Rúss­neski herinn hefur varið auknum tíma undan­farna mánuði í að sýna mátt sinn og megin með um­fangs­miklum her­æfingum. Það má skrifa að ein­hverju leyti á veik­leika og van­efni heima fyrir, segir Valur Gunnars­son sagn­fræðingur og sér­fræðingur í mál­efnum Rúss­lands.

Valur var gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar í Fréttavakt kvöldsins á Hringbraut. Fréttavaktin er á dagskrá alla virka daga kl. 18:30.

Valur var að senda frá sér bókina Bjarma­lönd sem fjallar um Evrópu­löndin í austri – Rúss­land, Úkraínu, Hvíta-Rúss­land og fleiri. Hann hefur búið bæði í Rúss­landi og Úkraínu um langa hríð og skrifar um reynslu sína í bókinni.

Danir eyddu stór­fé í að byggja upp her­stöðvar á Græn­landi sem Rússar tóku sem ógn. Ég held að þeim finnist þeir ein­fald­lega þurfa að gera eitt­hvað á móti,

„Dæmigerð kaldastríðslógík“

Valur segir að rúss­neski herinn geri í því að sýna hvers þeir eru megnugir, ein­fald­lega til þess að minna aðrar þjóðir á sig: „Þetta er bara þessi dæmi­gerða kalda­stríðs­lógík, báðir aðilar telja sig vera verja sig en báðir aðilar upp­lifa allt sem hinn gerir sem ógn.“

Ef Banda­ríkin sýna sig í norðan­verðu At­lants­hafi, þá mæta Rússar: „Danir eyddu stór­fé í að byggja upp her­stöðvar á Græn­landi sem Rússar tóku sem ógn. Ég held að þeim finnist þeir ein­fald­lega þurfa að gera eitt­hvað á móti,“ segir Valur.

Hann í­trekar að þar liggi ein­fald­lega gamla Kalda­stríðs­hugsunin að baki: „Það er enginn öruggur nema hann eigi miklu fleiri vopn heldur en and­stæðingurinn, en því betur víg­búinn sem þú ert því ó­öruggari verður hann og hann þarf þá að gera eitt­hvað á móti. Og þannig getur það haldið á­fram.“

Pútín í vanda

Vla­dimir Pútín Rúss­lands­for­seti má muna sinn fífil fegurri á valda­stóli: „Það má segja að á fyrri hluta ferils síns var Pútín var miklu meira í að reyna bæta efna­haginn, sem tókst svona á­gæt­lega, en eftir að hann kom aftur til valda þá ríkir al­gjör efna­hags­leg stöðnun. Þeir gera eigin­lega bara út á að selja olíu. En það sem hann getur sýnt fram á á móti er að hann inn­limaði Krím­skagann sem var gríðar­lega vin­sæl að­gerð í Rúss­landi,“ segir Valur. Það hafi ýtt undir þjóðar­stoltið.

Rússar, með Pútín í farar­broddi, standa hins vegar frammi fyrir ógn­væn­legri þróun hvað varðar fólks­fjölgun: „Þeim fer fækkandi á ógnar­hraða. Fæðingar­tíðnin er um 1,5 sem er enn minna en á vestur­löndum og þeir eru meira að segja enn að jafna sig eftir seinni heim­styrj­öldina þar sem að nánast heil kyn­slóð var drepin,“ segir Valur.

Þá hefur Co­vid-far­aldurinn leikið Rússa grátt: „Fólk hefur verið tregt til að taka Spút­nik, sem ku vera á­gætis bólu­efni. Að hluta til er á­stæðan sú að hvorki Evrópa né Banda­ríkin viður­kenna það þannig að af hverju ættirðu að taka bólu­efni sem þú mátt ekki ferðast með og kannski treystir ekki? Rússar eru skeptískir á það en það er aug­ljóst að þeir ættu að taka það og þarna mætti Evrópa kannski ein­fald­lega sam­þykkja það,“ segir Valur.

Hann segir jafn­framt að Pútín hefði átt að hætta árið 2008 þegar hann lét af em­bætti for­seta og tók við sem for­sætis­ráð­herra: „Ef hann hefði hætt 2008 þá hefði arf­leið hans verið mjög góð, frá sjónar­hóli Rússa. En því lengur sem hann situr því meiri stöðnun verður og því minna glæst verður arf­leið hans. Sam­kvæmt nýju stjórnar­skránni má hann sitja til 2036 sem er nánast ó­hugsandi. Ef hann væri skyn­samur þá myndi hann stjórna því hvernig hann færi frá, eins og Yeltsin gerði. Eða þá að hann reynir að sitja nánast fram á grafar­bakkann. Það er þegar komin mikil Pútin þreyta í menn,“ segir Valur.

Raunar styttist í að Pútín slái met Stalíns í setu á valda­stóli. Stalín var við völd í sam­tals 25 ár en Pútín er á sínu 22. ári og virðist ekki hugsa sér til hreyfings á næstunni.