Brynhildur Karlsdóttir er ein fjölmargra kvenna og stúlkna sem hafa stigið fram undanfarnar vikur og greint frá litlum eða engum viðbrögðum skólastjórnenda í Menntaskólanum í Hamrahlíð þegar þeim var greint frá kynferðisofbeldi af hálfu nemanda skólans. Hún er til viðtals í þættinum Undir yfirborðið sem stýrt er af Ásdísi Olsen. 

Ásdís er einmitt móðir Brynhildar og fékk því til liðs við sig Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur kynjafræðikennara, femínista og ráðgjafa hjá Stígamótum. 

Í þættinum byrjuðu þær á því að ræða um kvikmyndina Promising Young Woman þar sem söguþráður myndarinnar er svipaður og sýnt fram á úrræðaleysi fyrir gerendur. Hanna Björg bendir á að í myndinni er ábyrgðinni varpað á þolendur. 

Hafa beðist afsökunar

Hanna Björg spurði Brynhildi af hverju hún skrifaði greinina sem var eitt af því sem að hóf þá nemendabyltingu sem nú er í gangi. Titill greinarinnar er „MH klúðrar málunum enn þá á kostnað þolenda“ og segir Brynhildur að hún hafi heyrt af mótmælunum sem voru hafin í skólanum og um viðbrögð skólastjórnenda. Þau hafi gert lítið úr mótmælunum sem hafi kallað mótmælin „mass hysteríu“ og að það væri verið að eyðileggja líf strákanna. 

Skólinn hefur beðist afsökunar á þessum fyrstu viðbrögðum auk þess sem skólastjórnendur hafa beðið Brynhildi afsökunar. 

„En þessi fyrstu viðbrögð skipta máli,“ segir Brynhildur í þættinum og að þessi umræða hafi triggerað í henni reiði og hafi vakið upp gamlar tilfinningar. Hún lýsir því að hafa hugsað um möguleikann á því að opna sig opinberlega um mál sitt og hafi á sama tíma hugsað um það hvernig hefur oft farið fyrir konum sem hafa stigið fram.

„En einhvern veginn var ég bara full af einhverri reiði og langaði svo að leggja þessum krökkum, þolendum innan MH lið,“ segir Brynhildur og að þess vegna hafi hún opnað sig um sína sögu og vinkonu sinnar en þegar Brynhildur var 17 ára braut samnemandi hennar á henni kynferðislega. 

Brynhildur fór svo yfir það hvernig viðbrögð hennar voru og skólans eftir að það gerðist. 

„Ég gat ekkert flúið hann, hvort sem var á göngunum eða í félagslífinu. Ég var ekki örugg neins staðar,“ segir Brynhildur og að skólinn hafi aðeins sagst ekkert getað gert og að öll ábyrgðin hafi verið sett á hana í málinu að leita sér aðstoðar og gera eitthvað í sínum málum. Hún endaði á því að skipta um skóla og fara í MK þar sem hún þekkti engan. 

Flestar stelpur skaddaðar

Spurð hvað hún myndi vilja sjá gert segir Brynhildur að henni þyki særandi að sjá hversu fljótt fólk tekur upp hanskann fyrir gerendur og vill að þolendur fái meira og betra rými til að tjá sig. Hún segir að það minnsta sem hún hefði viljað sjá í sínu máli hefið verið að hann myndi verðu færður um skóla og að minni ábyrgð í málinu hefði verið sett á hana. 

Þær Brynhildur og Hanna fara um víðan völl í viðtalinu og ræða um gerendameðvirkni, samfélagslegar breytingar

„Flestar stelpur sem voru þarna eru skaddaðar. Það var slutshaming. Teknar myndir og myndir af fólki í sleik á böllum og gert grín að því,“ segir Brynhildur. 

„Konur eiga ekki að þurfa að þjást og það má rassskella karla sem nauðga,“ segir Brynhildur.

Mynd/Aðsend

Lítilsvirðing frá MH

Í þættinum eru einnig sýnd myndskeið þar sem Brynhildur er beðin afsökunar af skólameistara skólans og samtali hennar við hann. 

Upptakan er svo rædd og þær tilfinningar sem fylgja því að hafa upplifað kynferðisofbeldi eins og skömm og hvað það þarf mikið svo að konur opni sig um bæði ofbeldi og svo tilfinningarnar sem fylgja. 

„Það fannst það öllum þægilegast að ég fór,“ segir Brynhildur um það hvernig henni leið þegar hún hætti í skólanum eftir að brotið var á henni og þau viðbrögð og lítilsvirðingu sem hún fann frá skólanum og öðrum. 

Þáttinn er hægt að horfa á í heild sinni hér að neðan.