Fyrir­töku í máli Ingólfs Þórarins­sonar gegn Sindra Þór Hilmars- og Sig­ríðar­syni hefur verið frestað um tæpar tvær vikur vegna sótt­kvíar annars lög­mannsins í málinu. Ingólfur stefndi Sindra Þór fyrir um­mæli hans á sam­fé­lags­miðlum í fyrra um sig sjálfan og segir þau æru­meiðandi.

Sig­rún Jóhanns­dóttir, lög­maður Sindra Þórs Hilmars- og Sig­ríðar­son, segir frestunina ekki koma að sök, þau séu til­búin.

„Við teljum um­mælin hvorki æru­meiðingu né brot gegn frið­helgi einka­lífs. Um­mælin beindust ekki að Ingólfi per­sónu­lega heldur var þeim beint að afar mikil­vægari þjóð­fé­lags­um­ræðu. Með um­mælunum vildi Sindri Þór benda á að í dag er í raun svo til refsi­laust fyrir full­orðið fólk að hafa sam­farir við börn á aldrinum 15 til 18 ára,“ segir Sig­rún.

Fram kom í færslu sem Sindri Þór birti á Face­book í gær að fjöldi kvenna hafi leitað til lög­manns hans, með sögur af Ingólfi eftir að málið komst í há­mæli, bæði þol­endur og starfs­fólk fé­lags­mið­stöðva. Í við­tali við Sig­rúnu á RÚV í morgun kom svo fram að það standi mögu­lega til að kalla til vitnis í málinu konur sem hafa haft sam­band við hana og sagst hafa átt í kyn­ferðis­legu sam­bandi við Ingólf þegar þær voru á barns­aldri, á milli 15 og 18 ára.

„Ég get stað­fest það. Það hafa konur haft sam­band við mig og við erum að skoða það. Þetta er svo við­kvæmt og það er svo erfitt fyrir þessar konur að stíga fram af því að þetta er svo opin­bert mál,“ segir hún.

Sindri Þór sjálfur sagði í yfir­lýsingu sem hann sendi frá sér í gær að hann og Sig­rún muni mæta málinu af hörku og að þau muni sýna fram á að hann hafi hvergi sakað Ingólf um refsi­verðan verknað og þannig ekki gengið fram með æru­meiðandi um­mælum.

„Í mínum huga hefur per­sóna Ingólfs alltaf verið al­gert auka­at­riði. Ég þekki hann ekkert per­sónu­lega og er í raun og veru slétt sama um hans per­sónu. Það er ekki og hefur aldrei verið neitt at­riði í þessu máli. En það sem hann verður, og gerir sig, er birtingar­mynd þessa vanda­máls,“ segir Sindri Þór í sam­tali við Frétta­blaðið og á þá við það refsi­leysi sem er innan laga­rammans fyrir full­orðið fólk til að stunda kyn­mök með börnum á aldrinum 15 til 18 ára.

„Það er á­kveðið vanda­mál í ís­lensku réttar­fari, að svo lengi sem ekki sé hægt að sanna ein­hvers konar tælingu eða þvingun þá er ríg­full­orðnum mönnum gjör­sam­lega frjálst, og refsi­laust, að fá til sín og sænga hjá börnum. Ég held að allir, allt full­orðið fólk, sem um­gengst 15 ára krakka geti verið sam­mála mér í því að segja börn. Þetta eru 10. bekkingar,“ segir Sindri Þór.

Hann segir að í hans huga snúist málið að miklu leyti að kalla hlutina það sem þeir eru.

„Ég er þreyttur á þessari til­hneigingu til að tala undir rós og hlífa mönnum við því sem þeir eru raun­veru­lega að gera. Kyn­líf með ein­stak­lingi undir lög­aldri og eitt­hvað svo­leiðis. Það er bara hægt að segja að þeir séu að sofa hjá börnum. Barn er ein­stak­lingur undir 18 ára aldri sam­kvæmt ís­lenskum lögum og þá bara skulum við kalla þetta það sem það er,“ segir Sindri.

Í greinar­gerð lög­manns Sindra, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, kemur fram að allt frá því að Ingólfur varð þjóð­þekktur árið 2005 hafi verið há­værar sögu­sagnir um „sið­ferðis­lega á­mælis­verð og jafn­vel ó­lög­lega kyn­ferðis­lega hegðun“ Ingólfs og meðal annars vísað til grín­at­riðis í vin­sælum þáttum Steinda Jr. Þar sem slík hegðun er gefin í skyn og gert grín að. Þá er einnig í greinar­gerðinni farið yfir aðra opin­bera um­ræðu þegar um 30 sögur, sumar undir nafni og aðrar nafn­lausar, birtust í fyrra um Ingólf og sam­skipti hans við stúlkur undir aldri í tengslum við #met­oo bylgjuna sem þá hófst.

Ekki ný umræða

Sindri segir að sam­kvæmt þessu hafi honum ekki liðið eins og hann væri að segja eitt­hvað nýtt með um­mælum sínum á sam­fé­lags­miðlum í fyrra.

„Um­ræðan er ekki ný af nálinni. Grín-sketsið frá Steinda er um tólf ára gamalt og þar grínast hann með Ingólf niður í bæ með allt of ungum stelpum og brandarinn hefur ekkert „take“ nema að hann hafi ein­hverja al­menna vísun og fólk fatti grínið, annars er þetta einka­húmor. Þannig hefur um­ræðan verið lengi í gangi en breytingin sem er núna, blessunar­lega, er að í stað þess að full­orðið fólk hlæi að þessu eða skelli skuldinni á krakkana þá er á­byrgðinni varpað þangað sem hún á heima. Á full­orðna menn sem eru, að því er virðist, að nýta sér geysi­legan valda­mun til þess að fá það sem þeir vilja,“ segir Sindri Þór sem segir að það sem hann segi á sam­fé­lags­miðlum sé til­vísun í það sem ein­hver annar hefur áður sagt.

Hættir ekki að styðja þolendur

Spurður hvort að málið hafi haft letjandi á­hrif á hann til að halda á­fram þátt­töku í sam­fé­lags­legri um­ræðu um kyn­ferðis­brot í sam­fé­laginu segir Sindri Þór alls ekki svo vera. Hann telji mál­efnið mikil­vægt og að hann muni halda á­fram að styðja Öfga og taka þátt.

„Ég er for­réttinda­pési að því leytinu til að þetta er pirrandi að standa í þessari kæru, þetta drenar mann af orku og tíma, en þetta er ekki að ógna mér fjár­hags­lega eða neitt slíkt. Hvað það varðar stend ég ef­laust betur en margur aktiv­istinn sem maður hefur séð hrökklast frá vegna þess að þátt­takan ógnar fjár­hags­legu öryggi og fram­tíð. Ég er blessunar­lega ekki þar, alla­vega ekki enn,“ segir Sindri Þór léttur.

Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi í leik­húsinu þar sem hann starfar og tals­verðan með­byr frá bæði sam­starfs­fólki sínu og þeim lista­mönnum sem hafa komið til að starfa í leik­húsinu.

„Ég hef ein­göngu fundið styrk og hlýju, og þakk­læti fyrir að taka þennan slag.“