„Hversu galið er það að setja barn í þessa ó­vissu í miðri með­ferð,“ spurði Guð­brandur Einars­son, þing­maður Við­reisnar, í um­ræðum um störf þingsins á Al­þingi í vikunni. Guð­brandur vísaði þar í mál fjór­tán ára drengs sem fæddist með tví­klofna vör og góm.

Frétta­blaðið ræddi ítar­lega við móður hans, Ragn­heiði Sölva­dóttur, í vikunni en í viðtalinu sagði hún heil­brigðis­kerfið hér á landi vera bæði ó­skil­virkt og þung­lama­legt.


Sonur Ragn­heiðar fékk bréf frá Sjúkra­tryggingum Ís­lands á dögunum þess efnis að stofnunin taki ekki þátt í frekari niður­greiðslu vegna tann­réttinga nema hann fari í enn eitt endur­­matið hjá tann­­lækna­­deild Há­­skóla Ís­lands. Mál þeirra sé því í bið­­stöðu.

„Við erum búin að standa í þessu ferli í bráðum níu ár, síðan hann var fimm ára gamall. Við fórum síðast í svona mat lok júní 2020, en þá var stutt síðan það var ný­búið að gera ná­­kvæm­­lega sama matið. Þetta er eitt­hvað nýtt fyrir­­komu­lag hjá þeim en við vitum ekkert og erum bara alltaf í lausu lofti. Maður er búinn að fá upp í kok af þessu, það er eins og maður hafi ekki annað að gera en að fara með hann í endur­­mat aftur og aftur,“ sagði Ragn­heiður meðal annars í við­talinu og bætti við:

„Hann er að fara að fermast í vor og eins og staðan er núna verður hann ekki einu sinni með fram­tennur á fermingar­­myndinni sinni.“

Það væri nógu sorg­legt ef þetta væri eins­dæmi en svo er ekki.

Guð­brandur gerði málið að um­tals­efni á Al­þingi þar sem hann gagn­rýndi það úr­ræða­leysi sem virðist ríkja í mál­efnum sem þessum.

„Það er ekkert smá­ræði sem lagt er á þennan dreng og móður hans. Hann er búinn að vera reglu­legur gestur hjá læknum frá því að hann var fimm ára gamall og þetta hamlar honum í dag­legu lífi. Hann getur ekki stundað fót­bolta eins og hann langar til þar sem hann má ekki fá högg í and­litið. Móðir hans lýsir sam­skiptum, fyrst við Fæðingar­or­lofs­sjóð, síðan Trygginga­stofnun og nú síðast Sjúkra­tryggingar Ís­lands.“

Sonur Ragnheiðar fæddist með tvíklofna vör og góm og hefur verið í ferli hjá tannréttingalækni, lýtalækni og kjálkaskurðlækni í tæplega níu ár.

Guð­brandur benti á í ræðu sinni að með reglu­gerðar­breytingu frá 2019 hafi drengnum verið gert að gangast undir mat hjá tann­lækna­deild Há­skólans. Þar sé hann ein­hverra hluta vegna boðaður í­trekað í við­tal, að öðrum kosti falli niður­greiðsla niður.

„Þetta setur alla á bið sem að málinu koma, tann­réttinga­sér­fræðinginn, kjálka­skurð­lækninn og lýta­lækninn, vegna ó­vissunnar sem verið er að skapa,“ sagði Guð­brandur sem endaði ræðu sína á þessum orðum:

„Hversu galið er það að setja barn í þessa ó­vissu í miðri með­ferð? Er það virki­lega skoðun hæst­virts heil­brigðis­ráð­herra að fæðingar­galli sem þessi lagist bara af sjálfu sér og því þurfi að setja hann endur­tekið í endur­mat á meðan með­ferð stendur yfir? Það væri nógu sorg­legt ef þetta væri eins­dæmi en svo er ekki. Þessu þarf að breyta.“

Ragnheiður vakti athylgi á stöðunni í færslu á Facebook, þar sem hún birti myndir af munni sonar síns. Hún segir þetta ferli taka gríðarlega mikið á, þá sérstaklega á son sinn.