„Ég er kominn með íbúð,“ segir Valdimar Númi Hjaltason og bætir við að ef allt gangi eftir fái hann íbúðina afhenta þann 1. maí næstkomandi. Númi, sem er fimmtugur og í hjólastól, hefur búið hjá öldruðum föður sínum í Hafnarfirði vegna þjónustuskorts hjá ríki og sveitarfélagi.

Þrátt fyrir að vera kominn með íbúð má segja að Númi sé á milli steins og sleggju því ef hann flytur inn í íbúð á vegum Sjálfsbjargar í Reykjavík þá dettur hann útaf biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ.

„Þá verð ég í þrjátíu fermetra stúdíó íbúð það sem eftir er,“ segir Númi.

Ófyrirsjáanlegir biðlistar

Fréttablaðið greindi frá sögu Núma í lok febrúar síðastliðinn. Númi hefur verið á biðlista eftir húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ en hann hefur ekki hugmynd um hvenær röðin kemur að honum þar sem biðlistarnir eru ekki fyrirsjáanlegir og enginn getur sagt til hvar hann stendur í röðinni.

„Þetta er rosa erfitt að ákveða sig og hugsa, maður þarf að hugsa eins og skákmaður svona tíu leiki fram í tímann,“ segir Númi um húsnæðismálin en bætir við að hann sé búinn að skrifa undir leigusamning. Hins vegar sé hann hikandi um framhaldið.

Býr hjá föður sínum

Þann 13. júlí 2019 var Númi að fagna plássi sem hann hafði fengið á frystitogara. Um kvöldið fékk hann mikinn höfuðverk og endaði á bráðamóttökunni. Eftir langa bið kom í ljós að hann hafði fengið heilablæðingu sem leiddi niður í mænugöng. Þremur aðgerðum síðar endaði Númi í hjólastól í febrúar 2021.

Í nóvember síðastliðinn sagði Númi skilið við maka sinn eftir sjö ára samband. „Sambönd endast ekkert sérstaklega vel þegar annar aðilinn er í stanslausum sársauka,“ sagði Númi í samtali við Fréttablaðið í febrúar og kvaðst hann heppinn að hafa fengið inni hjá föður sínum.

Húsnæðið sem faðir Núma býr er þó ekki kjörið fyrir einstakling í hjólastól en Númi hefur til að mynd þurft að baða sig í Salalaug þar sem ekki er aðgengi fyrir það í íbúð föður hans.