Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 6. maí 2022
22.46 GMT

Það var árið 1988 að Sigríður, þá 23 ára gömul, nýútskrifuð sem lífeindafræðingur og komin í starf hjá Blóðbankanum, átti von á sínu fyrsta barni.

„Þetta ár var skattalaust, þar sem verið var að breyta skattheimtunni og ég var ákveðin í að vinna eins og ég gæti til að eiga fyrir góðu fæðingarorlofi.“

Þar sem Sigríður stóð vaktina í nýju vinnunni á tuttugustu og þriðju viku meðgöngu hófust fæðingarhríðir og þurfti hún að leggjast inn á Landspítalann.

„Ég vann ekki meira þá meðgönguna og það var dælt í mig lyfjum til að stöðva fæðinguna því leghálsinn var farinn að opnast. Ég lá inni meira og minna alla meðgönguna en á þessum tíma var þáverandi maður minn í Danmörku við nám svo þetta var frekar leiðinlegur tími.“

Á þrítugustu og sjöundu viku meðgöngu fékk Sigríður grænt ljós á að halda til Danmerkur þar sem ráðgert var að barnið kæmi í heiminn.

„Ég hef svo sem ekki læknisfræðilega þekkingu en get ímyndað mér að lyfin sem ég fékk vikum saman áður hafi haft áhrif, því þegar kom að fæðingunni gerðist ekkert. En þar sem þetta var í Danmörku hef ég ekki fengið að sjá skýrsluna.“


Brútal aðgerðir


Þrátt fyrir harðar hríðir gerðist útvíkkunin mjög hægt og lýsir Sigríður því sem þá tók við sem „brútal“ aðgerðum.


„Belgurinn var sprengdur svo allt fór á fullt og á endanum kom barnið í heiminn á þremur klukkustundum. Ég var sjálf óttaleg písl á þessum tíma en barnið stórt og mat ljósmóðirin það svo að það þyrfti að klippa fyrir kollinum.

Það eina sem ég hef í raun fengið að vita að hafi farið úrskeiðis er að ljósmóðirin klippti mig á röngum stað og á röngum tímapunkti. Það varð til þess að ég rifnaði alla leið aftur og inn á við, fjórða stigs rof, endaþarmsvöðvi skaðaðist auk bandvefjanna og litlu vöðvanna þar í kring sem halda öllu á sínum stað.


„Það varð til þess að ég rifnaði alla leið aftur og inn á við, fjórða stigs rof, endaþarmsvöðvi skaðaðist auk bandvefjanna og litlu vöðvanna þar í kring sem halda öllu á sínum stað."


Ég var svo látin bíða í um tvær klukkustundir með fæturna í uppistöðum með taubleiu í opinu sem var allt rifið og blæðandi. Ég missti tvo lítra af blóði í þessum hamagangi og fékk blóðgjöf í kjölfarið. Enginn virtist þora að taka á málinu og var því kallað á lækni utan úr bæ til að sauma mig. Ég skildi dönsku illa og áttaði mig því ekki nægilega vel á því hvað væri að gerast.“


Fyrsta aðgerð af mörgum


Sigríður lá inni í fimm daga og lýsir bæði vanlíðan og undarlegum vinnubrögðum á þeim tíma.

„Ég kom ekki frá mér hægðum áður en ég fór heim og það var án gríns sett upp slanga, sem líktist helst venjulegri garðslöngu, til að reyna að skola út, án árangurs. Ég var samt send heim án þess að geta setið eða haft hægðir.“

Eiginmaður Sigríðar kom henni til heimilislæknis sem sá strax að saumarnir voru að gliðna og allt bólgið og sendi hana upp á spítala til skoðunar. „Þar kom í ljós blóðsöfnun, eða hematom, á stærð við greipávöxt, sem lokaði algjörlega fyrir allt fráflæði hægða. Því var ég lögð strax inn með barnið og fór í aðgerð þar sem svæðið sem hafði rifnað var opnað aftur og blóðið hreinsað út.“


„Ég kom ekki frá mér hægðum áður en ég fór heim og það var án gríns sett upp slanga, sem líktist helst venjulegri garðslöngu, til að reyna að skola út, án árangurs."


Þetta var aðgerð númer eitt en síðan hafa aðgerðirnar og inngripin verið vel á annan tug. Tilraunir til að leiðrétta þann skaða sem varð í fæðingunni og olli bæði þvag- og saurleka og gríðarlegri skerðingu á lífsgæðum.


Skömm og feluleikur


Sigríður var eins og fyrr segir 23 ára að eignast sitt fyrsta barn og skaðinn sem varð í fæðingunni hafði mikil áhrif á líf hennar í framhaldi.

„Þessu fylgdi mikil skömm og feluleikur, því ekki var talað um þessi mál fyrir 33 árum. Hægðaleki, þvagleki, erfiðleikar við að stunda kynlíf líkamlega og andlega, þetta voru tabú. Það hjálpaði ekki að vera þarna langt frá sínum nánustu og líklega lærði ég þarna að best væri að harka bara af sér.

Ég fór í aðgerð númer tvö sumarið eftir þegar ég flutti heim til Íslands en þá var sonur minn tíu mánaða. Vefir höfðu rifnað illa, legið var sigið og allt var í raun á röngum stað. Upp frá því hef ég farið í margar blöðrusigsaðgerðir, margar ristilsigsaðgerðir, aðgerðir í kringum endaþarm og grindarbotn.“


„Þessu fylgdi mikil skömm og feluleikur, því ekki var talað um þessi mál fyrir 33 árum."


Sigríður segir ástandið lagast eftir aðgerðir en þar sem vefir séu skemmdir endist batinn aldrei nema skamman tíma.

„Það er munur á hörku og seiglu. Ég hélt ég væri búin að sýna svo mikla seiglu en í raun hef ég verið að fara þetta á hörkunni.“


Vandi í vinnu og útivist


Sigríður starfaði lengi á hjartarannsóknardeild Landspítala.

„Þetta gat verið hrikalegt vandamál ef ég vann við aðgerðir enda ekki hægt að stökkva til. Þetta var alltaf á bak við eyrað, spurningin hvort ég myndi ná að hlaupa frá – líka í útivistinni,“ segir Sigríður sem hefur alltaf verið mikil útivistarmanneskja og ekki látið þennan vanda stöðva sig þar frekar en annars staðar.

„Hægðir voru alltaf númer eitt í lífi mínu,“ segir Sigríður og hlær. „Í göngum og á ferðalögum vildi ég alltaf vera ein í bíl en gat ekki sagt við fólk að ég vildi vera ein því ég væri með svo mikið kúkavesen.

Hver myndi nenna að hlusta á það væl eða reyna yfirhöfuð að skilja það? Í dag get ég sagt fólki að ég sé með stóma og þurfi því að sinna því og fólk sýnir því skilning,“ segir hún og hristir höfuðið yfir eigin fordómum.

Sigríður er mikil útivistarmanneskja og stefnir hún á boðsund yfir Ermarsund í byrjun júní. fréttablaðið/sigtryggur ari

Leghálsinn rifinn upp

Sigríður á þrjá syni og segir fæðingu númer tvö hafa gengið eins og í sögu.

„En í þriðju fæðingunni voru gerð stór mistök. Ég hafði farið í tvo keiluskurði áður en að þessari meðgöngu kom og því var ekkert eftir af leghálsinum.

Kvensjúkdómalæknirinn minn setti því upp tvo sauma á fjórtándu viku meðgöngu til að halda betur við. Hún bað okkur manninn minn að muna með sér þegar hún tæki saumana að þeir væru tveir – en vanalega væri aðeins settur einn. Ég fór svo í saumatöku á þrítugustu og fimmtu viku og þá segir hún að aðeins sé um einn saum að ræða.

Hún er sérfræðingur í áhættumeðgöngum en þrætti við okkur um þetta og svaraði með þjósti þegar við sögðum að það þyrfti að taka tvo: „Haldið þið að ég viti ekki hvað ég er að gera?“


„Hún er sérfræðingur í áhættumeðgöngum en þrætti við okkur um þetta og svaraði með þjósti þegar við sögðum að það þyrfti að taka tvo: „Haldið þið að ég viti ekki hvað ég er að gera?“


Sigríður segir ekki hafa gengið að malda í móinn og því hafi aðeins einn saumur verið tekinn. Þegar svo kom að fæðingunni gekk illa og útvíkkunin kom ekki.

„Ég reyndi að segja ljósmóðurinni að það væri saumur fyrir og var þá talin móðursjúk. Á endanum þurfti að rífa upp leghálsinn með afli,“ segir Sigríður og minnist þess sérstaklega að ljósmóðirin hafi orðið eldrauð í framan við átökin.

Nokkrum vikum eftir fæðinguna fór Sigríður til kvensjúkdómalæknis sem sagði hana með mikla sýkingu og dró út stóran saum.

„Hann sagði við mig: „Þú varst að fæða barn með samansaumaðan legháls.““

Ekkert meira hægt að gera

Sigríður segist hafa hringt í lækninn sem hafi saumað hana en hún hafi svarað: „Ég má ekki vera að því að tala við þig.“

Síðar hafi hún svo hringt til baka en komið með slakar afsakanir og útskýringar. „Þetta var hálfgert „orðasalat“ en ég gerði ekkert meira í þessu enda nóg að gera með að hugsa um stóra fjölskyldu. Þetta hjálpaði ekki til við ástandið á grindarbotninum og ég átti enn fleiri aðgerðir eftir.

Sigríður vill uppræta fordóma gegn fólki með stóma. Mynd/Sigtryggur Ari

Kvensjúkdómalæknirinn minn sem bjargaði mér algjörlega, Gunnar Herbertsson, lét af störfum fyrir nokkru og ég leitaði þá til nýs læknis sem vísaði mér upp á Landspítala.

Yndislegur læknir skoðaði mig þar og hún sagði: „Við getum ekki gert neitt meira fyrir þig – hefurðu íhugað að fá stóma?““ Sigríður lýsir tilfinningunni eins og að hafa verið slegin utan undir. „Þetta er ekki eitthvað sem ég hefði pælt í og ég upplifði ákveðna geðshræringu: Bæði ótta og eftirvæntingu.“ 


Prúttaði við lækninn


Aðgerðin sjálf er mikið inngrip en Sigríður segir hana ekki síður hafa tekið á andlegu hliðina. „Ég hef oft verið kölluð nagli en í dag finnst mér það nánast orðið neikvætt orð. Það skilaði því að ég fór að vinna eftir sex vikur.

Ég var þá skráð í 13 daga vinnutörn og þegar meiri hluta hennar var lokið hitti ég stómalækni sem horfði á mig og sagði: „Þú ert að fara í veikindaleyfi í eitt ár.“ Ég svaraði því neitandi og hún benti á að ég væri augljóslega búin á því og stakk þá upp á hálfu ár sem ég líka neitaði. Hún sagði þá: „Ókei, þá þrjá mánuði?“ Ég var að prútta við lækninn minn,“ segir Sigríður og hlær. „Hún sá bara niðurbrotna konu.“


Vann aldrei úr neinu

Sigríður hafði verið greind með áfallastreituröskun nokkru áður.

„Ég hafði verið í sambandi í þrjátíu ár og þar þolað töluvert andlegt ofbeldi. Ég sótti um skilnað árið 2014 en honum lauk þó ekki fyrr en sex árum síðar og það tók á. Ég greindist með krabbamein í læri árið 2010 og svo voru það þessar tvær fæðingar auk þess sem foreldrar mínir létust bæði þegar ég var ung kona.“


„Ég hafði verið í sambandi í þrjátíu ár og þar þolað töluvert andlegt ofbeldi."


Áföllin höfðu því verið mörg og Sigríður viðurkennir að hafa ekki endilega unnið úr þeim fyrr en eftir að greiningin um áfallastreituröskun kom til.

„Ég vann aldrei úr neinu. Þegar mamma dó tók ég einn dag í frí frá vinnu og svo bara mætti ég,“ rifjar hún upp.

„Nú er ég aftur á móti búin að vera í mikilli sjálfsvinnu, bæði hjá Kvennaathvarfinu og hjá sálfræðingum.“

Sigríður segir undanfarið ár hafa tekið á en hún jafnframt lært margt. Það hafi verið mikill lærdómur í því að sjá hvernig vinirnir brugðust við mótlætinu en það hafi hún ekki endilega getað séð fyrir.

„Vinskapur er mjög flókið fyrirbæri og maður getur ekki gert kröfur til vina sinna. En maður stendur og fellur með sjálfum sér og það er eins gott að elska sjálfan sig. Það er eins gott að lifa sínu lífi.“

Fordómar gegn sjálfri sér

Sigríður hefur verið í veikindaleyfi frá því í október sem svo varð til þess að hún sagði upp starfi sínu. Starfi sem henni líkaði mjög vel í en var of mikil álagsvinna.

„Ég þurfti að syrgja það að segja upp vinnu sem ég brenn fyrir. Það var ákveðinn ósigur. En svona er lífið, tímabil sem maður fer í gegnum.


„Ég þurfti að syrgja það að segja upp vinnu sem ég brenn fyrir. Það var ákveðinn ósigur."


Fyrstu vikurnar og mánuðirnir eftir aðgerðina fóru bara í skömm. Heilsuskömm. Fyrirbrigði sem ég er búin að uppgötva – ég veit ekki einu sinni hvort það er til.

Foreldrar mínir voru mjög fullorðnir þegar þeir áttu mig, ég er langyngst minna systkina og er því í raun á milli kynslóða. Ég er alin upp við að maður standi sig, gagnvart maka og vinnuveitanda.

Ég átti að vera iðin og ég er það og það er gott að því leyti að það hefur hjálpað mér í mínum bardögum að leita mér hjálpar. En ég var með fordóma gagnvart sjálfri mér, því ég er ekki undir sæng með háan hita en þó í veikindaleyfi.

En ég þakka fyrir þetta ár sem ég var föst heima. Þó það hafi verið erfitt. Það er svo mikil klisja en það er eins og maður þroskist ekki fyrr en maður lendir í einhverjum andskotanum.“

Eftir skilnaðinn sótti Sigríður ýmis námskeið og lærði meðal annars að kafa, hér er hún í Silfru. Mynd/Þröstur Njáls

Bjargar geðheilsunni


„Ég lærði það núna að ég þarf ekki að skammast mín fyrir það sem ég bið ekki um. Sum áföll sem við lendum í eru þó vegna þess að við völdum rangt, en það heitir að vera mannlegur.

Bentu mér á þann sem alltaf velur rétt. Ég hef valið stórar áskoranir eins og að skilja, en þær vel ég sjálf því mig langar að finna drauma mína.

Ég veit að einhverjir hugsa:

„Hvernig getur hún verið að fara að synda Ermarsundið ef hún er í veikindaleyfi frá vinnu?“

En þetta er eitthvað sem bjargar geðheilsu minni. Vill viðkomandi frekar að ég sitji heima og horfi á Netflix og borði popp? Þetta er líklega sagt í hugsunarleysi.“


Ermarsundið meira en markmið


Sigríður stundar eins og fyrr segir mikla útivist og það var í einni göngunni sem boðsund yfir Ermarsundið kom til tals en kona í gönguhópnum hafði skráð sig ásamt sínum hóp til leiks.


„Að synda yfir Ermarsundið er nokkurra ára ferli enda strangar reglur og þarf að kaupa sundrétt með miklum fyrirvara.

Hópurinn sem ég er að fara með hafði pantað fyrir þremur árum og hefur æft síðan. Fyrir rúmu ári sagði ég við þessa vinkonu að ef einhver dytti út mætti hún hafa mig í huga.“

Bárurnar ætla yfir Ermarsundið í byrjun júní. Hér eru þær: Bjarnþóra Egilsdóttir, Elsa Valsdóttir, Guðmunda Elíasdóttir, Harpa Leifsdóttir, Sigríður og Jórunn Atladóttir. Mynd/Elín Laxdal

Stuttu síðar var Sigríður komin á fund með hópnum.

„Þær voru sex og ein hætti við af persónulegum ástæðum og þá var ég til í slaginn. Þetta er búið að vera magnað ferli og þó að við viljum að sjálfsögðu synda þetta vitum við að allt getur gerst, lífið getur gripið inn í og stoppað þetta sund af.

En við erum orðnar svo þéttur hópur eftir allar æfingarnar, ólíkar konur með ólíkan bakgrunn sem þekktust lítið fyrir. Þetta spannst út í að verða mikið meira en bara markmiðið.“


Fyrsti stómaþeginn


Hópurinn flýgur utan þann 30. maí næstkomandi og á fyrsta sundrétt dagana 3. til 10. júní.

„Svo um leið og aðstæður og veður leyfa erum við fyrstar til að fara út.“


Sigríður segir hópinn, sem er á aldrinum 39 til 57 ára, hafa æft vel bæði tækni og þol.

„Við erum búnar að undirbúa okkur mjög mikið andlega enda snýst þetta mikið um það.“


„Við erum búnar að undirbúa okkur mjög mikið andlega enda snýst þetta mikið um það.“


Í undirbúningnum kom í ljós að Sigríður verður fyrsti stómaþeginn sem syndir Ermarsundið.

„Það er ein á leiðinni á næsta ári og ég er óvart að eyðileggja fyrir henni,“ segir hún og hlær.

Hún óttast ekki áskorunina

„Það að vera með stóma er ekki alltaf auðvelt enda stjórna ég ekki meltingunni og ekki get ég haldið í mér. Ég þarf að hafa nægar birgðir með mér af réttum vörum og þar hefur Icepharma komið sterkt inn. Við skrifuðum undir styrktarsamning og ég fæ alla þá aðstoð og ráðgjöf sem ég mögulega þarf fyrir sundið.“

Eins og fyrr segir hefur Sigríður sagt upp starfi sínum á Landspítala en það gerði hún að læknisráði.

„Hún sagði að ég væri hvorki með heilsu né hendur í það. Ég sagði upp og hef ráðið mig á annan stað þar sem ég hef störf undir lok sumars. Ég verð verkefnastjóri klínískrar kennslu læknanema við HÍ. Ég var mjög hreinskilin í umsóknarferlinu og mér var boðið að komið væri til móts við mig.“


Hamingjan að vera sáttur


Tímann frá vinnu hefur Sigríður augljóslega nýtt vel.


„Ég hef verið mikið ein undanfarið og þá hefur maður tíma til að horfast í augu við djöfla sína.

Ég hélt ég væri búin að því enda alltaf verið með annan fótinn í einhverri sjálfsvinnu en það er eins og við gefum okkur ekki tíma til að kafa almennilega djúpt í sárin okkar.

Við erum alltaf í slökkvistarfi, að lesa sjálfshjálparbók eða einhverja frasa á Facebook. Lifðu lífinu núna! Hvað er að lifa lífinu núna?

Ég þoli ekki heldur frasann að lifa og njóta. Fólk heldur að það sé bara að fara út að borða og í nudd. Það getur vel verið að það henti sumum en í mínum huga snýst þetta bara um að vera til. Taka jafn fagnandi á móti erfiðleikum og gleðistundum.

Ég get varla sagt þetta því þetta hljómar svo klisjukennt en þegar ég vakna á morgnana hugsa ég: „Vá! Ég er hérna megin! Ég get farið fram úr, hitað mér kaffi og klappað kisunum mínum. Ég er frjáls og get gert allt það sem ég vil.“

Hamingjan er í mínum huga ekki það að vera alltaf glaður. Ég er líka hamingjusöm þegar ég er döpur enda gleði og sorg tilfinningar sem koma og fara og vara ekki að eilífu. Hamingjan er bara að vera sáttur við lífið. Ég er ekki endilega sátt við hegðun allra gagnvart mér en það bara er ekki mitt.“


„Hamingjan er í mínum huga ekki það að vera alltaf glaður. Ég er líka hamingjusöm þegar ég er döpur enda gleði og sorg tilfinningar sem koma og fara og vara ekki að eilífu."


Ekki öll fötlun sýnileg


Sigríður vill að fram komi að hún samþykkti viðtal því hún vill hjálpa þeim sem eru með stóma og þora ekki að gera það sem þá dreymir um. Hún vill líka uppræta fordóma.

„Það er ekki öll fötlun sýnileg og á þessum stutta tíma sem ég hef verið með stóma hef ég lent í ýmsu og heyrt af öðru. Sem dæmi þá þurfum við að nota klósett fyrir fatlaða,“ segir Sigríður og sýnir mér skilríkin sem sýna að hún sé fötluð og megi nota aðstöðu fyrir fatlaða.

„Sjálf hef ég fengið athugasemdir fyrir það og vinkona mín lenti eitt sinn í árás í Leifsstöð. Hún hafði farið inn á klósett fyrir fatlaða og manneskja í hjólastól látið kalla á öryggisvörð sem opnaði á hana þar sem hún var að skipta um poka. En við þurfum aðstöðu til þess.“

En skilaboðin eru víðtækari.


„Þó þú sért að verða sextugur eða sjötugur þá geturðu ýmislegt. Finndu hvað þú brennur fyrir og þar næst ferðu í að leita leiða til að framkvæma drauminn.“

Athugasemdir