Bryn­dísi Sigurðar­dóttur var að vonum brugðið þegar sonur hennar hringdi í hana síðast­liðinn föstu­dag og færði henni þær fréttir að hann, konan hans og tvær dætur þeirra höfðu rétt sloppið lifandi frá eldi sem var húsi þeirra að bráð um nóttina. Hún tók sam­stundis þá á­kvörðun að hrinda af stað söfnun til að að­stoða fjöl­skylduna að koma undir sig fótunum á ný.

Fjögurra manna fjöl­skyldan saman­stendur af þeim Sigurði Aðal­geirs­syni, Hólm­fríði Guðmunds­dóttur og dætrum þeirra tveimur sem eru fjögurra og sex ára gamlar. Þau höfðu komið sér fyrir í húsi rétt fyrir utan Halling­by, sem er smá­bær í Noregi. „Húsið þeirra var eins og flest hús í Noregi eru úr timbri og fuðraði því bara upp í eldinum,“ segir Bryn­dís í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hlupu út á nær­fötunum

„Sonur minn vaknaði um nóttina við ein­hverja bresti og brak og ætlaði til að byrja með að hunsa það, hann hélt að þetta væri bara skrölt í timbrinu eins og gengur og gerist.“ Eitt­hvað hvatti Sigurð þó til að fara á lappir og þá mætti honum skugga­leg sjón.

„Eins og ég segi þá áttu þau fótum sínum fjör að launa það mátti engu muna, ein­hverjum sekúndum síðar var húsið orðið al­elda.“ Þá hafði gluggi sprungið og hleypt súr­efninu inn með þeim af­leiðingum að engu var bjargað úr húsinu. „Þau voru þá ný hlaupin út á nær­fötunum einum saman svo það hefði ekki mátt tæpara standa.“

Bryn­dís segir ljóst að ein­hver hafi vakið yfir syni hennar þarna og pikkað í öxlina á honum á meðan allir sváfu. „Svona er svo fljótt að gerast að það er guðs mildi að allir sluppu lifandi frá þessu.“

Þessi mynd er úr heimsókn Bryndísar, Aðalgeirs og Aðalgeirs til litlu fjölskyldunnar í Noregi.
Mynd/Aðsend

Björguðu hænunum frá eldinum

Meira að segja silki­hænurnar sem fjöl­skyldan hefur ræktað síðustu ár og eru nú 22 talsins komust lifandi af. „Þegar Siggi og Hófí hlupu út þá fóru þau rak­leiðis í úti­geymsluna og björguðu hænsnunum þaðan.“

Þrátt fyrir að allt lifandi í kotinu hafi sloppið missti fjöl­skyldan al­eigu sína í eldinum. „Það er um tuttugu mínútna akstur frá bænum inn sveita­veginn svo þegar slökkvi­liðið kom var eldurinn farinn að læsa sig í út­geymslurnar og farin að breiðast í kringum húsið.“ Ekki er vitað hver elds­upp­tök eru sem stendur en rann­sókn er nú á frum­stigi í málinu.

Á­fall fyrir fjöl­skylduna

„Þetta er auð­vitað á­fall fyrir hvern þann sem lendir í svona,“ segir Bryn­dís sem upp­lifir mikið van­mætti gagn­vart að­stæðunum. „Auð­vitað reynir maður að gera allt sem maður mögu­lega getur fyrir þessar elskur. Þau búa þessa dagana á hóteli en þar getur auð­vitað engin dvalið til ei­lífðar­nóns.“ Fjöl­skyldan eigi enga að­stand­endur í Noregi og vinnur nú í því að finna nýtt hús­næði.

„Eftir að­stæðum þá hafa þau það alveg á­gætt, þau eru auð­vitað enn að átta sig á stöðunni og reikna úr hvernig fram­haldið verður.“

Fjallað var um brunann í fjölmiðlum í Noregi.
Mynd/Facebook

Margt smátt gerir eitt stórt

Söfnun til styrktar fjöl­skyldunni hefur að mati Bryn­dísar farið vel af stað og segir hún margt smátt safnast saman í eitt stórt. „Það hjálpar auð­vitað allt til og hafa til dæmis ýmsir boðist til að gefa annað en peninga sem við þáðum.“ Hún segir öllum vera vel­komið að gera það sem

Litla fjöl­skyldan er síðan væntan­leg til landsins um jólin þar sem þau munu dvelja í faðmi fjöl­skyldunnar. „Við teljum bara niður mínúturnar,“ segir Bryn­dís spennt. Á­huga­­samir geta lagt frjáls fram­lög inn á reikning í nafni Sigurðar.

Banki: 0140-26-1144
Kt: 030787-2939

Hólmfríður og Sigurður með dætur sínar tvær.
Mynd/Facebook