Á þriðju­dag koma saman um 800 konur og karlar í Hörpu til að ræða á­stæðu, á­hrif og eftir­mála #met­oo eða #églíka bylgjunnar. Halla Gunnars­dóttir, ráð­gjafi ríkis­stjórnarinnar í jafn­réttis­málum og einn helsti skipu­leggjandi ráð­stefnunnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að ráð­stefnan sé ein sú yfir­grips­mesta sem hafi verið haldin í heiminum til að ræða #met­oo bylgjuna.

„Ég held að það sé ó­hætt að segja að þetta sé með um­fangs­mestu al­þjóð­legu ráð­stefnu sem hefur verið haldin um um­fang og eðli #met­oo.“

Skipu­lagning ráð­stefnunnar hófst stuttu eftir að fyrstu konurnar stigu fram 2017, eða í janúar árið 2018 og var í kjöl­farið á­kveðið að hún yrði lykil­þáttur í for­mennsku Ís­lands í nor­rænu ráð­herra­nefndinni á þessu ári.

„Ráð­stefnan er liður í því,“ segir Halla.

Spurð um inn­tak og á­stæðunni fyrir ráð­stefnunni segir Halla þær marg­þættar. Þó að þau vonist til þess að hægt verði að draga á­lyktanir um á­stæður og á­hrif bylgjunnar, þá muni væntan­lega taka langan tíma að vinna úr því meini sem dregið var fram í dags­ljósið.

„Það mun taka okkur ára­tugi, ef ekki aldir, að fást við #met­oo og þá menningu sem bylgjan af­hjúpaði,“ segir Halla.

Hvað gerði konum kleift að stíga fram

Hún segir að á ráð­stefnunni verði þó sér­stak­lega skoðað hvers vegna á þessum tíma­punkti konum var allt í einu kleift að stíga fram með sögur sínar með þessum hætti.

„Hvaða skil­yrði voru fyrir hendi sem gerði það að verkum? Um­fangið var mis­jafnt á milli landa og starfs­greina eða hópa kvenna. Sums staðar fór allt á milljón strax, en annars staðar gerðist ekki neitt. Það er því á­huga­vert að velta því upp hvað skýrir þennan mun,“ segir Halla.

Hún segir að vegna þess að ráð­stefnan sé hluti af for­mennsku Ís­lands í nor­rænu ráð­herra­nefndinni verði sterkur nor­ræn fókus á ráð­stefnunni.

„Hvað Ís­land varðar þá viljum við styðja við þá um­ræðu sem að konur af er­lendum upp­runa hófu hér,, og byggja á henni, til að reyna að draga frekar fram sam­spil kyns, kyn­þáttar og stéttar í þessari mis­munun sem að konur lifa við,“ segir Halla.

Ráðstefnan hefst á þriðjudag og lýkur á fimmtudag.
Mynd/Forsætisráðuneytið

Skoða samspil kyns, kynþáttar og stéttar

Hún segir að þrátt fyrir að ýmsar al­þjóð­legar stað­festingar séu til fyrir því að Ís­land og Ís­lendingar standi sig vel þegar kemur að jafn­réttis­málum þá höfum við enn margt að læra af sam­fé­lögum sem eru fjöl­breyttari.

„Um þá marg­þættari mis­munun sem að þessar konur búa við.“

Halla segir að konur af er­lendum upp­runa hafi sér vitandi, sem hópur, ekki stigið fram á neinu öðru Norður­landi.

„Mér finnst það skylda okkar, að taka í höndina á þessum veru­leika sem er­lendar konur búa við hér á Ís­landi, og finna út úr því hvernig við getum haldið um­ræðunni á­fram og þróað stefnur okkar og að­gerðir í sam­ræmi við það,“ segir Halla.

Hún segir að val þeirra á lykil­fyrir­lesurum ráð­stefnunnar hafi litast af þessu megin­stefi.

„Þetta er lykil­fólk sem hefur fjallað um sam­spil kyns, kyn­þáttar og stéttar.“

Sam­hliða þessu megin­stefi verður þó fjallað um mis­munandi þemu bylgjunnar. Svo sem vinnu­markað, lýð­heilsu, sam­þykki og að hlusta eftir þeim röddum sem heyrðust síður í #met­oo bylgjunni.

„Við erum þá til dæmis að tala um fatlaðar konur. Annað dæmi eru konur í vændi sem stigu fram í Sví­þjóð en ekki hér, sem og konur í lág­launa­störfum. Þetta er veru­leiki sem rataði ekki jafn mikið í #met­oo hreyfinguna hér og okkur langar svo að skoða hvers vegna og hvað við getum gert til að tryggja að allar þessar raddir séu hluti af þeim að­gerðum sem við grípum til,“ segir Halla.

Baráttukonan Marai Larasi mun flytja fyrirlestur á ráðstefnunni. Hér er hún með leikkonunni Emmu Watson á Golden Globe hátíðinni.
Fréttablaðið/Getty

Annað þema sé vinnu­markaðurinn.

„Þar fór allt af stað við að endur­skoða ferla og hvernig ætti að fást við slík mál, en við erum samt sem áður komin mjög skammt á veg í þessari um­ræðu því við vitum allt­of lítið um hvað við viljum gera varðandi ger­endur,“ segir Halla.

Hún segir að auð­vitað séu færar leiðir innan réttar­vörslu­kerfis og hegningar­laga, en það fáist ekki alltaf lausnir þar.

„Við vitum að það nær bara yfir toppinn á ís­jakanum. Það eru mál sem falla ekki undir hegningar­lög en falla samt undir kyn­ferðis­lega á­reitni, og hvað eigum við að gera við þessi mál,“ spyr Halla.

Hún segir að sums staðar hafi verið reynt að taka á málunum, en segir að til­raunir hafi verið mis­góðar. Það komi fólk á ráð­stefnuna sem geti fjallað um það.

Fjallað verður um hvernig um­ræða um sam­þykki hefur þróast í kjöl­far #met­oo á heim­speki­legum nótum og skoðað hvað rétt­læti sem hug­tak þýðir fyrir þær konur sem hafi stigið fram.

Angela Davis og R­oxanne Gay ramma inn ráð­stefnuna

Tugir inn­lendra og er­lendra fyrir­lesara er að finna á dag­skránni. Þar má sjá að bar­áttu­konurnar Angela Davis og R­oxanne Gay flytja opnunar og loka­á­vörp hennar.

„Angela Davis er búin að vera virk í ára­tugi en R­oxanne Gay er að­eins yngri. Þarna koma því saman ó­líkar kyn­slóðir, sem þó eiga það sam­eigin­legt að fást við mis­rétti sem á sér sömu rætur ,“ segir Halla.

Hún segir að auk þeirra sé fjöldi fyrir­lesarar sem hver hafi sér­þekkingu á sínu sviði. Hún nefnir sem dæmi Marai Larasi sem sé leiðandi í bar­áttu svartra kvenna í Bret­landi. Þá nefnir hún einnig June Bar­ret sem hafi barist fyrir réttindum kvenna sem sinna heimilis­störfum og svo Monicu Ramirez sem barist hefur fyrir réttindum kvenna í land­búnaði í Banda­ríkjunum.

„Þetta eru hópar sem þeim hefur tekist að mó­bilisera í Banda­ríkjunum. En svo ef við horfum á þetta í ís­lensku sam­hengi þá vitum við ekkert mikið um konur sem sinna heimilis­störfum á Ís­landi. Við vitum að oft vinna þær svart. En við vitum of lítið um hverjar þær eru, hver skil­yrði þeirra eru og svo fram­vegis. Við þurfum að skoða það og þá er gott að fá þessar konur til landsins svo við getum lært af þeim,“ segir Halla.

Hún segir að auk þeirra verði Cynthia En­loe og Liz Kel­ly meðal fyrir­lesara en þær séu fyrir löngu síðan orðnar heims­þekktar fyrir sitt fram­lag til femín­isma. Þá mun Gary Bar­ker taka þátt í ráð­stefnunni en hann er þekktur fyrir bar­áttu sína fyrir að efla karla og drengi til þátt­töku í jafn­réttis­bar­áttunni.

Angela Davis hefur um árabil barist fyrir réttindum kvenna.
Fréttablaðið/Getty

Vilja sjá hvað gerist

„Við erum að setja á svið 80 fyrir­lesara. Allt frá gras­rótar­fólk sem hefur tekið þátt í af­mörkuðum hluta #met­oo og til heims­þekktra hugsuða. Við erum að reyna að blanda þessu saman. Það hafa margir spurt mig hver út­koman eigi að vera. Ég vil fyrst og fremst sjá hvað gerist. Hvað gerist þegar þessu fólki er öllu blandað saman og svo færðu yfir 800 manns til sam­talsins? Við vonumst til þess að með ráð­stefnunni verði hægt að greina hvað gerist næst, hver á­hrif #met­oo hafa verið og hver þau verði til fram­tíðar,“ segir Halla að lokum.

Sam­kvæmt upp­lýsingum á heima­síðu ráð­stefnunnar lauk skráningu á hana þann 10. septem­ber, en þó er fólki vel­komið að koma í Hörpu og taka þátt í ein­staka við­burðum svo lengi sem hús­rúm leyfir. Þar segir einnig boða þurfi koma sína svo skipu­leggj­endur hafi hug­mynd um hversu margir vilja sækja hvern við­burð, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir nafn­spjöldum eða veitingum fyrir gesti sem ekki hafa skráð sig.

Nánari upp­lýsingar er hægt að finna hér um skráningu.

Einnig er vakin at­hygli á að aðal­dag­skrá ráð­stefnunnar verður streymt á Face­book-við­burðinum.