Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segist ekki sammála því að Framsóknarflokkurinn sé í eins mikilli lykilstöðu varðandi myndun meirihluta í borginni eins og gefið hafi verið í skyn.

„Það er vanmat á lykilhlutverki Viðreisnar,“ segir Baldur og vísar til stöðu Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar.

Áhugavert verður að sjá hve lengi Samfylking, Píratar og Viðreisn ákveða að ganga saman til þreifinga að sögn Baldurs. Um það hvort reynsluleysi Einars Þorsteinssonar, oddvita Framsóknarflokksins, kunni að verða honum fjötur um fót í kröfu um borgarstjórnarstól segir Baldur að borgarstjórastaða velti fremur á samningsstöðu flokkanna en reynslu.

„Það skiptir máli hverja Píratar og Viðreisn vilja sjá sem borgarstjóra. Nú virðist margt velta á minni flokkum,“ segir Baldur og nefnir að sumir flokkar hafi útilokað samstarf með sjálfstæðismönnum sem þrengi stöðuna.

Margir standa sig að því þessa dagana að vafra með skömmu millibili á fréttasíðum til að leita frétta af framgangi meirihlutaviðræðna.

„Já, stjórnnmálafræðingum finnst fátt meira spennandi en spennandi meirihlutaviðræður,“ segir Baldur um eigin áhuga á líðandi stundu.