„Það hvarflar ekki einu sinni að mér, ekki einu sinni á abstrakt hátt, að tala um þann möguleika að fallast á þann drullusokkshátt að það sé ekki hægt að skima á landamærum nema við gerum það. Hvaða þvæla er þetta? Það er enginn vandi fyrir þetta fólk að girða sig í brók, ná sér í þau tæki sem þau þurfa, ná sér í það fólk sem þau þurfa og ná sér í þann dugnað sem þarf til að geta gert þetta. Þetta er bara þvæla,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í Morgunútvarpinuá Rás 2 í morgun.

Líkt og greint var frá í gær hefur Íslensk erfðagreining hætt allri COVID-19 skimun. Síðustu sýnin verða afgreidd á mánudaginn. Í bréfi til forsætisráðherra lagði Kári til að sett yrði á laggirnar Faraldsfræðistofnun Íslands, í svari segir að verkefnisstjóra hjá sóttvarnalækni yrði gert að skoða tillöguna og svara fyrir 15. september. Kári sagði að ÍE hafi tekið að sér greiningu sýna á landamærum til að byrja með, engir tilburðir sé að sjá hjá stjórnvöldum að fá annan til að taka við. Þurfi því fyrirtækið að losna undan því að skima sem fyrst.

Karl G. Krist­ins­son, yf­ir­lækn­ir á veiru­fræðideild Land­spít­al­ans, sagði í samtali við MBLí gær að deildin væri ekki í stakk búin til þess að taka við landa­mæra­skimun af ÍE fyrr en í lok ág­úst. „Íslensk erfðagrein­ing ætlaði að taka þetta út ág­úst og við ætluðum að vera búin að auka af­kasta­get­una þá. Við erum að fá mikið af sjúk­linga­sýn­um inn og það er mikið að gera. Það er verið að brjóta niður veggi og gera breyt­ing­ar til þess að koma fyr­ir nýj­um tækj­um. Það er gjör­sam­lega úti­lokað að þetta verði klárt næsta þriðju­dag,“ sagði Karl.

Katrín sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að ákvörðun Kára kalli á nýja nálgun á landamæraskimunina. Hún muni leggja sitt af mörkum til að finna farsæla lausn. Mun hún funda með landlækni og sóttvarnalækni í dag um málið. Vonaðist hún til að geta rætt við Kára innan tíðar.

Kári sagði í Morgunútvarpinu í morgun að það væri með ólíkindum að heilbrigðiskerfið væri ekki búið að búa sig undir að vinna svona vinnu í ljósi þessa að það væri búið að horfa á veiruna í fjóra mánuði.

„Ég held að skringileikurinn liggi ekki í því að við höfum ákveðið að hætta. Skringileikurinn liggur ekki í því að við höfum veitt stjórnvöldum sjö daga frest til að taka þetta yfir. Skringileikurinn liggur í því að það hefur ekki verið neitt samband milli okkar og stjórnvalda,“ sagði Kári. „Nú er okkur sagt að það sé ekki hægt að skima á landamærum nema við komum að því. Við séum sá hluti af þessu öllu saman sem þau geti ekki lifað án.“ Við hafi tekið nefnd og starfshópur sem hafi ekki rætt við ÍE.

Kári segir að til þessa hafi ÍE verið meðhöndluð af stjórnvöldum sem einhverskonar boðflenna.

„Ég held að það sé ekki líklegt að það sé pólitísk hugmyndafræði sem býr að baki. Það er einhverskonar óskiljanleg… kannski hafa stjórnvöld ekki gert sér grein fyrir því hvað þessi vinna sem lýtur að því að hemja þennan faraldur, hvað hún er tæknilega flókin. Þetta er ekki bara að segja fólki að vera inni og fara ekki út og safnast ekki saman og setja fólk í sóttkví og einangrun, þetta er miklu flóknara en það. Kannski hafa þau haldið að þetta væri verkefni sem þau gætu boðið út og verktakafyrirtæki eins og Loftorka gæti boðið í það og þetta myndi allt ganga upp,“ sagði Kári.

„Þessi tími sem ríkisstjórnin ætlaði sér að fá til sín verkefnastjóra til að skoða þetta mál er jafn langur og allur sá tími sem fyrsti kafli af þessum faraldri gekk yfir landið.“ Þegar um sé að ræða faraldur þá sé þetta heil eilífð.

Kári segir að ekki hafi verið rætt við sig frá því hann sendi yfirlýsingu sína í gær. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi þó sent honum sms. „Ég fékk sms frá hæstvirtum forsætisráðherra, spurði hvort ég vildi koma niður í Stjórnarráðið og tala við hana í dag. Ég sagði við hana að ég héldi að það hefði lítið upp á sig en ef hún væri á annarri skoðun þá væri hún velkomin í hádegismat í Vatnsmýri í dag. Önnur samskipti hafa ekki átt sér stað.“