Reykjavíkurborg hvetur eigendur bifreiða að velja góð vetrardekk eða heilsársdekk fremur en nagladekk.
„Ef þú ert á góðum vetrardekkjum á ekki að þurfa nagladekk hérna innanbæjar. Það gildir það sama um vetrardekk og önnur dekk. Það þarf að velja góð dekk og það þarf að passa að vera ekki á slitnum dekkjum. Það hefur aukist mjög úrvalið af öðrum valkostum en nagladekkjum, bæði góðum vetrardekkjum og harðskelja- og harðkornadekkjum“ segir Guðbjörg Lilja.
Hún segir að lykilatriði sé að hver ökumaður meti það við hvaða aðstæður hann er að aka og velji sér dekk eftir því. Sumardekk og vetrardekk hafi bæði sína kosti á hverjum tíma.
Samkvæmt talningu voru síðasta vetur um 40 prósent ökumanna á nagladekkjum sem þýðir að meirihluti er það ekki. Guðbjörg Lilja segir að þau vilji ná því niður fyrir 30 prósent líkt og það var fyrir um tíu árum.
„Þegar hlutfallið var hæst í kringum 2000 voru um 65 prósent á nagladekkjum. Þannig hlutfallið hefur klárlega minnkað. Það eru einhverjir sem þurfa á nagladekkjum að halda en fyrir þeir sem eru að mestu að keyra innanbæjar þá duga góða vetrardekk,“ segir Guðbjörg Lilja.
Oft er talað um að það þurfti að hreinsa göturnar oftar til að koma í veg fyrir svifryksmengun en Guðbjörg Lilja segir að það eitt og sér sé alls ekki nóg.
„Hraði ökutækja hefur mikil áhrif á magn svifryks og svo nagladekkin,“ segir hún.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að lækkun hraða gæti skapað allt að 40 prósent samdrátt í magni svifryks ef keyrt yrði á 30 kílómetra hraða í stað 50 kílómetra hraða og að nagladekk slíta vegum 20 til 30 falt hraðar en ónegld dekk en það kemur fram í rannsókn Þrastar Þorsteinssonar prófessors í umhverfis- og auðlindafræði og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, um áhrif hraða á mengun vegna umferðar.
Niðurstöðurnar sýna að með því að draga úr umferðarhraða mætti um leið draga töluvert úr framleiðslu svifryks og þar með sliti gatna.
Samkvæmt umferðarlögum er ekki heimild til að banna notkun nagladekkja. Spurð hvort hún myndi vilja breyta því segir Guðbjörg Lilja að þau myndu í það minnsta vilja geta haft áhrif á það.
„Þá er ég að hugsa um gjaldtöku, eða bann á vissum stöðum. Við viljum að borgin sé fyrir fólk en þegar mengun fer yfir ákveðin mörk er til dæmis leikskólabörnum sums staðar haldið inni. Þá finnst manni forgangsröðunin orðin skrítin,“ segir Guðbjörg Lilja.
Hægt er að kynna sér tilkynningu Reykjavíkurborgar um nagladekkjanotkun hér.