Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir almenning blekktan í nýjum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem var kynntur í gær og fylgir nýjum kjarasamningum sem voru undirritaðir í gær. Björn fór yfir tillögurnar í ræðu í störfum þingsins í dag og greindi frá því að á fundi fjárlaganefndar hefðu aðgerðirnar sérstaklega verið ræddar og sérstaklega sú aðgerð sem snýr að barnabótum.
„Nú erum við að klóra okkur alveg rosalega mikið í hausnum yfir því hvað er eiginlega verið að gera. Því fjárheimildin virðist enda í nákvæmlega sömu tölu og hún var í 2022. Það er ekki verið að breyta neinu,“ sagði Björn Leví og að samkvæmt útreikningum séu barnabæturnar í raun að lækka á næsta ári.
„Það sem við endum í erum nákvæmlega sömu fjárheimildum og var gert ráð fyrir. Það eru semsagt engar viðbætur. Það er verið að lofa sama peningnum tvisvar sinnum og það finnst mér vera blekking,“ sagði Björn Leví og að það væri blekkingarleikur hjá forsætisráðherra að tilkynna þetta svona því samkvæmt áætlun væri þetta sama upphæð og var gerð ráð fyrir en úthlutunarreglum hefði verið breytt því eftir að launin hækkuðu þá kæmi skerðingin fyrr.
Fleiri vöktu máls á aðgerðapakkanum eins og Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingkona Vinstri grænna sem fögnuðu aðgerðapakkanum.