„Álagið sem mun fylgja faraldrinum er ekki komið fram enn þá, en það mun koma,“ segir Einar Hermannsson, formaður SÁÁ. „Ég hugsa að það muni ekki koma fyrr en síðar í vetur þegar fólk er orðið það veikt að það þarf að taka á sínum málum. Það kemur sprengja. Það er spurning hvort það verði í nóvember, desember eða í janúar.“

Liðnir eru tæpir þrír mánuðir frá því að Einar tók við formennsku í samtökunum og eru nú mörg verkefni á borði hjá honum. Meðal þess er endurskoðun á tekjum SÁÁ af spilakössum sem hann telur vera svartan blett á starfseminni, hann getur þó lítið gefið upp um hvar það mál er statt annað en að það sé í vinnslu líkt og margt annað. „Þetta er langhlaup, þetta gerist ekkert á 100 dögum. Staðan er nokkuð góð, við eigum peninga í kassanum og samtökin starfa eins og smurð vél.“

Einn samningur í stað þriggja

Meðal þess sem er í undirbúningi er samningsgerð við Sjúkratryggingar Íslands um heildstæðan samning. „Í dag erum við með þrjá samninga sem eru orðnir sex til sjö ára gamlir. Nú vorum við sammála um að gera einn samning sem tæki þá á öllum þáttum sjúkrarekstursins, göngudeildin, Vík og Vogur. Það er mjög jákvætt og áhugavert að sjá hvernig það kemur út. Þetta einfaldar allt, einn samningur myndi þá gilda um sjúkling frá því hann fer inn á Vog þangað til hann útskrifast af göngudeildinni.“

Faraldurinn hefur haft slæm áhrif á rekstur samtakanna. „Í fyrstu bylgjunni vorum við með 45 inniliggjandi á Vogi í stað 60. Núna erum við með rúmlega 50. Þetta hefur ekki haft nein áhrif á Vík, eftirmeðferðarstöðina okkar, þar eru 60 inniliggjandi. Bæði er gamla húsið nýuppgert og viðbyggingin ný, þannig að við uppfyllum öll skilyrði sóttvarna,“ segir Einar. Ekki hefur farið fram álfasala á þessu ári, er næsta sala áformuð um mánaðarmótin október – nóvember.

„Þetta hefur haft truflandi áhrif á göngudeildina í Efstaleiti, það hefur fallið niður talsvert af fræðslutímum og félagslífið er nánast ekkert. Við náðum að opna í eina viku, síðan var lokað á það aftur.“ Engin smit hafa greinst á göngudeildinni, Vogi eða Vík, eru allir skimaðir áður en þeir leggjast inn.

Ungmennastarf endurvakið

Það sem honum hefur tekist að gera á þessum tíma er að endurvekja UngSÁÁ, félagsskap ungmenna sem tekur á móti öðrum ungmennum úr meðferð. „Þetta var til í gamla daga og ég taldi mjög mikla brýn á að endurvekja þetta. Maður upplifir það að krakkar sem koma úr meðferð séu gjarnan týnd, þau fara inn í verndað umhverfi á Vogi og fara svo í eftirmeðferð, svo bíður þeirra AA-samtökin, sem er vissulega mjög gott, en það er enginn félagsskapur sem tekur á móti þeim,“ segir Einar. „Þau byrja á að kynnast þeim á ungmennafundum inni á Vogi og taka svo á móti þeim til að þau finni að það sé eitthvað annað sem bíði þeirra en gamli félagskapurinn eða tölvan. Þau skipuleggja svo sjálf viðburði á borð við tónleika eða skíðaferðir. Það er kominn góður kjarni, 8 til 10 krakkar sem að ætla að taka þetta að sér. Þetta var komið af stað, en það hefur þurft að fresta þessu nokkrum sinnum vegna COVID, en þetta lofar góðu.“

Mörg verkefni bíða nú Einars.
Fréttablaðið/Anton Brink

Um mánaðarmótin fer af stað söfnun fyrir Barnahjálp SÁÁ, þegar Einar tók við voru rúmlega 120 börn á biðlista eftir sálfræðiþjónustu og hafði fyrri stjórn sagt upp sálfræðingum samtakanna. Í dag hefur stöðugildunum verið fjölgað til að grynnka á biðlistanum, til þess þarf þó fjármagn. „Þetta er mjög nauðsynleg þjónusta og við erum í viðræðum við félags- og barnamálaráðherra um það.“

Mikill titringur var innan samtakanna í aðdraganda formannskosninganna milli hans og Þórarins Tyrfingssonar, sem hafði áður gengt formennsku. Íhuguðu margir uppsagnir og voru stór orð látin falla. Má segja að allt hafi fallið í ljúfalogn innan samtakanna eftir að Einar tók við. „Mín upplifun er sú að þeir sem að tóku þátt í kosningunum, hvort sem þeir eru Tóta megin eða mín megin, hafi ákveðið að snúa bökum saman og hugsa þetta út frá hagsmunum samtakanna og skjólstæðinganna okkar.“

Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa, hefur gagnrýnt SÁÁ harðlega síðustu ár, vinnur félagið að því að koma á fót Ástuhúsi, göngudeild fyrir konur í fíknivanda og með áfallasögu að baki. Einar fagnar öllum nýjum faglegum úrræðum sem eru í boði fyrir fólk í vanda. „Ég óska þeim mikils velfarnaðar í öllu þeirra starfi. Við fylgjum spennt með nýjum úrræðum, til dæmis Bati, sem taka á móti föngum sem eru að snúa aftur út í samfélagið, mjög brýnt verkefni. Það má orða þetta þannig að það sem virkar fyrir einn virkar kannski ekki fyrir annan.“

Sala áfengis jókst töluvert í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins og í sumar. Samkvæmt tölum ÁTVR var salan 8,2 prósentum meiri í mars á þessu ári en í fyrra, þá tók salan stökk upp í 31,6 prósent milli ára í apríl. Svipaðar tölur má finna í rannsókn RTI í Bandaríkjunum, þar hækkaði meðalneysla landsmanna um 27 prósent milli febrúar og apríl. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var sala áfengis bönnuð í Suður-Afríku og settar miklar hömlur á sölu þess í Tælandi, Kenía og á Indlandi.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, hefur rætt um það við fjölmiðla í vikunni að fleira fólk á miðjum aldri sé nú í daglegri áfengisneyslu. Í hlekkjunum má sjá viðtal RÚV og Stöðvar 2 við Valgerði.

Einar segir ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum hóp. „Þetta er það sem maður hefur helst áhyggjur af núna, það eru hvað það eru margir bak við gardínuna að drekka sig mjög veika. Við þurfum að hlúa að aðstandendum þessa hóps, hvort sem það eru börn eða aðrir fjölskyldumeðlimir. Alkahólismi er fjölskyldusjúkdómur. Það eru margir sem veikjast af því að vera með alkahólista á heimilinu, það er mikilvægt að allir þeir fái þjónustu.“