Magnús Tumi Guð­munds­son, jarð­eðlis­fræðingur, segir enga dramatík að finna á gos­stöðvum þrátt fyrir að þriðja sprungan hafi myndast í gær. Gliðnun hafi verið á um­ræddu svæði og við­búið að frekari sprungur myndu myndast. Vel hefur gengið á gos­stöðvum í dag að sögn björgunar­sveita.

Eins og fram hefur komið myndaðist þriðja sprungan í nótt á milli gos­staðanna tveggja í Geldinga­dölum og norðan við Mera­dali. Að sögn Davíðs Más Bjarna­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Lands­bjargar, hefur gengið vel á svæðinu í dag en fólk beðið um að fylgja af­mörkuðum slóða.

Magnús Tumi segir að opnun þriðju sprungunnar þurfi ekki að koma á ó­vart. „Það sem gerðist er að það var þarna gliðnun á öllu þessu svæði og svo fór kvikan upp þarna þar sem það var auð­veldast þarna ofan í Geldinga­dölum, ofan í dældinni. Svo hefur það byggst að­eins upp og þá byggist upp þrýstingur og þá leitar hann upp annars­staðar,“ segir Magnús.

„Það er það sem gerist þarna þegar þetta kemur að­eins upp þarna norðar. Þetta er sama kvika en finnur sér þægi­legri leið,“ segir hann. Síðan sé nokkuð ljóst að svæðið á milli sé þá í raun veikur punktur.

„Svo má líta á þetta eins og pípu. Það er smá sprunga í henni, byrjar að leika á einum stað og þá heldur þetta á­fram og fer að leka á öðrum stað og svo á milli þessara tveggja staða verður á­lagið að­eins meira og svo brestur það líka,“ segir Magnús.

Svæðið hefur verið opið í dag en björgunarsveitir biðja fólk um að koma vel klætt og fara varlega.
Fréttablaðið/Ernir

Rennslið sé af­rennslis­stýrt. Það hve mikið komi að neðan stýri því hversu mikið komi upp. „Hugsaðu þér bara að þetta sé pípa sem kemur upp að neðan, svo beygir hún til hliðar og fer út þar og beygan, ef við hugsum okkur það, er veik­leiki, sem er að bresta. Það er ekkert dramatískt við þetta, heldur bara lær­dóms­ríkt að sjá þetta.“

Hann bendir á að jarð­fræði­stofnun hafi upp­lýsingar um hraun­rennsli á sinni síðu. Línu­rit yfir það má sjá hér að neðan. Þar megi sjá að aukning hafi orðið fyrst í stað þegar ný sprunga myndaðist í fyrra­dag. Það hafi dottið niður aftur og nú spurning hvort það hafi aukist.

„En þetta eru ekki neinar stór­kost­legar breytingar á eld­gosinu,“ segir Magnús. Að­spurður segir hann það þurfa að koma í ljós hvort sprungur muni bresta á fleiri stöðum. „Þetta er svona sá staður sem er lík­legast að þetta haldi sig, þó það sé nú alveg á hreinu að það er ekkert hægt að slá neinu föstu um það hvernig þetta muni hegða sér.“

Eftir hádegi í dag, 6. apríl, voru teknar loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad myndavél Náttúrufræðistofnunar...

Posted by Jarðvísindastofnun Háskólans on Tuesday, 6 April 2021