Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, segir úrsögn varaþingmanns flokksins og annarra félaga í vikunni ekki þær fyrstu og að hún búist ekki við því að þær hafi áhrif á landsfund flokksins sem er um helgina. Í það minnsta sex þingmenn hafa, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu VG, sagt sig úr flokknum eftir að útlendingafrumvarpið var samþykkt sem lög á þingi í vikunni.
„Það er alltaf leiðinlegt þegar leiðir skilja í stjórnmálum en það er ekki óvanalegt. Þetta þekkjum við vel í VG. Ég vil segja það að ég tel að þingmenn sem hafa unnið að þessu máli hafi lagt sig fram um að eiga virkt samtal við grasrót flokksins,“ segir Katrín og að það hafi skilað sér í breyttu frumvarpi.
„Það voru gerðar grundvallarbreytingar á því vegna krafna frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði sem eiga beinar rætur að rekja til grasrótarinnar og það sama má segja um breytingar sem urðu á því í þinglegri meðferð,“ segir Katrín og að þingmenn VG hafi unnið að málefninu af heilindum.
Síðar í dag hefst landsfundur VG á Akureyri og segist Katrín eiga von á góðri stemningu á fundinum. Þetta séu ekki fyrstu úrsagnirnar úr flokknum og að hún telji þær ekki hafa áhrif.
„Ég á von á því að það verði góð stemning. Það er góð mæting þótt hann sé utan höfuðborgarsvæðisins og ég á von á góðum umræðum, eins og alltaf,“ segir hún að lokum.
Í tilkynningu frá VG fyrr í dag kom fram að um 200 félaga sækja fundinn sem hefst klukkan 17 í dag. Katrín flytur setningarræðu klukkan 17.30 sem verður hægt að horfa á í streymi. Kosið verður til stjórnar og flokksráðs á fundinum.