„Þetta er viðkvæmt mál,“ sögðu tvær konur sem eru trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar sem gengu rétt í þessu út af stjórnarfundi hjá Eflingu í Borgartúni.

Þær vildu ekkert tjá sig um það sem rætt hafi verið á fundinum sem hófst klukkan eitt.

Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ, sem fenginn var til að sitja stjórnarfundinn, segir fundinn allt eins geta staðið til klukkan sex eða sjö í kvöld.

„Það liggur mikið við, það er stór dagskrá,“ svaraði Halldór er hann var spurður hvers vegna fundurinn væri að dragast á langinn.

Fátt annað hefur verið á milli tannanna á fólki en málefni Eflingar eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir formaður og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri sögðu af sér.

Málið má rekja til ályktunar sem trúnaðarmenn sendu á Sólveigu og stjórn Eflingar fyrir hönd starfsfólks þar sem formaðurinn var meðal annars sakaður um kjarasamningsbrot og óviðunandi hegðun í starfi.

Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, gekk á eftir ályktuninni en var ítrekað neitað um hana en Sólveig Anna og stjórnin töldu sig ekki hafa heimild til að afhenda honum textann. Eftir það leitaði Guðmundur til Starfsgreinasambandsins og ASÍ en fékk enga hjálp að eigin sögn „þrátt fyrir að fyrir lægi að stjórnin ætti óskoraðan rétt á öllum lykilupplýsingum um starfsemi Eflingar.“

Í kjölfarið fór Guðmundur með málið í fjölmiðla og ákvað þá Sólveig að bregðast við með því að gefa starfsfólkinu þessa tvo kosti. Segir hún að í raun hafi starfs­fólk Eflingar hrakið hana úr starfi.

Guðmundur Baldursson og Sólveig Anna voru saman í B-framboði til stjórnar Eflingar árið 2018.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson