Hjól­hýsa­byggðin á Lauga­vatni verður lögð af og eig­endur hjól­hýsa verða að vera búnir að koma öllum hjól­hýsum í burtu fyrir ára­mót sam­kvæmt á­kvörðun sveitar­stjórnar Blá­skóga­byggðar. „Það er verið að reka okkur út með harðri hendi,“ segir Grétar Sigurðs­son, einn hjól­hýsa­eig­andinn, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Grétar segir fjöldann allan af hjól­hýsum séu til sölu vegna á­kvörðunar sveitar­stjórnarinnar. „Það er stór hópur á bruna­út­sölu í dag,“ segir hann.

Eftir fljótt yfir­lit á sölu­síður á Face­book, eins og Brask og brall, má sjá að þó nokkur hjól­hýsi frá svæðinu séu til sölu. Hjól­hýsi Grétars er eitt af þeim, en það hjól­hýsi er frá árinu 2000.

Í sam­tali við Reykja­vík Síð­degis á Bylgjunni fyrr í vikunni sagði Ásta Stefáns­dóttir, sveitar­stjóri Blá­skóga­byggðar að á­kvörðun sveita­stjórnar um hjól­hýsa­byggðina væri endan­leg. Byggðin hefur staðið við Laugar­vatn í fimm­tíu ár.

„Á­stæðan fyrir því að það var á­kveðið að loka þessu svæði var sú að öryggis­mál voru ekki í lagi, einkum og sér það sem snýr að bruna­vörnum,“ sagði Ásta í þættinum.

Sveitarstjóri Bláskógarbyggðar segir brunavarnir á svæðinu hafa ekki verið í lagi.

Grétar segir frá mág­konu sinni sem gaf sitt hús í fyrra­dag. „Mág­kona mín var nú í fyrra­dag að gefa hús sem hún hafði keypt á tvær milljónir fyrir ekki svo löngu síðan. Það var bara gefið,“ segir hann.

„Hún er orðin sjúk­lingur og getur ekkert bjargað sér. En hún er ekki sú verst setta í þessu,“ bætir hann við.

Fjöl­mörg hjól­hýsi hafa selst á lé­legu verði upp á síð­kastið að sögn Grétars. „Ein vin­kona mín sem keypti breskan bragga hérna fyrir þremur árum síðan á 4,8 milljónir hún seldi hann á milljón,“ segir hann.

Neyðar­á­stand að skapast

Hann lýsir á­standinu í hjól­hýsa­byggðinni sem neyðar­á­standi. „Þetta er neyðar­á­stand hérna. Það sem er að gerast er að þetta er því­lík eignar­upp­taka hjá fólki sem hefur alls ekki peninga til þess. Sparnaðurinn hefur bara farið hingað,“ segir hann.

Grétar segist ekki sjá neina haldbæra á­stæðu fyrir því hvers vegna hjól­hýsa­byggðin sé lögð af. „Það er bara verið að reka okkur í burtu með harðri hendi. Svo virðist engin hald­bær á­stæða fyrir því,“ segir hann ó­sáttur.

Það virðist ekki ganga illa að selja hjól­hýsin en Grétar segir á­stæðu vera fyrir því. Það er enginn vandi að selja þar sem allt er á bruna­út­sölu. Það er verið að selja hér bara til þess að komast frá þessu,“ segir hann.

„Ég er búinn að selja á innan við hálf­virði. Það sem kostaði fimm milljónir áður er hægt að fá fyrir upp undir tvær,“ bætir hann við.