Verkfall flugvirkja hefst að öllu óbreyttu á miðnætti í kvöld en samninganefndir flugvirkja og ríkisins funda nú um stöðuna. Óháð niðurstöðu þeirra er þó ljóst að engin þyrla Landhelgisgæslunnar verði til taks í að minnsta kosti tvo sólarhringa þar sem núverandi þyrla þarf að fara í reglubundna skoðun.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við Fréttablaðið að um sé að ræða grafalvarlega stöðu. Málið var til umræðu þegar störf þingsins voru rædd á Alþingi í dag en þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Miðflokksins lýstu yfir áhyggjum af stöðu mála.

Slagorð gæslunnar ekki í gildi

„Ætli þetta sé ekki eini neyðarsími í heiminum hjá þeim sem sjá um leit og björgun á fólki í lífsháska þar sem svarið verður nei, því miður, það er lokað vegna vinnudeilna,“ sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og bætti við að kjörorð gæslunnar „Við erum til taks“ væri ekki í gildi næstu daga.

Hann vísaði til þess að þyrlur gæslunnar fari að meðaltali í 21 útkall á mánuði og að það sé óásættanlegt að leit og björgun skuli leggjast af vegna vinnudeilna en hann krafðist þess að stjórnvöld gangi í málið. „Það geta verið mannslíf í húfi og ábyrgð þeirra sem hafa komið málum í þessa stöðu er mikil.“

„Kaldhæðni örlaganna“

Hríðarveðri er spáð í kvöld og á morgun en gular og appelsínugular veðurviðvaranir verða í gilfi fram á morgun. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að staðan ætti að hafa verið fyrirsjáanleg og að ábyrgð ríkisvaldsins væri mikil. „Það er ekkert sem réttlætir það að björgunarþyrlur séu ekki tiltækar,“ sagði Albertína.

Hún velti enn fremur fyrir sér hvort það væri eðlilegt að allt viðbragðskerfið væri staðsett á höfuðborgarsvæðinu meðan við búum á dreifbýlu landi. „Það má kalla það kaldhæðni örlaganna að í kvöld er varað við fyrsta vetrarstormanna ... Þetta snýst ekki aðeins um kaup og kjör. Þetta er dauðans alvara,“ sagði hún.

Ríksstjórnin taki sig á

Þá sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, að það væri grafalvarlegt og óþolandi að engin björgunarþyrla yrði til taks en hann sagðist hissa á að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi beðið fram á síðustu stundu með að segja að hún efist um verkfallsrétt flugvirkja gæslunnar.

„Það virðist svo sem ríkisstjórn Íslands, sú sem nú situr, leggi sig í líma við að troða illsakir við þær stéttir sem standa í í forgrunni baráttunnar,“ sagði Þorsteinn og bætti við að það væri nauðsynlegt að ríkisstjórnin tæki sig á.