Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri telur að þeir hópar sem hafa farið um miðborg Reykjavíkur og ráðist á aðra undanfarið sé blandaður hópur forhertra glæpamanna og ringlaðra krakka.

Sigríður Björg sat fyrir svörum í Silfrinu á RÚV í morgun.

„Ég held að það megi ekki blanda þessu saman. Ég held að þetta sé hvoru tveggja,“ sagði Sigríður Björk þegar hún var spurð hvort um væri að ræða forherta glæpamenn eða ringlaða krakka í tengslum við nýlegar árásir í miðborginni.

Að sögn Sigríðar Bjarkar er þetta annars vegar hópur sem stundar skipulagða brotastarfsemi og hins vegar hópur ungmenna. Það sé eitthvað sem þurfi að skoða, samfélagið í heild sinni.

Aðspurð hvort lögreglan og samfélagið sé að takast á við nýjan veruleika í ofbeldismálum segir Sigríður Björk vopnaburð hafa aukist. Það hafi verið að gerast smám saman.

Ofbeldisþróunin hafi líka breyst, myndböndin og annað sem ungmenni dreifi sín á milli. „Ég held að við eigum að fara bara rólega í að draga ályktanir,“ segir Sigríður Björk sem vill ekki taka undir orð um gengjastríð.

Hún segist þó skilja að fólk skuli vera hrætt við fréttaflutning af málinu og atburðinn sjálfan en mikilvægt sé að muna að Ísland sé örugg þjóð í samanburði við aðrar þjóðir. „Við megum ekki gleyma því og láta óttann ná tökum á okkur.“

Greint hefur verið frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið með stóraukinn viðbúnað í miðborginni um helgina vegna hótana sem gengu manna á milli á samfélagsmiðlum. Þar var meðal annars varað við mögulegum hefndarárásum vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club í síðustu viku.

Sigríður Björk segir lögregluna hafa staðið sig afskaplega vel og verið með aukinn sýnileika. Þá hafi allar hótanirnar verið teknar til skoðunar og lagt mat á áreiðanleika þeirra. „Það hefur orðið bylting í þjálfun lögreglunnar og við megum ekki gleyma því að þarna var mjög sýnilegt viðbragð,“ segir hún.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lýst yfir stríði gegn skipulagðri brotastarfsemi í kjölfar árásanna og segir Sigríður Björk hann meðal annars vera að bregðast við ákalli lögreglunnar.

„Lögreglan þarf að vera með fleiri frumkvæðisverkefni og fleiri rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi í gangi að hverju sinni. Það er raunveruleg ógn sem að okkur steðjar,“ segir Sigríður Björk og bendir á fjármunabrot, efnahagsbrot og allskyns brot sem skili hagnaði.

Sigríður Björk segir mikilvægt að styrkja lögregluna og að það hafi verið kallað eftir því frá árinu 2006.