„Við sem erum á þingi núna erum að taka á­kvarðanir til fram­tíðar og þá er svo mikil­vægt að fram­tíðin hafi rödd á þinginu. Við erum að tala inn í fram­tíð barnanna okkar og þá verða þau að fá að koma að á­kvörðunar­tökunni með sinni rödd. Það skiptir máli að börn séu með öfluga og kröftuga rödd í sam­fé­laginu,“ segir Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir, þing­maður Fram­sóknar­flokksins og ný­skipaður tals­maður barna á Al­þingi.

Í vikunni fór fram í Al­þingis­húsinu undir­ritun yfir­lýsingar nýrra tals­manna barna á Alþingi, en hver stjórnmálaflokkur tilnefnir einn aðalmann og einn varamann. Þetta er í fjórða sinn sem tals­menn barna á Al­þingi eru skipaðir.

Hver stjórnmálaflokkur tilnefnir einn aðalmann og einn varamann sem talsmann barna á Alþingi.
Fréttablaðið/Ernir

Að sögn Haf­dísar munu tals­menn barna leitast eftir því að fram­fylgja Barna­sátt­mála Sam­einuðu Þjóðanna á þinginu og tala fyrir réttindum og hagsmunum barna og ung­menna.

„Í allri okkar á­kvörðunar­töku, til dæmis ef við erum að vinna mál í nefndunum inn á þinginu sem varðar hag barna, setjum við okkur í sam­band við ung­mennin okkar og heyrum hvað þau hafa að segja. Það er mikil­vægt að þau hafi þessa rödd og læri hvað þau geta gert með því að beita sinni rödd, í gegnum okkur,“ segir Haf­dís. Réttindi barna séu henni sér­stakt hugðar­efni.

Talsmenn barna á Alþingi undirrituðu í vikunni yfirlýsingu þess efnis að skuldbinda sig til að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum á þinginu.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég lagði fram þings­á­lyktunar­til­lögu um daginn sem varðar það að við séum í rauninni að grípa börn sem eru að fara í gegnum ADHD ferli, eða þá komið með greiningu ADHD. Að ríkið komi þar inn, þá heil­brigðis­stofnun og mennta­stofnun í hverju sveitar­fé­lagi fyrir sig, í gegnum þá ráðu­neytin, heil­brigðis-, barna­- og menntamála­ráðu­neyti. Að út­færa það að það sé skyldu­bundin fræðsla fyrir for­eldra barna með ADHD til þess í rauninni að hjálpa þessum börnum í gegnum lífið. Því ef við gefum börnum með ADHD og aðrar greiningar réttu verk­færin heima við líka, þá er svo miklu meira hægt að gera til þess að að­stoða þau til fram­tíðar,“ segir Haf­dís.

Þá vænti hún þess að þetta verði sam­ráðs­vett­vangur þar sem tals­menn barna geti miðlað málum sín á milli.
„Svo við séum í sam­starfi með það hvernig við ætlum að nálgast mál­efni barna inn á þinginu í þessu sam­starfi,“ segir Haf­dís.

Að sögn Hafdísar er það gríðarlega mikilvægt að börn hafi talsmenn á Alþingi.
Fréttablaðið/Ernir