Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þar sem faraldurinn hafi verið nokkuð stöðugur og í hægri niðursveiflu sé ekki ástæða að svo stöddu til að grípa til harðari samfélagslegra aðgerða. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag en hann sagði skiptar skoðanir vera á því hvort grípa ætti til hertra aðgerða.

„Við erum stöðugt með þetta í endurmati og sú ákvörðun kann að breytast hratt ef við förum að sjá einhverja aukningu og þá þarf að endurskoða það mjög alvarlega,“ sagði Þórólfur á fundinum. Þá þurfi mögulega að grípa til hertra aðgerða ef svo sýnist sem að heilbrigðiskerfið geti ekki annast þá sem eru að veikjast.

Aðgerðir í stöðugri endurskoðun

Líkt og greint var frá fyrr í dag greindust 36 manns með kórónaveirusmit í gær en 560 manns hafa greinst með veiruna frá 15. september, þegar þriðja bylgja faraldursins hófst. Ellefu manns eru nú á sjúkrahúsi en þar af eru tveir á gjörgæslu í öndunarvél.

Að sögn Þórólfs eru þau í samtali við Landspítala um getu þeirra til að annast þann fjölda sjúklinga sem búist er við að þau muni sjá á næstunni. „Það þarf að huga að því að árangurinn af aðgerðum sem gripið er til núna muni ekki skila sér fyrr en eftir svona um það bil tvær vikur, eina til tvær vikur.“

„Ef sýnt þykir að kúrfan er að fara í ranga átt og við verðum að fá aukinn fjölda af innlögnum, þá þurfum við endurskoða með stjórnvöldum virkilega hvort þurfi að fara í harðari aðgerðir sem í sjálfu sér eru erfiðar fyrir alla, erfiðar fyrir samfélagið, og kannski ekki alveg víst að muni skila sama árangri og skiluðu nú í fyrr í vetur.“

Búinn að vera á „alveg á nippinu“

Hann sagði það vera mikilvægt á þessari stundu að allir standi saman í aðgerðum sem yfirvöld hafa gripið til. „Það er mjög líklegt að við þurfum að viðhafa þessar aðgerðir núna næstu mánuði því að þessi veira er greinilega ekkert að fara,“ sagði Þórólfur.

Aðspurður um hvort hann hafi rætt möguleikann um hertar aðgerðir sagði Þórólfur. „Ég tel núna að það sé ekki alveg komið að því að fara að grípa til mjög harðra aðgerða en bara játa það að ég er alveg á nippinu og er búinn að vera lengi,“ sagði Þórólfur. „Það þarf ekki mikið út af að bregða til þess að ég dragi upp blaðið og sendi áfram.“