Tuttugu fyrir­tæki í upp­lýsinga­tækni skrifuðu undir vilja­yfir­lýsingu um að rétta kynja­hallann í tækni­greinum. Fjöl­margir mættu á um­ræðu­fund þess efnis í vikunni og var þar sam­mælst um að nauð­syn­legt væri að bregðast við því að konur eru að­eins um fjórðungur starfs­fólks í upp­lýsinga­tækni­tengdum störfum á Ís­landi.

Niður­stöður kannanna frá Ver­tonet og Intellecta sýndu þennan kynja­mun en sam­kvæmt frétta­til­kynningu um fundinn er kynja­hlut­fallið svipað meðal út­skrifaðra í tækni­tengdu námi í ís­lenskum há­skólum.

Á fundinum var sam­mælst um átak til að laða fleiri konur og stelpur í tækni, gera kven­fyrir­myndir sýni­legri, bæta menningu fyrir­tækjanna og hlúa að fjöl­breytni í sam­setningu teyma.

Full­trúar um tuttugu fyrir­tækja skrifuðu undir vilja­yfir­lýsingu um að standa að og fjár­magna átak til að bæta úr stöðunni, meðal annars með því að stofna stýri­hóp og ráða verk­efna­stjóra til starfa.

„Það skiptir höfuð­máli að fjölga konum í tækni­greinum ef við ætlum að ná þeim mark­miðum sem að er stefnt í ís­lensku sam­fé­lagi,“ sagði Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra og fagnar niður­stöðu fundarins.