„Hversu galið er það að setja barn í þessa óvissu í miðri meðferð,“ spurði Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í vikunni. Guðbrandur vísaði þar í mál fjórtán ára drengs sem fæddist með tvíklofna vör og góm.
Fréttablaðið ræddi ítarlega við móður hans, Ragnheiði Sölvadóttur, í vikunni en í viðtalinu sagði hún heilbrigðiskerfið hér á landi vera bæði óskilvirkt og þunglamalegt.
Sonur Ragnheiðar fékk bréf frá Sjúkratryggingum Íslands á dögunum þess efnis að stofnunin taki ekki þátt í frekari niðurgreiðslu vegna tannréttinga nema hann fari í enn eitt endurmatið hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Mál þeirra sé því í biðstöðu.
„Við erum búin að standa í þessu ferli í bráðum níu ár, síðan hann var fimm ára gamall. Við fórum síðast í svona mat lok júní 2020, en þá var stutt síðan það var nýbúið að gera nákvæmlega sama matið. Þetta er eitthvað nýtt fyrirkomulag hjá þeim en við vitum ekkert og erum bara alltaf í lausu lofti. Maður er búinn að fá upp í kok af þessu, það er eins og maður hafi ekki annað að gera en að fara með hann í endurmat aftur og aftur,“ sagði Ragnheiður meðal annars í viðtalinu og bætti við:
„Hann er að fara að fermast í vor og eins og staðan er núna verður hann ekki einu sinni með framtennur á fermingarmyndinni sinni.“
Það væri nógu sorglegt ef þetta væri einsdæmi en svo er ekki.
Guðbrandur gerði málið að umtalsefni á Alþingi þar sem hann gagnrýndi það úrræðaleysi sem virðist ríkja í málefnum sem þessum.
„Það er ekkert smáræði sem lagt er á þennan dreng og móður hans. Hann er búinn að vera reglulegur gestur hjá læknum frá því að hann var fimm ára gamall og þetta hamlar honum í daglegu lífi. Hann getur ekki stundað fótbolta eins og hann langar til þar sem hann má ekki fá högg í andlitið. Móðir hans lýsir samskiptum, fyrst við Fæðingarorlofssjóð, síðan Tryggingastofnun og nú síðast Sjúkratryggingar Íslands.“

Guðbrandur benti á í ræðu sinni að með reglugerðarbreytingu frá 2019 hafi drengnum verið gert að gangast undir mat hjá tannlæknadeild Háskólans. Þar sé hann einhverra hluta vegna boðaður ítrekað í viðtal, að öðrum kosti falli niðurgreiðsla niður.
„Þetta setur alla á bið sem að málinu koma, tannréttingasérfræðinginn, kjálkaskurðlækninn og lýtalækninn, vegna óvissunnar sem verið er að skapa,“ sagði Guðbrandur sem endaði ræðu sína á þessum orðum:
„Hversu galið er það að setja barn í þessa óvissu í miðri meðferð? Er það virkilega skoðun hæstvirts heilbrigðisráðherra að fæðingargalli sem þessi lagist bara af sjálfu sér og því þurfi að setja hann endurtekið í endurmat á meðan meðferð stendur yfir? Það væri nógu sorglegt ef þetta væri einsdæmi en svo er ekki. Þessu þarf að breyta.“
