Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra eigast við í Fréttavaktinni í kvöld. Þar ræða þeir komandi kosningabaráttu í formannskjöri í sjálfstæðisflokknum en landsfundur flokksins verður haldinn 4.-6. nóvember næstkomandi.

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni á Hringbraut í Fréttavaktinni í opinni dagskrá og verður þátturinn aftur sýndur klukkan 20:30.

Telur tímasetninguna undarlega

Bjarni segir það ekki koma sér á óvart að Guðlaugur skildi bjóða sig fram en hann telur þó að tímasetning framboðsins sé undarleg.

„Tímasetningin kemur mér á óvart á þessum tímapunkti á kjörtímabilinu en hitt kemur mér ekki á óvart að fólk í Sjálfstæðisflokknum vilji láta til sín taka. Við viljum viðhalda blæbrigðum í flokknum og vonumst til þess að við séum stanslaust að endurnýja okkur og fá inn nýtt fólk,“ segir Bjarni

Hvers vegna hann telur tímasetninguna undarlega segir hann stutt frá því kosið var og því ekki tímabært að leita nýs formanns.

„Í fyrra var kosið og mitt markmið eftir kosningar var að koma saman ríkisstjórn aftur og við náðum að gera stjórnarsáttmála og við erum búin með eitt ár af fjórum í stjórnarsamstarfi. Ég er að vísa til þess að ef menn vilja gera breytingar á forystunni þá myndi ég kannski segja að almennt séð þá væri það ekki óeðlilegt í aðdraganda kosninga,“ segir Bjarni.

Finnur fyrir stuðningi fyrrum flokksmanna

Aðspurður um það hvað hafi farið úrskeiðis í stjórnartíð Bjarna og hvers vegna hann fari fram segist Guðlaugur ekki kominn til þess að gagnrýna formanninn heldur frekar fara yfir það sem hægt er að gera betur.

Hann segist jafnframt hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá aðilum sem hafi fjarlægst Sjálfstæðisflokkinn en séu tilbúnir að snúa til baka nái hann kjöri.

„Við vitum það að við höfum misst fólk frá okkur og það sem mér hefur fundist vera gott er að margir hafa hvatt mig áfram. Núna þegar þetta er komið fram þá er fólk sem er fyrir utan flokkinn og var hjá okkur sem segir að ef þú verður kosinn formaður þá kem ég aftur heim. Mér þykir vænt um það,“ segir Guðlaugur.

Mun Bjarni hætta ef hann tapar ?

Bjarni hafði áður gefið út að hann myndi hætta í stjórnmálum ef hann myndi ekki bera sigur úr bítum í þessari kosningu. Um það mál sagði Bjarni að ef hann tapaði á landsfundi myndi það þykja slík tíðindi að hann þyrfti verulega að hugsa sinn feril.

„Mér finnst ekkert mál að tala um þetta. En ég er í kosningabaráttu og ég er í henni til þess að vinna hana. Ég er með metnað til þess að klára stjórnarsamstarfið sem ég tryggði hérna í kosningunum í fyrra og það eru risastór mál á borði ríkisstjórnarinnar og við hjá flokknum höfum mikið verk að vinna,“ segir Bjarni

Flóknara en tal um fylkingar

Það hefur oft verið talað um tvær fylkingar í Sjálfstæðisflokknum. Guðlaugsfylkinguna, Bjarnafylkinguna, Áslaugarfylkinguna og svo framvegis.

„Þá ertu kominn með þrjár,“ segir Guðlaugur hlæjandi.

„Ég er náttúrulega búinn að starfa í Sjálfstæðisflokknum lengi og þetta er aðeins flóknara fyrirbæri en fólk vill láta líta út fyrir. En það er hinsvegar margir og ekki bara ég og Bjarni sem eiga sína fylgismenn og það eru allskonar hópar og þannig á það að vera. Það sem okkur vantar eru fleiri. Okkur vantar fleiri hópa og meira af fólki,“ segir Guðlaugur Þór.

Flokkurinn ekki klofinn

Bjarni segir aðspurður að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki klofinn.

„Ég held að við værum ekki að ræða þetta nema bara út af þessu framboði. Það hefði þá verið löngu fram komið ef að Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn. En við getum sagt að það er deigla í Sjálfstæðisflokknum og þar er verið að vinna með það hvernig við ætlum að spila úr stöðunni hverju sinni og hverjir ætla að taka þátt í að móta framhaldið og leiða okkur inn í framtíðina. Þannig að við erum lifandi stjórnmálaafl og mér þykir mjög vænt um að sjá það að það er kraftur í aðdraganda þessa fundar, það hefur vaknað líf út um allt land,“ segir Bjarni.

„Við höfum báðir verið að tala við fólk án vafa út um allt land og fólk sem hefur það frekar náðugt er stanslaust að fá símtöl í dag, frá okkur frambjóðendunum og fleirum og allir að spá í spilin og allar kaffistofur fullar af vangaveltum og hvað er verið að ræða í raun og veru? Það er verið að ræða framtíð Íslands.“

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.