög gaman að sjá að það eru ekki bara einhver atriði sem við þurfum að gera betur í þessari könnun heldur er líka margt sem er mjög vel gert. Við spyrjum um atriði sem tengjast skólatengslum og umhyggju fyrir börnum í skólastarfi en það kemur mjög vel út. Samkvæmt mati starfsfólksins er mikil áhersla á þennan þátt í skólastarfi á Íslandi sem er mjög jákvætt,“ segir hún.


Í skýrslunni kemur fram að á öllum skólastigum er mikil áhersla lögð á vinalegt viðmót starfsfólks, að mynda jákvætt samband við sérhvert barn eða ungmenni, sýna tilfinningum þeirra samkennd og skilning, hlusta á þau og taka mark á sjónarmiðum þeirra. Svarendur í nánast öllum skólum á öllum skólastigum segja kennara leggja sig fram um að skapa jákvæðan anda í bekk eða hópi þar sem öll börn og ungmenni upplifi sig velkomin og yfirleitt var lítill munur á skólastigum hvað þessi atriði varðar.


Sigrún ítrekar að það sé mjög margt gott í íslensku skólakerfi. „En það eru ákveðin atriði sem við gætum gefið sterkari fókus. Við sem samfélag höfum alla burði til að gera það.“

Skoða má skýrsluna hér.