Í­búar í Kongs­berg hafa fengið þau fyrir­mæli að halda sér innan­dyra eftir að maður gekk um svæði sem kallast Vestsiden og skaut á fólk með boga og örvar. Frétta­blaðið ræddi við Guð­rúnu Elsu Giljan Kristjáns­dóttur, sem býr í Kongs­berg á­samt tólf ára syni sínum.

„Það er ekki bíll á götunni,“ segir Elsa en hún hefur út­sýni yfir hluta bæjarins. „Það hreyfist ekki neitt. Ég er bara að horfa á stilli­mynd. Og svo heyrum við í þyrlunum og herinn er kominn.“

Elsa segir að þyrlu­um­ferðinni hafa lægt á tíma­bili en svo farið af stað aftur. „Það er eitt­hvað að gerast enn þá en við vitum ekki hvað það er. Þannig að þetta er ó­þægi­legt,“ segir hún.

Var aðeins um tvö hundruð metra frá

Sonur Elsu, Jónar S. Giljan Gríms­son, var að­eins um tvö hundruð metra frá Vestsiden þegar á­rásin átti sér stað, að leika í hjóla­bretta­garði á­samt öðrum krökkum.

Guð­rún Elsa Giljan Kristjáns­dóttir ásamt syni sínum, Jónar S. Giljan Gríms­son
Aðsend mynd

Krakkarnir heyrðu í sí­renunum, sem urðu alltaf fleiri og fleiri. Síðan kemur móðir eins stráksins og sækir hann. Þá byrjar að hvíslast út í hópnum að eitt­hvað hafi nú gerst.

„Þau kíkja á fréttirnar og hann bregst alveg hár­rétt við að mínu mati, tók upp brettið og fór heim,“ segir Elsa.

Mikill viðbúnaður

Ekki er enn ljóst hve margir hafa látist eða særst en á­rásar­maðurinn hefur verið hand­samaður.

Fréttablaðið/EPA

Oey­vind Aas, lög­reglu­stjóri á svæðinu, segist telja að maðurinn hafi verið einn að verki en farið yfir stórt svæði, sam­kvæmt frétt NRK. Margir sjúkra­bílar hafa verið sendir á svæðið og allt til­tækt lög­reglu­fólk kallað til. Herinn er einnig á svæðinu ásamt lögregluþyrlum, sprengjusérfræðingum og sérsveit.

Lögreglunni barst fjöldi tilkynningar um ferðir mannsins frá klukkan korter yfir sex síðdegis á staðartíma, korter yfir fjögur á íslenskum tíma. Aas segir lögregluna vinna að því að ræða við sjónarvotta, sem nóg var af.