Björn Leví Gunnars­son þing­maður Pírata segir al­menning blekktan í nýjum að­gerða­pakka ríkis­stjórnarinnar sem var kynntur í gær og fylgir nýjum kjara­samningum sem voru undir­ritaðir í gær. Björn fór yfir til­lögurnar í ræðu í störfum þingsins í dag og greindi frá því að á fundi fjár­laga­nefndar hefðu að­gerðirnar sér­stak­lega verið ræddar og sér­stak­lega sú að­gerð sem snýr að barna­bótum.

„Nú erum við að klóra okkur alveg rosa­lega mikið í hausnum yfir því hvað er eigin­lega verið að gera. Því fjár­heimildin virðist enda í ná­kvæm­lega sömu tölu og hún var í 2022. Það er ekki verið að breyta neinu,“ sagði Björn Leví og að sam­kvæmt út­reikningum séu barna­bæturnar í raun að lækka á næsta ári.

„Það sem við endum í erum ná­kvæm­lega sömu fjár­heimildum og var gert ráð fyrir. Það eru sem­sagt engar við­bætur. Það er verið að lofa sama peningnum tvisvar sinnum og það finnst mér vera blekking,“ sagði Björn Leví og að það væri blekkingar­leikur hjá for­sætis­ráð­herra að til­kynna þetta svona því sam­kvæmt á­ætlun væri þetta sama upp­hæð og var gerð ráð fyrir en út­hlutunar­reglum hefði verið breytt því eftir að launin hækkuðu þá kæmi skerðingin fyrr.

Fleiri vöktu máls á aðgerðapakkanum eins og Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingkona Vinstri grænna sem fögnuðu aðgerðapakkanum.