„Þetta voru al­gjör­lega ein­stakir tímar. Þetta frjáls­ræði, ég meina, þetta var eitt partý,“ segir Steinunn Sigurðar­dóttir, ljóð­skáld og rit­höfundur, um hippa­tíma­bilið. Steinunn er gestur Sig­mundar Ernis Rúnars­sonar í nýjasta þætti Manna­máls á Hring­braut. Manna­mál er á dag­skrá kl. 19:00 í kvöld og endur­sýndur kl. 21:00.

Steinunn er afar þakk­lát fyrir að vera af hippa­kyn­slóðinni: „Ég er hippa­kyn­slóðin. Ég út­skrifaðist úr MR 1968. Maður upp­lifði þetta bara eins og að drekka vatn, þetta væri bara alveg sjálf­sagt, en núna þá finnst mér full­kom­lega geggjað að hafa upp­lifað þetta,“ segir Steinunn.

„Al­gjör­lega ein­stakir tímar“

„Þetta var bylting og lýsti sér meðal annars þannig að það var engin brú á milli okkar og for­eldra okkar. For­eldrar okkar flestir komu úr sveit og þeir að­löguðust borgar­lífinu aldrei al­menni­lega og voru ein­hvern veginn ekki í tengslum við krakkana,“ segir Steinunn um hippatímabilið.

Krakkarnir af hippa­kyn­slóðinni stóðu þétt við bak hvors annars: „Ég átti held ég aldrei neina vini sem trúðu for­eldrum sínum fyrir einu eða neinu, alveg sama hvað þeir voru góðir. Þannig að vinirnir gengu hver öðrum í for­eldra stað og maður trúði þeim fyrir ástar­sorgum og raunum og öllu mögu­legu.“

Þetta voru al­gjör­lega ein­stakir tímar. Þetta frjáls­ræði, ég meina, þetta var eitt partý. Og þessar sumar­nætur og vor­nætur í Reykja­vík þar sem maður var úti að labba með vinum sínum og skemmta sér. Ef ég er þakk­lát fyrir eitt­hvað í lífinu, þá er það það að ég hafði það skemmti­legt.

Frjálsar ástir

Um ástir á hippa­tíma­bilinu hefur Steinunn þetta að segja: „Þetta voru náttúru­lega al­gjörir laus­unga­tímar. Það verður ekkert annað um það sagt. Það sváfu allir hjá öllum. Ég átti tvær vin­konur sem voru í her­bergi ein­hver staðar með um tíu mönnum og þegar þær komu út þá sagði önnur: „Ég hef sofið hjá þeim öllum,“ og þá sagði hin: „Já, ég líka.“ Þetta var svo­lítið svona.

Hún hugar hlý­lega til þessara tíma: „Þetta voru gefandi tímar og mér finnst að við höfum verið elsku­leg hvert við annað. Og mér finnast þessar hryllings­sögur sem við heyrum núna, mér finnst þetta svo ljótt. Þetta voru al­gjör­lega aðrir tímar,“ segir Steinunn.

Orðið fyrir miklu mót­læti í sínu lífi


Líf Steinunnar hefur ekki verið dans á rósum: „Ég átti framan af, að hluta til, mjög storma­samt líf. Ég var mjög ó­heppin í ástum, að hluta til. Ég hef orðið fyrir mjög miklu mót­læti, sárs­auka, ég þurfti að glíma við veikindi. En, það eru góðir hlutir sem ég ætti að hafa efst í huga,“ segir Steinunn.

Hún er af­skap­lega þakk­lát fyrir rúm­lega 30 ára sam­búð með eigin­manni sínum: „Við erum saman 24 tíma á sólar­hring, hann er tón­skáld og ég er rit­höfundur og við vinnum heima. Þetta er guðs­gjöf sem maður fær aldri full­þakkað. Hann hefur staðið eins og klettur við hliðina á mér í mjög miklum erfið­leikum sem komu yfir­leitt ekki frá mér sjálfri,“ segir Steinunn og vill meina að ástin þurfi að vera leiðandi afl í lífi hvers manns.

Erfið­leikar í fjöl­skyldunni hafa litað hluta af lífi Steinunnar: „Þetta hefur náttúru­lega ekki hjálpað mér, þetta hefur farið lang­leiðina með að buga mig. Erjur eru eigin­lega ekki rétta orðið yfir þetta, en bara mjög á­takan­leg fjöl­skyldu­mál, skulum við segja. Þetta hefur farið mjög ná­lægt því að buga mig. En ég er hérna enn­þá. Og ég held á­fram. Ég ætti eigin­lega að fá medalíu fyrir út­hald,“ segir Steinunn.