Joe Biden, til­vonandi for­seta­fram­bjóðandi Demó­krata, og vara­for­seta­efni hans, öldunga­deildar­þing­maðurinn Kamala Har­ris, komu saman fram í skóla í Delaware í gær en Biden til­kynnti síðast­liðinn þriðju­dag að hann hafi valið Har­ris sem vara­for­seta­efni sitt. Um er að ræða fyrsta við­burðinn í kosninga­bar­áttu Biden og Har­ris.

Biden hafði þegar gefið það út að hann kæmi til með að velja konu til að gegna em­bættinu og kom það fæstum á ó­vart að hann skyldi velja Har­ris þar sem hún var talin vera einn lík­legasti kosturinn en hún hefur setið í öldunga­deildinni frá 2016 og var þar áður sak­sóknari. Sjálf bauð hún sig fram til for­seta í upp­hafi 2019 en hún dró fram­boð sitt til baka í desember sama ár.

Bandaríkjamenn krefjast leiðtoga

„Á­kvörðunin sem við þurfum að taka í nóvember mun skera úr um fram­tíð Banda­ríkjanna í mjög, mjög langan tíma,“ sagði Biden á fundinum. Þá bætti hann við að Donald Trump væri þegar farinn að ráðast á Har­ris. „Það kemur ekki á ó­vart því að það að væla er það sem Donald Trump gerir best, betur en nokkur annar for­seti í sögu Banda­ríkjanna.“

Har­ris fór ekki leynt með sínar skoðanir á sitjandi Banda­ríkja­for­seta, Donald Trump, en hún sagði Trump vera ó­hæfan leið­toga sem hafði skilið Banda­ríkin eftir í tætlum. „Allt sem skiptir okkur máli, efna­hagurinn okkar, heilsan okkar, börnin okkar, það land sem við búum í, það er allt í húfi,“ sagði Har­ris og bætti við að Banda­ríkja­menn væru að kalla eftir leið­toga. „Ég er til­búin til að hefjast handa.“

Tæpar tólf vikur í kosningar

For­seta­kosningarnar í Banda­ríkjunum fara fram þriðja nóvember næst­komandi en bæði Trump og Biden taka form­lega við til­nefningu flokkanna á næstu vikum. Þrjár kapp­ræður koma til með að fara fram milli Biden og Trump í septem­ber og októ­ber á meðan Har­ris og Mike Pence, vara­for­seti Banda­ríkjanna, takast á í kapp­ræðum í októ­ber.

Eins og staðan er í dag er Biden að mælast með meira fylgi á landsvísu en hann er búinn að vera með um og yfir 50 prósent fylgi síðustu mánuði á meðan Trump er með um 42 prósent. Biden vonast til að forysta hans verði enn meiri eftir landsfund Demókrata í Milwaukee í Wisconsin í næstu viku.