„Ég tek henni svona bærilega,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, aðspurður í Fréttavaktinni á Hringbraut um gagnrýni sem samningar sem sambandið gerði við Samtök atvinnulífsins um helgina.

„Auðvitað er maður svolítið svekktur með þessi viðbrögð frá þeim. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er bara einn besti kjarasamningur sem gerður hefur verið fyrir verkafólk og fyrir láglaunafólk,“  segir hann og bendir á að samningurinn gildi í rúmt ár og þá verði aftur sest niður og samið.

Vilhjálmur útskýrir að umræddur samningur skili verkafólki allt að 52 þúsund krónum í hækkun á kauptöxtum og geti skilað fiskvinnslufólki 60- til 80 þúsund krónum á mánuði í bónusgreiðslum.

„Ég er gríðarlega stoltur af þessu verki sem við þarna gerðum, enda lögðum við okkur í líma við það að ganga frá kjarasamningum til að koma launahækkunum hratt og vel til okkar félagsmanna vegna þeirra kostnaðarhækkana sem dunið hafa á okkar fólki.“

Vík á milli vina

Spurður út í samband sitt við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, svarar Vilhjálmur „Ég held að það sé smá vík á milli vina. Ég held að það sé alveg ljóst. Nú verður maður bara að draga andan og átta sig á stöðunni.“

Hann greinir nánar frá því hvað virðist hafa komið upp á í þessu sambandi og talar þar um samband sitt við Sólveigu.

„Það gerðust hlutir sem ég á rosalega erfitt með að sætta mig við. Til dæmis það að ég hélt formanni Eflingar alltaf upplýstri um hvað væri að gerast, því Efling er stærsta félagið innan SGS. Þannig ég lét þau alltaf vita upp á krónu hvar við værum stödd.“ segir Vilhjálmur sem heldur því fram að það sé af og frá að hann hafi ekki haldið henni upplýstri.

Segist vera illa svikinn

Þá segir hann að á viðkvæmum tímapunkti hafi mikilvægum upplýsingum verið leikið til fjölmiðla, en það varðaði það að Vilhjálmur taldi að þau sæju til lands í viðræðunum.

„Þeim upplýsingum sem ég hafði veitt þeim var leikið til fjölmiðla. Ég fæ bara þá tilfinningu að það hafi verið gert til að skemma og afvegaleiða það sem við vorum að gera. Ég er pínu sár yfir því. Samstarf fólks byggist upp á trausti, trúnaði og heiðarleika,“ segir Vilhjálmur

Þegar hann er inntur eftir frekari svörum bætir hann við „Já ég er dáldið illa svikinn. Ég myndi aldrei nokkurn tíman gera félögum mínum það að leka upplýsingum á viðkvæmum tímum í kjaraviðræðum.“

Vilhjálmur segir að einungis tíminn muni leiða í ljós hvort það muni gróa um heilt í þessum samböndum.

„Heilagur réttur“ Eflingar að stíga frá borði

Þá útilokar Vilhjálmur ekki að Efling muni fara úr Starfsgreinasambandinu og þar með ASÍ. Hann tekur þó fram að um sé að ræða „heilagan rétt“ stéttarfélaga að taka slíkar ákvarðanir og hann muni ekki gera neinar athugasemdir við það.

Hægt er að horfa á viðtalið við Vilhjálm hér fyrir neðan.