Píratar boðuðu í dag til mál­fundar í Iðnó um spillingu á Ís­landi en fundinum var streymt í beinni á YouTu­be. Á fundinum las Björn Leví Gunnars­son upp nafn­lausar sögur um spillingu hér á landi auk þess sem Hall­grímur Helga­son talaði um mál­efni Sam­herja, Smári Mc­Cart­hy ræddi ó­líkar birtingar­myndir spillingar í al­þjóð­legu sam­hengi og Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir fjallaði um þá spillingu sem við­gengst á Ís­landi.

„Það er oft sagt að hérna á Ís­landi sé engin spilling, að minnsta kosti ekki spilling eins og í öðrum löndum,“ sagði Björn Leví í upp­hafi fundarins en hann segir að ný­legir at­burðir hafi sýnt okkur hversu röng sú full­yrðing sé. „Það þarf ein­beittann vilja til þess að sjá ekki spillinguna sem ríkir á Ís­landi en þrátt fyrir það gerist ekki neitt.“

Hefur fengið 160 sögur sendar

Frétta­blaðið greindi fyrr í dag frá tveimur sögum sem Birni Leví hafði borist en í annarri þeirra var starfs­maður ráðu­neytis hvattur til að brjóta lög að beiðni ráð­herra. Í hinni sögunni var síðan greint frá því að komið hafi verið í veg fyrir að ó­nefndur aðili færi er­lendis á vegum bæjar­fé­lags eftir að hann setti út á að opin­ber starfs­maður hafi skrifað vín sem gos á reikning fyrir mat í ferða­lagi.

Björn greindi frá því á fundinum að honum hafi borist um 160 sögur í þetta skiptið en Stundin birti í dag hluta af þeim sögum þar sem spilling birtist á einn eða annan hátt.

Smári McCarthy sá síðan um að flokka sögurnar en þar kom í ljós að meirihluti þeirra átti sér stað í Reykjavíkurkjördæmi og tengdust flestar sögurnar spillingu innan ríkis og sveitarfélögum, sjávarútvegi og stjórnmálum.

Hér fyrir neðan má lesa nokkrar af þeim sögum sem Björn las upp á fundinum:

„Fyrir um það bil 20 árum síðan sagði mér maður í tilteknum stjórnmálaflokki frá lista sem hann fékk yfir fasteignir sem væru á leið í nauðungarsölu og hefði tiltekinn hópur manna „forkaupsrétt“ á þeim eignum langt undir markaðsvirði áður en þær færu í uppboðsferli. Þegar ég sá listann sagði hann: „Þú mátt ekki segja nokkrum einasta manni frá þessu.“ Eftir hrun voru eignirnar seldar aftur út úr íbúðalánasjóði í hendurnar á einhverjum flokksgæðingum.“

-

„Vann um tíma hjá opinberri stofnun þar sem forstjórinn réð menn tengda tilteknum stjórnmálaflokki í góðar stöður. Ráðgjafar voru fengnir til málamynda til að fegra ráðningarnar en allir vissu hverjir yrðu ráðnir. Þessi stofnun keypti ráðgjafa sem voru nær undantekningalaust tengdir sama stjórnmálaflokki, miklu var eytt í ráðgjafana en lítið kom út úr því. Menn sem kvörtuðu áttu erfitt uppdráttar í starfi og það var grafið undan þeim og þeir nutu ekki  trausts. Forstjórinn safnaði hliðhollu fólki í kringum sig og aðrir áttu lítinn sjens. Menn voru reknir eða þeim bolað úr starfi á sorglegan hátt. Duglega og klára fólkið náðu ekki árangri og fengu síður stöðu- og launahækkanir heldur frekar þeir sem voru til í að horfa fram hjá spillingunni og taka þátt.“

-

„Fyrir allmörgum árum skipaði forstjóri stærsta vinnuveitandans í sveitarfélaginu öllu erlendu vinnuafli að kjósa tiltekinn stjórnmálaflokk í sveitastjórnarkosningum að öðrum kosta myndi það missa vinnuna. Þessi hópur var þá stór hluti íbúa þorpsins.“

-

„Í ungliðastarfi mínu barðist ég fyrir breytingum í sjávarútvegskerfinu. Fljótlega var ég kallaður á fund hjá stóru fyrirtæki á þeim vettvangi þar sem mér var sagt að ef ég hætti ekki þá þyrfti ég að finna mér aðra vinnu.“

-

„Starfsfólki á stórum vinnustað sem ég vann á var smalað saman og sagt að það fengi eina klukkustund aukalega borgaða fyrir að kjósa ákveðinn einstakling fram yfir annan einstakling í stærsta flokki landsins. Sá kjörni er á þingi í dag. Forstjóri fyrirtækisins og sá kjörni hafa lengi verið góðir vinir.“

-

„Ég kærði aðila sem var mér hættulegur en sagði engum frá því. Fékk fljótlega símtal um kæruna frá aðila sem hefði ekki átt að vita af kærunni. Sá sagðist hafa frétt af kærunni í gegnum fjölskyldutengsl inn í lögregluna. Ég skrifaði formlega kvörtun en var beðinn um að draga kvörtunina til baka því annars ætti ég hættu á kæru vegna meiðyrðis. Kæran fór hvergi í ferli og ekkert var gert.“