Arnar Kjartansson segir frá aðila á stúdentagörðum sem virðist láta öllum illum látum í húsi á vegum Félagsstofnunar stúdenta við Suðurgötu í Reykjavík.

„Það er ein­hver fá­viti sem er að leika sér að því að eyði­leggja fyrir öðrum og sam­eignir byggingarinnar,“ segir Arnar Kjartans­son á Twitter síðu sinni.

Arnar segir frá aðila sem býr í stúdenta­görðum og virðist leika sér að því að eyði­leggja fyrir þeim sem búa í sömu blokk og aðilinn. Arnar tekur fram að hann sé sjálfur ekki bú­settur í stúdenta­görðum á Suður­götunni en hann hafi eitt sinn gert það og því sé hann enn í Face­book hóp blokkarinnar.

Frétta­blaðið ræddi við einn íbúa á Suður­götunni sem vildi ekki koma undir nafni. Í­búinn segist ekki vita hver stendur að þessum verknaði en að málið hafi verið til­kynnt til Fé­lags­stofnunar Stúdenta.

„Þetta er búið að vera í gangi í nokkrar vikur, það eru skemmdar­verk á ganginum og í þvotta­húsinu,“ segir í­búinn.

„Fyrst var þetta sak­laust en samt mjög illa gert,“ segir Arnar. Þá hafði aðilinn tekið hús­gögn sem voru á sam­eigninni og staflað þeim inn í lyftuna yfir nóttina svo þeir sem þurftu að komast í vinnu daginn eftir þurftu að nota stigann.

Verknaður aðilans fór að færast í aukana með tímanum. „Aðilinn tók risa­stórt grjót, setti í eina af fjórum sam­eignar­þvotta­vélum og setti hana af stað. Hún er núna ónýt,“ segir hann.

Því næst hafi aðilinn sett heimilis­á­höld og dag­blöð og sett þau í þvotta­vélina á­samt heilum dunk af þvotta­efni og stíflað hana. „Það er nú beðið eftir við­gerðum og hvort hún sé í lagi.“

Síðast í gær hafi aðilinn farið í sam­eigin­lega þvotta­húsið og kastað þvott sem var í þvotta­vélum og þurrkara á gólfið. „Þvotti hjá öðru fólki“, segir Arnar.

Þá segir Arnar einnig frá því að aðilinn hafi einnig falið öll slökkvi­tæki hússins í nokkra daga.

Í­búinn segir sam­eignina vera læsta svo aðilinn gæti ekki komist inn í húsið án þess að hafa lykil, því hljóti aðilinn að vera annar íbúi í húsinu.

Ekki náðist í Fé­lags­stofnun stúdenta við vinnslu fréttarinnar.