„Við sem erum á þingi núna erum að taka ákvarðanir til framtíðar og þá er svo mikilvægt að framtíðin hafi rödd á þinginu. Við erum að tala inn í framtíð barnanna okkar og þá verða þau að fá að koma að ákvörðunartökunni með sinni rödd. Það skiptir máli að börn séu með öfluga og kröftuga rödd í samfélaginu,“ segir Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nýskipaður talsmaður barna á Alþingi.
Í vikunni fór fram í Alþingishúsinu undirritun yfirlýsingar nýrra talsmanna barna á Alþingi, en hver stjórnmálaflokkur tilnefnir einn aðalmann og einn varamann. Þetta er í fjórða sinn sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir.

Að sögn Hafdísar munu talsmenn barna leitast eftir því að framfylgja Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna á þinginu og tala fyrir réttindum og hagsmunum barna og ungmenna.
„Í allri okkar ákvörðunartöku, til dæmis ef við erum að vinna mál í nefndunum inn á þinginu sem varðar hag barna, setjum við okkur í samband við ungmennin okkar og heyrum hvað þau hafa að segja. Það er mikilvægt að þau hafi þessa rödd og læri hvað þau geta gert með því að beita sinni rödd, í gegnum okkur,“ segir Hafdís. Réttindi barna séu henni sérstakt hugðarefni.

„Ég lagði fram þingsályktunartillögu um daginn sem varðar það að við séum í rauninni að grípa börn sem eru að fara í gegnum ADHD ferli, eða þá komið með greiningu ADHD. Að ríkið komi þar inn, þá heilbrigðisstofnun og menntastofnun í hverju sveitarfélagi fyrir sig, í gegnum þá ráðuneytin, heilbrigðis-, barna- og menntamálaráðuneyti. Að útfæra það að það sé skyldubundin fræðsla fyrir foreldra barna með ADHD til þess í rauninni að hjálpa þessum börnum í gegnum lífið. Því ef við gefum börnum með ADHD og aðrar greiningar réttu verkfærin heima við líka, þá er svo miklu meira hægt að gera til þess að aðstoða þau til framtíðar,“ segir Hafdís.
Þá vænti hún þess að þetta verði samráðsvettvangur þar sem talsmenn barna geti miðlað málum sín á milli.
„Svo við séum í samstarfi með það hvernig við ætlum að nálgast málefni barna inn á þinginu í þessu samstarfi,“ segir Hafdís.
