Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, ekki eiga inni afsökunarbeiðni frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur vegna ummæla hennar um Ásmund.

Forsætisnefnd þingsins staðfesti í dag álit um að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur þingsins vegna ummæla þess efnis að rök­studdur grunur væri um að Ás­mundur hefði dregið sér fé í tengslum við endur­greiðslur þingsins.

Ásmundur sagðist í samtali við mbl.is í kvöld hafa búist við afsökunarbeiðni frá Þórhildi Sunnu vegna málsins. Í færslu sem Björn Leví birti á Facebook í kvöld segir hann Ásmund ekki eiga neina heimtingu á slíku.

„Nei Ásmundur,“ skrifar hann. „Þegar þú misnotar stöðu þína sem þingmaður til þess að fá endurgreiðslur fyrir innanflokks prófkjör og í kosningabaráttu sem frambjóðandi - eins og þú viðurkenndir í Kastljósi - þá skuldar þér enginn afsökunarbeiðni fyrir að segja að nákvæmlega það sé rökstuddur grunur um að það þurfi að rannsaka hvort það sé brot á lögum og reglum um endurgreiðslur starfskostnaðar,“ bætir hann við.