Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn á hoppukastalaslysinu sem átti sér stað við Skautahöllina á Akureyri í byrjun júlí í fyrra.

Hoppukastalinn tókst á loft með um hundrað börnum innbyrðis með þeim afleiðingum að sex ára stúlka slasaðist alvarlega.

Málið er nú komið til ákærusviðs að sögn Eyþórs Þorbergssonar, aðstoðarsaksóknara og staðgengils lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, í samtali við Fréttablaðið.

RÚV greindi fyrst frá.

Óljóst með ákæru

Ekki er ljóst hvort ákæra verði gefin út í málinu en að sögn Eyþórs voru nokkrir yfirheyrðir sem sakborningar vegna málsins.

„Það er eðlilegt, þeir hafa betri réttarstöðu sem sakborningar. Það er ekki þar með sagt að þeir verði ákærðir,“ segir Eyþór og bætir við að dómkvaddur matsmaður verði að öllum líkindum kallaður til til að skoða hvernig kastalinn var festur við jörðu.

„Málið snýst um það hvernig var gengið frá festingum á þessum kastala við jörðina. Þessir kastalar eiga að haldast við jörðu og það er ljóst að þessi kastali var ekki nægilega vel festur því hann losnaði,“ segir Eyþór.

Slasaðist alvarlega

Slysið átti sér stað sem fyrr segir í byrjun júlí í fyrra. Tugir barna voru í inni í kastalanum þegar hann tókst á loft og var hópslysaáætlun virkjuð skömmu eftir slysið.

Sjö voru flutt á sjúkrahús, þar af ein sex ára stúlka sem slasaðist alvarlega.

Rannsókn lögreglunnar á málinu hefur nú staðið yfir í tæpt ár og segir Eyþór það ekki óeðlilegan tíma aðspurður um lengd hennar. Nú séu um þrjú hundruð mál til rannsóknar hjá lögreglunni á Akureyri. „Það væri náttúrulega miklu betra ef það væri hægt að hafa þetta styttra en við höfum bara ekki fleiri hendur.“

Í janúar greindi Fréttablaðið frá áheita- og styrktarsíðunni Áfram Klara á Facebook sem stofnuð var fyrir Klöru litlu sem slasaðist alvarlega í slysinu.

Klara lenti á gjörgæslu eftir slysið og síðan þá hefur Klara sem nú er orðin sjö ára og fjölskylda hennar staðið í langri og strangri endurhæfingu.