„Það er bara kertaljósið núna maður,“ segir Guðlaugur Ágústsson bóndi í Steinstúni í Árneshreppi á Ströndum. Rafmagnið var búið að vera tæpt í dag og ljósin blikkandi en fór það endanlega um klukkan 17. „Ég er nú í rólegheitunum hérna og var byrjaður að sjóða kjötsúpu. Hún fór á prímus. Það er nú notalegt að liggja hérna með kertaljósið og kjötsúpuna, alveg þangað til að ég þarf að hita upp húsið. Glansinn á sjálfsagt eftir að fara af þessu þegar þetta ílengist. Þá vill maður fá gamla góða rafmagnið sitt aftur,“ segir hann.

Í Árneshreppi er allt hitað með rafmagni en flestir bændur eru með ketil eða kamínu til vara. Ofsaveðrið hefur valdið miklum rafmagnstruflunum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og heilu þéttbýliskjarnarnir dottið út. „Sjálfsagt er þetta ísing á línu, feill í einangrun út af salti eða eitthvað slíkt. Rafmagnið er bilað inn á Drangsnes og inn í Húnavatnssýslu,“ segir Guðlaugur.

Strandir og Norðurland vestra er það svæði sem spáð var að stormurinn yrði verstur og viðvörunarstig haft rautt í dag og fram á nótt. Guðlaugur segir veðrið hafa versnað mikið um klukkan 16 í dag, þá aðallega vindurinn. Ekki hafi snjóað mjög mikið en vegna vindsins hafi snjóinn skafið og sest á ákveðna staði sem geri færð erfiða.

Guðlaugur, sem er á sextugsaldri og uppalinn í hreppnum, segir þetta ekki versta veður sem hann hafi séð. „Árið 2015, á svipuðum tíma árs, var verra veður. Þá fauk hluti af nýju þaki á fjárhúsi hjá mér og allt var í klessu. Ég vona að þetta sleppi núna,“ segir hann. En í svona veðrum skiptir það bændur hvað mestu máli að útihúsin haldi í vindinum, springi ekki upp hurðir eða þökin tætist af.

„Þetta eru svo stór hús. Þau eru byggð úr timbri og komin til ára sinna, á flestum bæjum byggð á árunum 1977 til 1980. Það er nú búið að endurnýja töluvert en þakfletirnir eru svo ofboðslega stórir,“ segir hann. Hvað skepnurnar varðar, segir hann veðrið lítil áhrif hafa á þær því þær séu allar innandyra núna.

Ekkert fólk sést nú á ferli í Árneshreppi en aðeins eru 12 manneskjur á staðnum að sögn Guðlaugs.

Aðspurður um skemmdir hjá bændum og sjómönnum í hreppnum segist Guðlaugur ekkert hafa frétt enn þá. „Ég fór út á höfnina í Norðurfirði og þar var allt með kyrrum kjörum en gríðarlegt hafrót. Úti á Gjögri gengur mikið á fyrir sjó í norðaustanátt, mun meira en hérna í Norðurfirði. Það er einn bátur í höfninni, báturinn minn, og hann er nokkuð vel festur. Ég lærði ungur að binda ágætishnúta.“