Bænastund fór fram í Grindavíkurkirkju í gærkvöldi vegna skipverjans sem féll útbyrðis af fiskiskipi í Faxaflóa síðdegis á laugardag.

Að sögn Ragnars Rúnars Þorgeirssonar var kirkjan full og mikill samhugur í fólki.

Skipverjinn féll frá borði línuskips í eigu Vísis hf. og greinir Morgunblaðið frá því að lögregla og rannsóknarnefnd sjóslysa hafi þegar hafið rannsókn á slysinu.

Ekki er vitað hvað varð til þess að skipverjinn féll útbyrðis.

„Það voru allir í stjórn Vísis í kirkjunni og meira að segja sjálfur Samherja forstjórinn. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim, þeir hafa sýnt samhug,“ segir Ragnar Rúnar. Sjálfur tengist hann manninum fjölskylduböndum.

„Þetta var voðalega falleg stund og það var mikið um faðmlög eftir messuna. Það er mikill samhugur í fólki,“ segir Rangar Rúnar.

Leit var frestað á tíunda tímanum í gærkvöldi en alls tóku átta skip þátt í aðgerðum, varðskipið Þór, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar auk annarra skipa og báta.

Fimm skip bættust við leitina eftir hádegi í gær ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Skilyrði til leitar voru ágæt en leitað var á stóru svæði um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga.

Varðskipið Þór var á svæðinu í nótt og verður leit fram haldið í birtingu.